Aðstöðu-, viðdvalar-, þjónustu- eða góngjöld?

Afsakið, þetta gón kostar 200 kr.Verði hafin gjaldtaka á svokölluðum þjónustugjöldum í þjóðgörðum landins má gera ráð fyrir því að einkaaðilar taki víða upp svipuð gjöld á vinsælum ferðamannastöðum. Vandinn sem slíkur fylgir getur verið gríðarlegur, jafnvel svo að ágangur rukkara verði meira og alvarlegra vandamál heldur en ferðir göngufólks.

Ýmsir hafa orðið til að hvetja til gjaldtöku í þjóðgörðum. Nefna má Ástu Möller, alþingismann, Siv Friðleifsdóttur, fyrrverandi umhverfisráðherra, og þessi skoðun hefur birst í leiðara Morgunblaðsins.

Við fyrstu sýn kann gjaldtaka að vera fýsilegur kostur ekki síst fyrir þá sök þjóðgarðarnir hafa yfirleitt verið afgangsstærð og hvorki Alþingi né framkvæmdavaldið skipt sér mikið af þeim. Að mörgu leiti hafa þeir því glatað því aðdráttarafli sem í upphafi var áhugi að byggja upp. Fjármagn hefur sárlega vantað inn í íslenska þjóðgarða til að byggja upp og viðhalda göngustígakerfi og ýmiskonar annari þjónustu. Þess ber þó að geta að nú þegar er tekið hóflegt gjald af gestum í þjóðgörðunum og víðar, þ.e. gistigjald og jafnvel viðdvalargjald enda eru það slíkir gestir sem ferðast mest. Ekki má rugla gjaldi fyrir afnot af þeirri aðstöðu sem byggð hefur verið upp og þarfnast viðhald við svokallað góngjaldi, þ.e. þegar ferðamaðurinn sé einfaldlega rukkaður fyrir það eitt að standa við Hvítá og horfa á Gullfoss svo dæmi sé tekið.

Eftir því sem ferðamönnum hefur fjölgað hér á landi, íslenskum sem erlendum, hafa gönguleiðir látið stórlega á sjá. Þeim mun fleiri sem nýta sér merktar gönguleiðir þeim mun meira slitna gönguleiðirnar. Þær grafast niður og í rigningartíð sækir í þær vatn og við það grafast þær enn meira niður og verða göngumönnum erfiðar. Þeir færa sig þá til og annar göngustígur myndast við hlið þess gamla og sagan endurtekur sig.

Nú er svo komið að alvarlegar skemmdir hafa orðið á ýmsum náttúruperlum víða um land vegna ágangs ferðamanna og viðhaldsleysi á göngustígum. Nefna má fjölmarga staði utan þjóðgarða: Gönguleiðir í Goðalandi og Þórsmörk, gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls, göngustígana upp á Esju, göngustíginn á Vífilsfell, gönguleiðir í Lakagígum, nokkrir gönguleggir á Hornströndum, gönguleiðir í kringum Landmannalaugar, gönguleiðir við Veiðivötn og leggir á hinni vinsælu gönguleið milli Landmannalauga og Þórsmerkur liggja undir stórskemmdum. Fleiri svæði mætti nefna.

Þegar ríkisvaldið gefur grænt ljós til gjaldtöku á ferðamannastöðum undir því markmiði að nú eigi að „standa myndarlega að aðgerðum til að hindra náttúruspjöll" eins og Morgunblaðið hefur orðaði það má búast við því að aðrir hugsi sér til hreyfings og sjái sér leik á borði til fjáröflunar. Ekki er eins víst að ferðamenn hagnist á slíkri gjaldtöku. Verður þá vart stigið niður fæti fyrir rukkurum af ýmsu tagi. Hugmyndaríkir landeigendur eða umsjónarmenn landa geta þá séð auð sinn vaxa af almennum viðdvalargjöldum, myndatökugjaldi, akvegagjaldi og ýmsum fleiri gjöldum. Á eftir fylgir að landsvæðum verður lokað fyrir umferð "óviðkomandi" hverjir sem það kunna að verða.

Svo er það algjörlega óklárt hvernig eigi að bæta  skaða þar sem skemmdir hafa orðið utan hefbundinna ferðamannastaða. Hvernig er til dæmis ætlunin að lagfæra skaðann á Fimmvörðuhálsi eða Þverfellshorni í Esju? Senda rukkara á svæðið?

Ríkissjóður hefur gríðarlegar tekjur af innlendum og erlendum ferðamönnum í formi aukins virðisaukaskatts, tekjuskatts af ferðaþjónustufyrirtækjum, afgjalds af eldsneyti svo dæmi sé tekið. Það er því sanngirnismál að ríkissjóður kosti viðhald og viðgerðir á slóðum ferðamanna þar sem þess er þörf rétt eins og ríkissjóður kostar viðhald á þjóðvegum landsins.

Hins vegar ber að vara við upptöku á einhvers konar góngjaldi, hvort sem það er ríkissjóður sem krefst auranna eða einkaaðilar. Náttúruspjöll vegna umferðar ferðamanna eru miklar og þær eiga eftir að aukast. Mikilvægasta verkefnið er að finna hagkvæmar leiðir til að bæta skaðann og koma í veg fyrir áframhaldandi skemmdir án þess að gera ferðamenn að frekari „féþúfu“.

 


mbl.is Gjald inn á ferðamannastaði raunhæft
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband