Söngur fluttur og gerð er uppljóstrun

1.

„Ég er algjörlega óskorin karaoke-drottning og það í góðri merkingu.“ 

Frétt á visir.is.    

Athugasemd: Hvað þýðir að vera „óskorin karaoke-drottning“? Allt bendir til þess að sá sem skrifaði fréttina hafi einhvers staðar í huga sínum verið að leita að orðinu „óskoraður“ sem er lýsingarorð og merkir „algjör“, eitthvað sem er óumbreytanlegt. 

„Óskoraður“ er líklega dregið af því að enginn skorar á viðkomandi um titilinn. Gæti veriðkomið frá þeim tíma er karlar gengu á hólm og börðust uns annar lá dauður.

Tillaga: Ég er algjörlega óskoruð karaoke-drottning og það í góðri merkingu.  

2.

„Innan skamms tekur gamanið að kárna þegar Bill gerir skelfilega uppljóstrun.“ 

Kvikmyndagagnrýni á bls. 33 í Morgunblaðinu 2. nóvember 2017.    

Athugasemd: Hér er hugsanlega einhver ruglingur á ferðinni. Eitt er að uppgötva, annað er að ljóstra upp. Óljóst er hvor höfundur þessara orða á við. Af máltifinningunni að dæma er réttara að ég „uppgötvi eitthvað“ en að ég „geri uppgötvun“. Sama á við þegar einhver „ljóstrar einhverju upp“, varla „gerir hann uppljóstrun“.

Tillaga: Innan skamms tekur gamanið að kárna þegar Bill uppgötvar eitthvað skelfilegt. Eða: … Bill ljóstrar upp skelfilegu leyndarmáli.

3.

„VÍS fær 210 milljónir vegna láns í Úkraínu eftir langa mæðu“ 

Fyrirsögn á frétt á visir.is.     

Athugasemd: Orðaröð í setningu skiptir máli. Ef ekki er hægt að misskilja það sem sagt er eða að hún verður hálfhjákátleg. Í þessu tilviki gerist hvort tveggja.

Vís lánaði fé til Úkraínu en fékk þar ekki fé að láni eins og skilja má af fyrirsögninni. Þessa peninga hefur fyrirtækið nú fengið til baka. Þetta má orða á einfaldan hátt.

Tillaga: Vís fær endurgreiddar 210 milljónir vegna láns til Úkraínu.

4.

„Öryrkja hent út fyrir hundahald í Hátúni.“ 

Fyrirsögn á frétt á visir.is.     

Athugasemd: Fyrirsögnina má skilja á þann veg að öryrkjanum hafi verið sagt upp húsnæði í Hátúni vegna þess að fyrirhugað er að koma á fót hundahaldi. Honum var hins vegað vísað á dyr vegna óleyfilegs hundahalds. Í fyrirsögninni kennir áhrifa úr ensku þar sem forsetningin „for“ er þýdd hugsunarlaus.

Mikilvægt er að fyrirsagnir séu þannig samdar að enginn misskilningur vakni hjá lesandanum. Í því er þjónusta fjölmiðla falin. Þegar öllu er á botninn hvolft bjóða fjölmiðlar lesendum sínum eða áhorfendum upp á þjónustu.

Tillaga: Öryrkja hent út vegna hundahalds í Hátúni.

5.

„Stjarnan þorði ekki að taka slaginn.“ 

Fyrirsögn á bls. 2 í íþróttablaði Morgunblaðsins 7. nóvember 2017.    

Athugasemd: Fréttin fjallar um leik Stjörnunar og Vals í handbolta og hann var vissulega slagur eins og allir leikir eru. Undarlegt er því að orða fyrirsögnina á þennan hátt, jafnvel þó leikmenn Stjörnunnar hafi ekki lagt sig eins mikið fram og þeir hefðu átt að gera. 

Stjarnan tók slaginn en varð undir. Blaðamaðurinn hefði átt að kanna hvað felst í orðtakinu, svo virðist sem hann skilji það ekki. Engu að síður skrifaði hann ágætlega um leikinn, það vantar ekki.

Tillaga: Stjarnan lagði sig ekki fram og tapaði.

6.

„Er­lend fjár­fest­ing­ar­fyr­ir­tæki eiga að minnsta kosti 41 mill­arð króna í Kaup­höll Íslands en fyr­ir tveim­ur árum síðan stóð upp­hæðin í rúm­um 15 millj­örðum.“ 

Úr frétt á mbl.is.     

Athugasemd: „Síðan“ er atviksorð og er hér troðið inn í setningu vegna misskilnings. Þegar tveir hittast sem hafa ekki sést lengi segir annar: Mikið er langt síðan ég hef séð þig. 

Hinn svarar: Já, nú eru ábyggilega tvö ár síðan.

Sá fyrri bætir við: Fyrir tveimur árum hittumst við á Akureyri.

Berum þetta saman og síðan við fyrirsögnina. Þá kemur berlega í ljóst að atviksorðinu „síðan“ er ofaukið. Hjálpar ekkert, er bara óþarfi. Engu að síður afar mikið notað, ofnotað

Tillaga: Er­lend fjár­fest­ing­ar­fyr­ir­tæki eiga að minnsta kosti 41 millj­arð króna í Kaup­höll Íslands en fyr­ir tveim­ur árum stóð upp­hæðin í rúm­um 15 millj­örðum.

7.

„Dómsmálaráðherra flutti skínandi fína ræðu á laugardag og Jóhanna Guðrún Jónsdóttir flutti söng sem setti fallegan svip á athöfnina.“ 

Úr frétt á blaðsíðu 4 í Morgumblaðinu 13. nóvember 2017.     

Athugasemd: Æ, æ, æ. Eitt er að flytja ræðu en annað er að flytja söng sem er afar furðulegt athæfi. Tilvitnunin er úr frásögn manns af Kirkjuþingi og má vera að hann hafi tekið svo til orða. Hins vegar bar blaðamanni að laga orðalagið því hann hlýtur að vita að ræðumenn flytja ræður eða erindi en söngvarar syngja þó vissulega megi um hvort tveggja tala um góðan flutning.

Tillaga: Dómsmálaráðherra flutti skínandi fína ræðu á laugardag og söngur Jóhönnu Guðrúnar Jónsdóttur setti fallegan svip á athöfnina.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Væri ekki betra að fallbeygja nafn Jóhönnu G. í umsögninni?

Árni Gunnarsson, 15.11.2017 kl. 13:58

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Það væri ábyggilega til bóta, Árni.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 15.11.2017 kl. 14:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband