Hjálp ... hann Guð er farinn, horfinn!

Ég yfirgaf í gærkvöldi biskup minn og skipti yfir á páfann ...", sagði séra Baldur Kristjánsson í jólabloggi sínu. Honum finnst sárlega vanta alvöruna í jólamessuna á aðfangadagskvöld í Sjónvarpinu. Hún var nefnilega ekki í beinni útsendingu, safnaðurinn var enginn, aðeins kór, organisti og biskupinn.

Bragð er að þá barnið finnur. Baldur er skýr maður og skynsamur og auk þess prestur. Þegar einn hinna innvígðu finnur loks að jólamessunni í Sjónvarpinu þá er eitthvað að. Og augum mín lukustu upp gat verið að í þessu fælist einn lítill sannleikur. Sannleikur sem er svo beittur að hann hann ristir upp sálina og í ljós kemur að þar eru einungis eftir leyfar af barnatrúnni, en hann Guð er farinn, horfinn. Hjálp ...

Þessi bitra staðreynd fær mann til að líta um öxl. Hvað varð það sem gerðist? Hvers vegna var allt í einu ekkert pláss fyrir þann milda Guð sem maður lærði ungur hjá pabba og mömmu, þann Guð sem KFUM dró upp skýrum dráttum, þann Guð sem maður játaðist í fermingunni, þann Guð sem maður gaf börn sín til í skírninni? Hvar er þessi mikilvægi fylginautur sálarinnar?

Getur verið að sýndarmessa sé haldin víðar en í Sjónvarpinu á aðfangadagskvöld? Getur verið að þjóðkirkjan sé svo feit og sælleg í allsnægtum sínum að hún skilji ekki mig, skilji ekki fólkið í landinu? Getur verið upplýsingin, fróðleikurinn, menntunin, hraðinn og fjölbreytnin hafi einfaldlega verið þjóðkirkjunni ofviða? Þorri fólks hugsar, það beitir rökum í daglegu lífi sínu, dregur lærdóm af því sem það sér og heyrir og beitir því sem það þekkir til að gera lífið sér bærilegra.

Lífið er orðið svo óskaplega fjölbreytt að kirkjan hefur í raun tapað athygli fólks. Hún er tyllidagastofnun. Ef til vill lifir trúin enn í sálum fólks en fyrir hverju tapaði kirkjan. Í svarinu felast þversagnir kirkjunnar, það sem hún segir ekki en hefði átt að tjá sig um, þar sem hún gerði ekki en hefði átt að hafa í sér þann manndóm að láta verkin tala.

Kirkjan tapaði fyrir versluninni sem að hætti sigurvegarans tók lykilinn að því allra helgasta og það sem mætti verða til hins mesta gróða. Verslunin tók barasta jólin og eignaði sér þau. Hún helgaði sér aðventuna og fann líka upp „for-aðventuna" ef svo má nefna tímabilið frá á að giska miðjum október og fram undir lok nóvember.

Verslunin tók svo yfir kenningar Biblíunnar og hagræddi þeim eftir þörfum. Sem fyrr er sælla að gefa en þiggja en sögnin að gefa á nú aðeins beina skírskotun í nafnorðið gjöf sem fæst aðeins fyrir greiðslu í peningum, debetkorti eða kreditkorti í Kringlunni, Smáranum, á Laugaveginum eða annars staðar.

Þá gekk Jesús í helgidóminn og rak út alla, sem voru að selja þar og kaupa, hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna og mælti við þá: „Ritað er: Hús mitt á að vera bænahús, en þér gjörið það að ræningjabæli."

 

Verslunin lét ekki þar við sitja, heldur réði Jesú í vinnu og fyrirgaf Júdasi og setti hann á launaskrá. Fyrir er þar fjölbreyttur hópur listamanna sem hefur í krafti trúarsannfæringar sinnar tilbeðið Guð sinn, fagnað komu frelsarans og flutt list sína sem enn lifir þó höfundarnir séu löngu farnir. Sálmar eru nú söluhvatar, markaðssetning  á gjafavöru gengur betur með gömlu jólalögunum, jólasveinarnir drýgja lagerinn hjá sér með því að koma við í „ToysAreUs" eða „JustforKids", jólin byrja í Ikea, Bónusinu, Nettóinu, Samkaupinu og Nóatúninu. Og jólalögin eru sungin í boði KókaKóla og NóaSíríusi.

Þó það sé mín skoðun að sýndarmessa og sýndarmennska í þjóðkirkjunni sé trúareyðandi staðreynd þá held ég að það bæti ekki úr skák að fara að ráðum séra Baldurs og fá einhvern viðskiptajöfur til að hlaupa undir bagga með Sjónvarpinu og kosta stórmessu á aðfangadagskvöldi. Hann Guð kemur ekki í leitirnar eftir því sem kirkjunar verða stærri eða meiru verði kostað til messuhaldsins. Sýndarmennska er og verður alltaf sýndarmennska hversu mikill eða lítill auðurinn er.

Ég sakna Guðs, en ég finn hann bara ekki lengur í sálu minni lengur. Þar er óþægilegt tóm, myrkur. Og ekki get ég alfarið skellt skuldinni á kirkjunna, sem er þó engan vegin saklaus í ómeðvituðu limbói sínu. Eitt er þó víst, að hafi Guð minn týnst mér þrátt fyrir tilvist þjóðkirkjunnar þá get ég trauðla sótt til hennar í leit minni.

Ef til vill er Guð á fjöllum og kannski mun þessi villuráfandi sauður rekast þar á hann einn góðan veðudag. Þá verður fagnaðarfundur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Heill og sæll á jólum, Sigurður. Þakka þér hreinskilinn pistil. En hvað vantar á, til að þú verðir aftur trúaður? Finnst þér Jesús ekki trúverðugur? Þú ert ekki að sjá neikvæður gagnvart tilvist Guðs, finnur hann bara ekki í kirkjunni. Hvað um að vera meira samferða Kristi á ferðum hans um Landið helga, heyra eða lesa orðin af vörum hans, vitnisburð hans um Föðurinn og um sig sjálfan, skoða verk hans og boðskap í guðspjöllunum og trúarboðun postula hans og lærisveina í öðrum ritum Nýja testamentisins? Sjáirðu þar vitnisburð um nauðsyn kirkju, máttu síðan hugleiða það mál betur; má vera það leiði þig á aðrar slóðir en Þjóðkirkjunnar, þú ert þá örugglega maður til að taka því.

En það gefur að skilja, að engin trú helzt við lifandi á einni saman jólamessu biskups.

Jón Valur Jensson, 25.12.2007 kl. 14:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband