Úlfarsfell og Vífilsfell í landfyllingar?

Af hverju eru menn að velta fyrir sér íbúðabyggð úti í Örfirsey og teygja hana þaðan út í sjó? Mér finnst ekkert aðlaðandi við sjávarbyggð út í fryssandi Faxaflóa. Allt mælir gegn henni.

Sjávargangur var hér á árum áður mikill. Ég man eftir briminu við Skúlagötu þegar vart var ökufært um götuna. Sama var með Örfirsey áður en landfyllingar voru gerðar vestan við Grandagarð. Og enn gengur sjórinn upp við Ánanaust og Eiðsgranda. Vill einhver búa með brimið svarrandi á norður eða vesturglugganum meginhluta ársins?

Svo er það aðalspurningin. Hvar hafa menn hugsað sér að fá efni í landfyllingar? Varla er ætlunin að sækja  sand af sjávarbotni. Jarðfræðingar mæla nú ekki með þeirri aðferð og forðum var sagt að vitur maður byggði ekki hús sitt á sandi. Þá er ekki annað eftir en að moka Úlfarsfelli eða Vífilsfelli ofan í flóann!

Reykvíkingar eiga nóg af landi. Geldinganesið er enn ónotað og enn getum við sótt upp á heiðar. Svo getur það gerst að byggðaþróunin breytist og ungt fólk á höfuðborgarsvæðinu átti sig á því að ýmsir aðrir staðir á landinu henta vel til búsetu, jafnvel betur en nesin við Faxaflóa. Flottustu staðirnir að mínu mati eru til dæmis Skagaströnd, Höfn í Hornafirði, Stykkishólmur og Ísafjörður. Þekki þá alla af eigin reynslu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband