Réttur hinna landlausu landsmanna

Það er stórt nafn „Landsamtök landeigenda á Íslandi“ ... Hver á Ísland? spurði maður nokkur og annar svaraði að bragði: Bændur, og svo bætti hann við landeigendur.

Auðvitað á maðurinn hér aðeins við beinan eignarétt. Frá örófi alda hefur stærð jarða miðast fyrst og fremst við þau hagnýtu not sem hafa mátti af þeim og þá eingöngu til búskapar. Utan heimajarða hafa menn á ítök í skógum til eldviðar eða kolagerða, stærri svæða sem afrétta, en um eignir var aldrei um að ræða því hver hefði viljað eiga stærri lönd en hann réði við að annast og hver hefði getað selt slík lönd. Varla hefur nokkur maður átt heiðarnar, fjöllin, miðhálendið og jöklanna svo eitthvað sé nefnt.

Getur einhver haldið því fram að eigandi einfaldrar bújarðar eigi hreinlega fjallið fyrir ofan bæinn? Fjall sem er ekkert annað en fljúgandi björg og skriður þar sem varla sést stingandi strá né nokkur maður eða skepna hafi farið um.

Það er án efa ekkert annað en forn lygisaga að jörðin Reykjahlíð sé svo landmikil að hún eigi land allt suður að þeirri mörkum þeirrar bújarðar er áður var nefnd Skaftafell en er nú hluti af samnefndum þjóðgarði?

Gerir einhver kröfu til að eiga Kverkfjöll að hluta eða öllu leyti? Hver á Ódáðahraun eða Dyngjufjöll? Með hvaða rétti getur einhver talist eigandi Kaldbaks við Eyjafjörð eða Kinnarfjöll eða Víkurfjöll? Hvað þá með Kiðagil, Trölladyngju, Gæsavötn eða Urðarháls? Allir þessir staðir verða þjóðlenda gangi kröfur fjármálaráðherra fram.
„Fólkið fyrir norðan er ekki það eina sem hefur þurft að berjast gegn þessum yfirgangi ríkisvaldsins," segir í leiðara Fréttablaðsins 15. nóvember 2006 um kröfur fjármálaráðherra um þjóðlendur á austanverðu Norðurlandi. Skilningur leiðarahöfundar virðist ekki rista djúpt. Hann heldur að þjóðlenda merki land í eigu ríkisins en það er nú öðru nær.

Svo fremi sem meintir landeigendur kvarta þá virðist vera réttlætanlegt að taka undir kvein þeirra. Staðreyndin er hins vegar sú að liggi ekki skýr og lögmæt gögn um landamerki þá má draga stærð jarðar í efa. Svo einfalt er málið.

Menn hafa frá upphafi landnáms á Íslandi deilt um lönd og landamerki og það er ekki nýtt að landeigendur grípi til margvíslegra ráða til að „stækka" jarðir sínar. Ár, lækir og sprænur hafa breytt um farveg, jafnvel þornað upp. Jöklar hafa gengið fram og eyðilagt lönd og hundruðum ára síðar hörfað. Hver á nú það land sem áður var hulið jökli? Stækkar land aðliggjandi jarða við það eitt að jökullinn hörfar eða verður til eitthvert tómarúm?

Hvar er steinninn stóri sem áður markaði línu til austurs í fossinn og hvort á að miða við fossinn eða miðja ána en ekki þennan eða hinn bakkann? Jú, steinninn þekkist ekki lengur og fossinn og áin eru löngu horfin og til hvaða ráða má þá grípa ef upp sprettur deila?

Margir muna eftir röksemdum lögmanns Austur-Eyjafjallahrepps sem þá hét, er ráðist var með gjafsókn dómsmálaráðuneytisins að ferðafélaginu Útivist fyrir það eitt að endurbyggja ónýtan skála efst á Fimmvörðuhálsi, í 1000 m hæð yfir sjávarmáli. Í málflutningi lögmannsins sem nú er umboðsmaður Alþingis var því haldið fram að skálinn stæði innan landamerkja tiltekinnar jarðar sem þó var eitt þúsund metrum neðar og í 18 km fjarlægð. Hvernig það gat gerst að jörð gæti átt „land" þar sem jökull hafði verið í hundruð ára fékkst aldrei útskýrt.

Landeigendur bera oft fyrir sig þinglýsingar á landamerkjum. Á móti má spyrja hversu góð og ábyggileg gögn þinglýsingar eru, sérstaklega þær sem eldri eru. Dæmi eru til að hér áður fyrr hafi verið þinglýst bréfum sem gamalt fólk hafði handskrifað um landamerki bújarða sinna, byggt á minni eða sögusögnum og yfirleitt óvottfest. Þannig gögn og fleiri af því tagi geta auðvitað ekki staðist og skiptir engu hversu gamlar þinglýsingarnar eru,

Menn hafa eðlilega leitað gagna í fornbréfasöfnum um landamerki en grunur leikur jafnvel á að þaðan hafi gögn verið numin á brott til þess eins að koma í veg fyrir að sönnunargögn finnist um deilumál.

Hugsanlega hefði fjármálaráðuneytið getað staðið öðru visi að kröfum sínum í þjóðlendumálunum, en það er fjarri öllu lagi, að ráðuneytið hefði átt að láta hagsmuni landeigenda ráða ferðinni. Það eru meiri hagsmunir í húfi en landeigenda, og því er sú krafa eðlileg, að landeigendur fari aðeins með það land, sem þeir geti fært sönnur á að þeir eigi, - á því byggist eignarétturinn. Það er ekki eignaréttur né heldur er það sanngjarnt að Alþingi samþykki viðbótarlandnám mörgum öldum eftir að landnámi lauk.

Ég tel það skipta miklu máli fyrir þjóðina að verkefni samkvæmt þjóðlendulögunum verði leyst og reynt verði sem kostur er að eyða allri óvissu um mörk eignarlanda. Nokkur árangur hefur náðst en þó vantar talsvert upp á að lögin taki á öllu því sem deilt er um. Breytingar á landnotkun hafa orðið gríðarlegar á undanförnum árum. Nám ýmiskonar er orðið mjög ábatasamt, virkjanir, ferðaþjónusta, vegalagning, uppgræðsla og fleira og fleira má upp telja. Í þessu sambandi man ég eftir óbilgjarnri kröfu meintra eigenda jarðarinnar Fells sem telja sig eiga Jökulsárlón við Breiðamerkurjökul. Þeir gerðu einu sinni kröfu til þess að öllum myndatökum við Lónið væri hætt nema til kæmi greiðslur til þeirra!

Hver á Heimaklett í Vestmannaeyjum, Hamarinn í Vatnajökli eða Heljarkamb og Morinsheiði? Er til þinglýstur eigandi að Stapafelli undir Jökli, Sátu, Skyrtunnu og Kerlingunni í Kerlingarskarði. Hver á Tröllkallinn eða Böllinn við Ballarvað í Tungnaá? Og hver skyldi nú eiga Móskarðshnúka?

Þjóðlendulögin eru of mikilvæg til þess að þrýstihópur landeigenda megi fá nokkru ráðið um framgang þeirra.

Enn er óvissa um mörk eignarlanda á Íslandi ekki síður en árið 1998 þegar lög um þjóðlendur voru samþykkt af Alþingi. Vissulega hefur talsverðri óvissu verið eytt með því að úrskurðir hafa fengist um landamörk nokkuð víða.

Hins vegar skipir nú metu máli hver sé réttur okkar hinna, okkar landlausu landsmanna. Eigum við að láta hirða af okkur þau not sem landlausir hafa haft af Íslandi frá upphafi Íslandsbyggðar? Eigum við að sætta okkur við það að meintir landeigendur girði lönd sín rétt eins og gert er uppi á Hellisheiði þar sem girðing hefur verið reist yfir hia fornu þjóðleið.

Ég segi nei! 


mbl.is Fundað um þjóðlendumál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Ætli þú þyrftir ekki að lesa þig dálítið betur til um þessi flóknu mál. Þau eru ekki einföld og Óbyggðanefnd gerir málin ekki einfaldari.

Mosi 

Guðjón Sigþór Jensson, 10.2.2008 kl. 18:25

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Ég þekki ágætlega til þessara mála og mun halda áfram að fylgjast með þeim, þakka þér samt fyrir ábendinguna. Hins vegar tel ég að Óbyggðanefnd vinni þarft og gott starf í flóknum málum þó ég sé ekki alltaf sammála henni.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 10.2.2008 kl. 19:37

3 Smámynd: Þórir Kjartansson

Það vita allir sanngjarnir menn, sem kynnt hafa sér þessi mál að ríkið leggur óbærilega sönnunarskyldu á landeigendur um  eignarrétt jarða sinna. Segja má að landeigandi þurfi að geta rakið eignasögu og landamerkji jarðar sinnar allt aftur í landnám eigi hún ekki að hluta eða mestu leyti að vera af honum tekin. Setjum svo að Sigurður Sigurðarson eigi gamalt íbúðarhús í gamla miðbæ Reykjavíkur. Mér er það mjög til efs að hann gæti lagt fram óslitnar þinglýstar eignarheimildir allt frá fyrsta eiganda þess húss, þó það væri kannski ekki nema rúmlega hundrað ára.  Ef ekki, þá mætti ríkið með sömu rökum taka af honum húsið - bótalaust.  Hitt get ég aftur á móti tekið undir með Sigurði að það ætti að setja mun skýrari og afdráttarlausari reglur um umgengnisrétt almennings  um eignarlönd. En þessi lokunarárátta er nú reyndar frekar nýlega til komin eftir sumir af hinum  ,,landlausu" þéttbýlisbúum fóru að kaupa upp jarðir vítt og breitt um landið.

Þórir Kjartansson, 10.2.2008 kl. 20:03

4 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Það þýðir ekkert að ræða um hvort það sé sanngjarnt að einhver eigi stórt land eða ekki, frekar en hvort það sé sanngjarnt að Jóhannes í Bónus eigi svona margar búðir eða Björgólfur heilan banka en ég engann.

Það verður bara að virða þinglýsta skjöl sem enginn hefur andmælt. Skiptir þá engu máli hvort um er að ræða láglendi eða hálendi, tún eða sanda. Ef yfirvöld hætta að virða þinglýsingar (sem reyndar hefur verið gert í þessu máli) er búið að gefa fordæmi sem nota má til að véfengja allan eignarrétt á öllu landi og öðrum fasteignum. Það er stórhættulegt og þar er vegið að hornsteinum þjóðfélagsskipunar okkar.

Það getur vel verið að einhverntíman hafi landeigandi seilst yfir á ónumið land og stækkað það.  Þannig hafa hlutirnir bara þróast frá landnámi. Þessar eignir hafa síðan gengið kaupum og sölum og það er ekki hægt að gera þær upptækar bótalaust í dag.  Það er bara rosalega gróft mannréttindabrot og með ólíkindum að nokkur mæli því bót.

Tökum dæmi: Sigurður Sigurðarson kaupir sér gamalt tveggja hæða hús árið 2005. Síðan kemur í ljós að fyrir 50 árum seldi þáverandi eigandi efri hæðarinnar húsið og líka neðri hæðina sem hann átti reyndar ekki, heldur gömul kona sem hann hafði vingast við, var nýlátin og átti enga ættingja. Nú gengur eignin svona kaupum og sölum mörgum sinnum. Hið sanna kemur í ljós árið 2008.  Þá er ekki hægt að taka neðri hæðina af Sigurði bótalaust - eða hvað?

Þorsteinn Sverrisson, 10.2.2008 kl. 20:13

5 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir fyrir málefnalegar athugasemdir, Þórir og Þorsteinn. Alltaf áhugavert að rökræða málin. Hins vegar er ég ekki lögfræðingur og þekki ekki einföld svör við þeim dæmum sem nefnd eru. Ég man eftir svona dæmum frá þeim tíma er ég reyndi að læra lögfræði. Þau eru því vel þekkt. Ég held að það sé tilgangslaust fyrir mig að koma með lögmætar skýringar, kannski myndi einhver lögfræðingur vilja leggja hér orð í belg.

Hins vegar má nefna að á tímum nasista í Þýskalandi voru tugir þúsunda gyðinga og annarra sviptir eignum sínum og lausafjármunum. Eftir heimsstyrjöldina hefur mikil vinna farið í að bæta þessum eigendum og réttmætum erfingjum þeirra skaðann, ýmist með því að skila þeim eignum þeirra aftur eða með bótum. Sömu sögu var að segja eftir fall Berlínarmúrsins. Mikil málaferli hafa verið í gangi í Þýskalandi og víðar þar sem eigendur og erfingjar hafa krafist eigna eða bóta fyrir eignaupptöku á valdatíma kommúnista. Hvernig skyldi réttarstöðu þeirra vera háttað sem „áttu“ eignirnar þegar járntjaldið féll. Af fréttum man ég eftir að listasöfnum hefur verið gert að skila aftur listaverkum sem rakin voru til stuldar í heimsstyrjöldinni síðari.

Hvað varðar þinglýsingar þá þekki ég svolítið til þeirra, án þess að hafa nokkru sinni átt neinna hagsmuna að gæta. Formleg hlið þinglýsinga hefur nokkrum sinnum verið breytt í gegnum tíðina eftir því sem ég best veit. Tilgangurinn er opinber skráning sem byggist á því að tryggja réttindi og réttarvernd. Sýslumanni ber að kanna áreiðanleika skjala sem hann fær til þinglýsingar og þannig hefur það alla tíð verið. Á þessu hafa þó verið margvísleg vanhöld. Í þeim tilvikum sem ég þekki frá síðustu öld og þarsíðustu finnast fjölmörg dæmi um að einföldum yfirlýsingum hafi verið þinglýst án þess að vottar væru að efni þeirra. Jafnvel eru dæmi um að sá sem átti að hafa veitt yfirlýsinguna væri dáinn en erfingjar staðhæfðu að hinn látni hafi viljað hafa hlutina eins og þeir höfðu eftir honum, jafnvel mörgum árum eftir andlát.

Þannig hefur ýmislegt ratað í þinglýsingarbækur sem ekki á heima þar. Sömuleiðis þekkist það vel að gamlar þinglýsingar hreinlega vanti í bækur.

Góður kunningi minn sagði mér einu sinni að hann hafi verið miður sín yfir því að geta ekki sannað eignarétt sinn vegna þess að hin gamla þinglýsing fannst ekki. Hann fullyrti eftir ítarlega leit að hann væri viss um að aðgangur að fornum þinglýsingum hafi lengi verið svo frjálslegur að menn hafi auðveldlega geta eytt gögnum. Í þessu tilviki sem hann greindi mér frá kom í ljós að endurrit var að finna í safni kirkjunnar og þar gat hann fengið gögn sem sönnuðu hans mál.

Læt þetta nú duga að sinni. Hin vegar tek ég undir með Þóri og ítreka enn að það þarf skýrar reglur um aðgang að eignarlöndum ekki síður en að menn taki sér lönd sem þeir eigi ekki og hafi aldrei átt. Margt annað má nefna. Er það til dæmis réttlætanlegt að eigandi jarðar geti bannað myndatökur af landslagi á jörð hans? Um þetta veit ég dæmi.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 10.2.2008 kl. 21:48

6 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Misskilningur með Möðrudal og Skaftafell, það voru Reykjahlíð og Skaftafell. Trúlega á tímum Klofajökuls.

Stafafell í Lóni er skýrt afmörkuð heild sem í hundruðir ára hefur verið talin ná að vatnaskilum Nesja, Fljótsdals og Álftafjarðar.

Héraðsdómur taldi það eðlilega "væntingu" núverandi landeigenda byggt á öllum gögnum um eignarsögu að þeir ættu fullkominn eignarrétt.

Jörðin var keypt af ríkinu 1913 og er það í hæsta máta óeðlilegt að búa við réttarfar eins og niðurstaða Hæstaréttar að það sé gert að aðalmáli að óljóst sé um landnám.

Um miðja 17 öld segir Brynjólfur biskup Sveinsson að Kollumúli og Víðidalur séu eign Stafafells en vissulega er Stafafells ekki getið í Landnámu, en fræðimenn um þá bók telja hana óáreiðanlega heimild.

Það er von landeigenda að Mannréttindadómstóllinn í Strassburg leggji meira upp úr þinglýstum skjölum um sölu ríkisins og fimm hundruð ára eignasögu, heldur en einhverri þjóðrembu um mikilvægi ferða með kvígur og tendrun elda.

Það er líka stærsti misskilningur í þessu öllu saman að almenningur fái aukin rétt yfir landi með því að það sé lagt undir ríkið. Náttúruverndarlögin hafa tryggt rétt almennings á þann vega að ásættanlegt er. Skipulagslög koma einnig í veg fyrrir að landeigandi geti gert hvað sem er við land sitt eða jörð.

Gunnlaugur B Ólafsson, 10.2.2008 kl. 21:49

7 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Já þinglýsingar hafa örugglega verið mis vel framkvæmdar í gegn um tíðina og kannski þykja þinglýsingar í dag ekki góðar eftir 100 ár.  Engu að síður verðum við að virða þær og láta einstaklinga njóta vafans ef til eru skýrir pappirar sem enginn hefur nokkru sinni mótmælt.

Það er líka rétt hjá Gunnlaugi að það er alls óvíst að almenningur hafi jafn góðan aðgang að þjóðlendum og hann getur haft að einkalandi.  T.d. er miklu auðveldara fyrir rjúpnaveiðimenn að semja við bændur í uppsveitum Árnessýslu um veiðileyfi en að fá að skjóta á ríkislandinu á Þingvöllum eða í Haukadal svo dæmi sé tekið. Sama gildir um ýmsa aðra sportmennsku.

Ríkið hefur alltaf tilhneigingu til að banna og setja takmarkanir. Oft um of. Það vitum við. Og það getur verið ógurlega erfitt fyrir einstaklinga að fá því breytt þegar einhverjir sérvitringar á ríkisstofnunum hafa bitið eitthvað í sig. Með því að hafa eignarrétt á landi dreifðan eru miklu meiri líkur á því að notkun almennings á landi geti verið fjölbreytt og hagkvæm.

Þorsteinn Sverrisson, 10.2.2008 kl. 22:52

8 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir Gunnlaugur fyrir tilleggið.

Ég þekki nokkuð vel til málavaxta vegna Stafafells og hef lesið rök ykkar og einnig lesið viðtöl og greinar um jörðina í fjölmiðlum. Ég er ekki fyllilega sammála ykkur, en viðurkenni að þetta með jarðarkaupin 1913 stendur svolítið í mér! Bíð því spenntur að heyra hvað Mannréttindadómstóllinn segir. Niðurstöðurnar munu áreiðanlega hafa mikil áhrif á starfsemi fjármálaráðuneytisins í þjóðlendumálum sem og Óbyggðanefndar.

Undarlegar sögur eins og þessi um Reykjahlíð og Skaftafell eru ekki grunnur fyrir neitt nema að skemmta landanum. Og líklega hefur minnið um Klofajökull aflagast í tímans rás. Voru ekki einhverjir vísindamenn að draga það í efa að Vatnajökull hafi nokkru sinni verið klofinn? Nafnið Klofajökull hafi einfaldlega komið til vegna lægðar í jökulinn, líklega þar sem Breiðamerkurjökull er núna og Norðlendingalægð. Að minnsta kosti er ótrúlegt að þar hafi nokkurn tíma eftir landnám verið jökullaust.

Þorsteinn. Eignarétturinn skiptir miklu máli í þjóðfélaginu en það er ekki þar með sagt að ónýtar þinglýsingar geti verið grundvöllur eignarhalds. Það hlýtur bara að brjóta á sannfæringu hvers manns.

Lögin um þjóðlendurnar eiga að leysa úr ágreiningi um eignarhald, hvaða svæði séu í einkaeigu og hver ekki. Eðli máls samkvæmt þarf að túlka sönnunarbyrðina þröngt. Þinglýsing sem stendur ekki undir þeim kröfum sem samtímalög settu fyrir þeim geta varla talist réttmæt. Ég get ekki hugsað mér að einhver „njóti vafans“, annað hvort er sönnun gild eða ekki. Það getur varla verið neinn meðalvegur nema eitthvað fleira styðji tiltekinn eignarétt.

Það gilda ákveðnar reglur um öll friðlýst lönd, þjóðgarða sem önnur. Þó ég hafi oft gengið til rjúpna hef ég aldrei skotið í friðlýstum löndum, hef þó langað til. Mér svíður hins vegar sárt að vera bannað á skjóta á reginfjöllum sem vill svo ótrúlega til að eru eignarlönd og „Öll veiði bönnuð“ (nema fyrir eigendur og vildarmenn þeirra). Og nú eru veiðileyfi á gæs og rjúpu víða seld dýrum dómum og ekkert áhlaupaverk að fjármagna eina veiðiferð á vænlegum slóðum.

Til gamans má nefna það hér að vinur minn einn á jörð í miðjum Borgarfirði og honum datt í hug að rækta lítinn akur til að draga að gæsir. Kannski er það leiðin, að finna aðferðir til að draga fuglana að litlum jörðum sem varla eru stærri en frímerki og skjóta þá þaðan.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 10.2.2008 kl. 23:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband