Magnaður staður en ...

Ég er svo heppinn að hafa nokkrum sinnum komið í Grímsvötn, bæði gangandi á skíðum og í jeppaferð. Þetta er einstakt svæði að öllu leyti, þrungið spennu en fegurðin er tilkomumikil. Oft er ekkert að sjá nema bölvaða þokuna kannski þarf ekki nema að bregða undir sig skíðunum og renna sér niðr'úr henni í glaðasólskin.

Alltaf er ég samt dálítið smeikur þegar ég kem í Grímsvötn. Ég óttast það sem ég sé ekki. Útfallið úr vötnunum, sprungurnar á vötnunum sem bíða átekta undir snjónum, hitan þarna undir sem býr til hvompur sem geta gleypt mann og mús.

Menn hafa kynnst ýmsu þarna. Ég hef jafnan átt góða vist á Grímsfjalli, stundum veðurtepptur, stundum í glampandi sól og hita.

Mér er minnisstæð sagan sem Leifur Jónsson læknir, mikill Útivistarmaður, segir stundum í góðra vina hópi. Þetta er sagan um fall hans og félaga síns ofan í vötnin. Þeir voru á leið frá skálanum á Grímsfjalli og ætluðu í austur. Hríðin var dimm en þeir höfðu góða áttavitastefnu. Leifur rak lestina. Sá sem var á undan honum missti af hópnum og gekk fram af og féll niður, líklegast um fimmtíu til sextíu metra. Leifur gekk á eftir og undraðist um félaga sinn, fylgdi skíðaförunum og gekk líka framaf í blindri hríðinni. Hann lenti á svipuðum stað og félaginn. Báðir sluppi þeir tiltölulega ómeiddir en mig minnir að Leifur hafi tapað skíðunum sínum.

Bryndís Brandsdóttir, jarðfræðingur, ók fallegum, rauðum, Toyota DoubleCab framaf nokkrum árum síðar. Þá var líka blindhríð og líklega var gps tækið ekki nógu nákvæmt. Hún sagði mér einu sinni frá þessari niðurleið sinni er við hittumst á flugvellinum á Höfn. Það var mögnuð saga.

Einu sinni gengum við útivstarhópur á sautján klukkustundum frá Kverkfjöllum í Grímsfjall, man ekki vegalengdina en hún er ærin. Dagurinn var sólríkur og heitur og kvöldið og nóttin yndisleg. Færið var gott en eftir svona langa göngu var stórkostlegt að koma inn í upphitaðan skála. Jöklarannsóknarfélagið er með þrjá skála, minnir mig á fjallinu. Gamla skálann og tvo nýja, annar er eldhús og gistiaðstaða, hinn er salerni, sturtur og gufubað. Þvílíkur lúxus á einu af merkilegastu eldfjöllum heims.

Ég man ekki hvort það var í þessari ferð eða einhverri annarri sem við höfðum fengið vélsleðamenn til að fara með vistir fyrir okkur í skálann á Grímsfjalli. Hugsuðum við gott til glóðarinnar enda alkunna að skíðamenn bera ekki þungan mat með sér í bakpokum. Við gripum hins vegar í tómt. Einhverjir aðrir voru búnir að éta frá okkur matinn.Seinna komumst við að því að það voru félagar í einhverjum breskum leiðangri sem fór frá vestri til austurs yfir jökulinn og þóttust síðan hafa gert það fyrstir allra. Auðvitað var það bölvuð lýgi enda ekki við öðru að búast af mannfýlum sem stela mat frá heiðarlegum gönguskíðamönnum ... eða þannig!

Ég ætla ekki í bráð á Grímsfjall, hvorki gangandi né akandi. Það er of stutt síðan ég datt í bannsetta sprunguna og enn er ég hræddur við jökla. Ástæðan er það sem ég sé ekki ... 


mbl.is Grímsvötn á lista merkilegustu eldfjalla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband