Teljast öll útköll björgunarsveita fréttir?

Í fyrsta lagi er Útigönguhöfði, Morinsheiði eða Hvannárgil ekki í Þórsmörk. Í öðru lagi liggur merkt gönguleið af bæði Heljarkambi og Morinsheiði ofan í Hvannárgil. Í þriðja lagi hafa þúsundir manna gengið yfir Fimmvörðuháls á þessu sumri og gönguleiðin er orðin afar vel troðin og greinileg. Í fjórða lagi er erfitt að átta sig á því hvað sá sem skrifar fréttina á við með því að segja að fólkið hafi verið komið í sjálfheldu sunnarlega í Útigönguhöfða.

Ég þekki mig afar vel á þessum slóðum en skil ekkert í þessari frétt. Ferðafélagið Útivist hefur gefið út mjög skilmerkilegt kort af gönguleiðum í Goðalandi, Básum, Stakkholti og fleiri svæðum þarna. Að auki hefur félagið stikað gönguleiðir og sett víða upp vegpresta. 

Af öllu samanlögðu verður hreinlega að segjast eins og er að fréttin er meingölluð, illa skrifuð. Þó má greinilega ráða að ekkert hafi komið fyrir annað en að fólk hafi farið villur vegar sem líklega er ekki fréttnæmt fyrir annað en það að björgunarsveitir voru kallaðar út og þyrla.

Hafa stjórnstöðvar leita hjálparsveita ekki önnur forgangsverkefni en að tilkynna fjölmiðlum um útköll? Teljast öll útköll björgunarsveitar fréttir? Svona fjölmiðlaárátta á eftir að koma einhverjum í slæm vandræði. Fjöldi fólks er svo einþykkt og þrjóskt að að það vill heldur berjast í ómögulegum aðstæðum á fjöllum frekar en að kalla á hjálp. Oftast er svo innlegg fjölmiðla að velta sér upp úr kostnaði við leitir og gera lítið úr þeim sem „bjargað“ er, til dæmis með kommentum um veðurspár og jafnvel glæfraskap.

Ég og félagar mínir höfum einu sinni átt þátt í að kalla á björgunarsveit til aðstoðar vini sem við töldum vera í vanda staddur. Það var samdóma álit okkar að við myndum aldrei gera það aftur nema eftir langa og ítarlega íhugun. Allir hljóta að sjá hvaða afleiðingar slíkt viðhorf kann að hafa í för með sér.


mbl.is Ferðafólki bjargað heilu á höldnu í Þórsmörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Harrison

ég skil nú ekki alveg tilganginn með þessu bloggi. Fyrst þá telurðu upp ástæður fyrir því hvað það er fáranlegt að fólk skuli villast á Fimmvörðuháls sem verður nú að teljast furðulegt því þú segist þekkja ,,...afar vel til á þessum slóðum". Þá ættirðu að vita það að veðrið getur breyst á svipstundu þarna uppfrá, skyggni versnað snögglega og að það eru ekki nema nokkrir áratugir síðan fólk fórst á þessari leið í hríðarbyl að sumarlagi. Þar að auki, ef rétt leið er ekki valin neðan af Morinsheiði þá er stórhættulegt að reyna göngu niður af heiðinni.
Svo eftir að hafa talið upp hvað þetta er nú ,,einföld" leið þá ferðu að kvarta yfir fréttaflutningi af útkallinu. Þ.e. að fréttaflutningurinn einn og sér fæli fólk frá því að kalla eftir hjálp ef það er í sjálfheldu uppi á fjöllum.
Mér þykir skoðanir þínar sem þú lýsir í upphafi bloggsins einmitt vera af þeirri sort sem fæla fólk frá því að kalla á hjálp þegar það er komið í ógöngur.
Þarf ferðafólk að farast uppi á fjöllum til að það sé í lagi að fjalla um ógöngurnar sem það lenti í?

Harrison, 8.7.2007 kl. 03:22

2 Smámynd: Einar Þór Strand

Sigurður

Ég get sagt þér það að þeir sem koma að stjórnun á björgunum þurfa ekki að hafa samband við fjölmiðla fölmiðlar hafa samband við þá, og þótt undarlegt megi virðast stundum áður en búið er að kalla út, kannski ekki löngu áður en nokkrum mínútum.  Hvers vegna veit ég ekki en hef mínar hugmyndir sem ég læt liggja á milli hluta.

Einar Þór Strand, 8.7.2007 kl. 08:41

3 Smámynd: Einar Þór Strand

Vistaði áður en ég ver búinn að klára

En það er rétt hjá þér að fjölmiðlar mættu hætta að tala um þá sem lenda í vandræðum eins og þeir séu einhverjir asnar því það á sjaldnast við, en einhvern veginn viriðst eins og blaðamenn verði að "kenna einhverjum um" og hafa áhyggur af kostnaði.  En fyrir þá sem ekki vita þá telja björgunarsveitir og félagar þeirra ekki eftir sér að fara í útköll, hvorki tíma né peninga.  Og síðan græðir ríkið á öllusaman því það fær 24,5 virðisaukaskatt af öllu eldsneyti og öðru sem þarf að kaupa af rekstrarvöru.

Einar Þór Strand, 8.7.2007 kl. 08:48

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Kæri Harrison. Þökk fyrir athugasemdirnar. Það er hárrétt hjá þér að bloggið er óskiljanlegt og það er tóm vitleysa að skrifa svona. Ég bið þig hér með afsökunar.

Kæri Einar Þór Strand. Bestu þakkir fyrir athugasemdir þínar. Ég þekki ágætlega til björgunarsveitanna og ber mikla virðingu fyrir þeim. Ekki eru hins vegar öll verk þeirra fréttnæm jafnvel þó sumir óski þess heitt og innilega.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 8.7.2007 kl. 12:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband