Stendur hugsunin mín undir nafni?

Var að velta því fyrir mér hvenær uppreisn er uppreisn og hvort uppreisn sem tekst sé uppreisn eða bylting.

Einhvern tímann las ég eitthvað spaklegt um uppreisn en get ómögulega rifjað það upp. Þreytandi þegar biðtími vinnslu hugsana reynist lengri en þolinmæðin biðinnar. Væri heilinn tölva stæði henni til boða einhvers konar uppfærsla.

Frá því ég var lítill strákur hefur mér alltaf fundist gamlir menn og konur yfirskilvitlega gáfað og spakt. Hann Sigfinnur afi minn tautaði lífsspekina í bundnu máli og sagði svo jájá. Dóttir hans, hún Soffía, sem raunar var móðir mín kunni held ég allar vísur og ljóð sem ortar höfðu verið á íslenska tungu. „Þú kannt ekki þessa, Siggi minn,“ átti hún til að segja með röddu sem hljómaði þannig að ég hafði áreiðanlega valdi henni miklum vonbrigðum. Og mér fannst stórt gat verða í höfði mínu. Á efri árum hennar orti ég stundum vísur, þó meira af rembingi en andagift. „Þetta geturðu, strákur,“ sagði þá hún Soffía mamma mín og brosti svolítið óræðið en mér fannst dimma gatið í hausnum á mér dragast saman um örfá kílóbæt. Þá leið mér skár

Eftir að hún dó uppgötvaði ég að skáldskapargáfuna vantaði í hausinn á mér, en ég lét það ekki aftra mér heldur gerðist leirskáld og hef verið ansi afkastamikill sem slíkur. Aldrei get ég þó munað yrkingar mínar og mér skilst að það sé einkenni á leirskáldum. Ómar Ragnarsson, hinn eini og sanni er ekki höfuðskáld, hvorki af andagift né framsetningu. Engu að síður er hann skáld gott, góður vísnasmiður og getur þar að auki ort ljóð undir ýmsum bragarháttum. Hann man allt sem hann hefur ort. Einu sinni sat ég með honum kvöldstund á Blönduósi og hann dró þá upp ræsknislega kompu sem hann hafði stundum skrifað í vísur og ljóð og þá skemmti ég mér best er hann rifjaði upp kersknisvísur og brandaravísur undir ýmsum háttum, ferskeytlum, fimmskeytlum og öðrum heimatilbúnum vísnaháttum. Ómar er gott skáld en ég hallast að því að hann sé leir í stjórnmálum, en það eru víst flestir.

Einu sinni spurði ég hana Soffíu mömmu mína hvort hún hefði aldrei ort vísu eða ljóð. Ekki vildi hún fortaka fyrir það að einhvern tímann hefði hún dundað sér við þau slíkt. Svo sagði hún: „Það tíðkaðist aldrei í þá daga að konur væru að yrkja.“ Þetta var rétt hjá henni, en samt ortu margar konur í Dölunum en þær voru meðvitað eða ómeðvitað í uppreisn gegn tíðarandanum. Nú til dags yrkja eiginlega allir, konur og kallar eins og andinn blæs þeim í brjóst, sumir leira og aðrir hnoða eitthvað gáfulegt og svo yrkja sumir af skáldlegum innblæstri.

Ég er enn að bíða eftir þeirri stundu að ég verði svo gamall að allt spakt sem ég hef lesið dúkki upp í kollinum á mér og ég geti slegið um mig  og verið sagður vitur. Enn hefur það ekki gerst og þess vegna hef ég alltaf verið nauðbeygður til að reyna að hugsa gáfulega. Mér hefur tekist það afar vel, svo ég segi sjálfur frá, en skil þó ekkert því hvers vegna mér hefur aldrei verið hælt fyrir spaklega ummæli.

Þarf greinilega að endurskoða þetta líffæri, hugann og starfsemi hans. Getur verið að hugsun mín standi engan veginn undir nafni? ... nei, varla. Eða hvað ...?

Þetta minnir mig á þýskukunnáttu Þjóðverja. Finnst alltaf undarlegt hversu illa þeir skilja mig er ég mæli á þetta fornfræga og glæsilega tungumál þeirra. 

Ég hafði í lokin hugsað mér að skrásetja hér litla fallega vísu, en frekar reyndist hún illa ort, hrynjandin var röng, svo öll var hún hin versta sort og þess vegna hætti ég við allt saman. Hver veit nema þetta smelli allt saman hjá manni einn góðan veðurdag og þá rísi ég upp til hæða, hristi af mér leirinn svo eftir verði tekiið og taki að semja spakleg og gáfuleg ljóð eins og Einar Benediktsson sem mér finns doldið flottur. Fyrsta bindið á að heita Uppreisn leirskáldsins.

Þetta hugsaði ég í dag.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband