Einsmálsörflokkar eiga ekkert erindi í pólitík

Satt að segja er kominn tími til að kjósendur víki þessum litlu, einsmálsflokkum til hliðar. Þeir hafa ekkert fram að færa nema eitt mál og láta sem það skipti öllu fyrir samfélagið.

Viðreisn er svona dæmigerður einsmálsflokkur. Gamlir sjálfstæðismenn í honum halda því fram að hann sé jafnaðarmannaflokkur sem í sjálfu sér skiptir litlu. Aðalatriðið er að þeir vilja koma Íslandi inn í ESB. Halda því fram að allt sem miður hefur farið á Íslandi muni þar með lagast sjálfkrafa. Þetta er tóm vitleysa. Hið eins sem þessi flokkur hefur áorkað er að draga úr fylgi Sjálfstæðisflokksins.

Björt framtíð var hjáleiga Samfylkingarinnar, nokkurs konar banki sem geymdi í eitt ár atkvæði fyrir hákotið. Nú heimtar flokkurinn atkvæðin til baka og fagnar, heldur að hann stefni í kosningasigur.

Píratar eru óþægir vinstri sósíalistar sem nenna ekki að vera með Vinstri grænum sem eru orðnir hálfkapítalistar, ganga í hvítri skyrtu og bindi dags daglega, og konurnar klæðast fallegum fötum og mála sig eins og píur í Heimdalli. Nú hefur helmingur Pírata fengið nóg og fer heim í sósíalið, setur upp bindi og kellurnar mála sig. VG heldur að flokkurinn stefni í kosningasigur.

Fyrir alla muni. Leggjum niður Bjarta framtíð, Pírata, Viðreisn og Flokk fólksins, þessa flokka sem eiga ekkert erindi í íslenska pólitík og hafa ekkert lagt til annað en upplausn og leiðindi.

Kjósendur geta lagt niður þessa flokka með því að kjósa aðra flokka. Fjórflokkurinn hefur reynst ágætlega. 


mbl.is Beygði af í beinni útsendingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Flokkur fólksins er EKKI "einsmálsflokkur", Sigurður! Þessi flokkur hefur skýra stefnu um fátæka, þ.m.t. fátæk börn sem er mismunað, en líka um skattamál og fullveldismál: er eindregið andvígur inntöku Íslands í Evrópusambandið og vill að norska reglan um hælisleitendur verði tekið upp hér án tafar: 48 tíma afgreiðslureglan! Þinn flokkur hefur EKKI staðið sig í því máli, fyrr en Sigríður fór að reyna það á síðustu metrunum!

Þú ert greinilega bara að reyna að agitera fyrir Sjálfstæðisflokkinn með þessu.

Enginn kristinn maður getur verið þekktur að því að kjósa Guðlaug Þór  (sjá rökin:  http://lifsrettur.blog.is/blog/lifsrettur/entry/2205197/), þó er hann oddamaður ykkar í Rvík-norður. Lausnin er ýmist að

    • kjósa góðan mann í öðrum flokki (dr. Ólaf Ísleifsson í Flokki fólksins eða Guðfinnu Jóhönnu á M-lista)

    • eða strika yfir Guðlaug Þór

    • eða setja hann t.d. í 3. sæti, en Birgi Ármannsson í fyrsta (sá á það sannarlega skilið).

    Jón Valur Jensson, 27.10.2017 kl. 23:21

    2 identicon

    Ég er algjörlega ósammála þér varðandi fjórflokkinn annars vegar og Flokk fólsins hins vegar, sem ég hef kosið í tvígang. Enginn flokkur á Alþingi hefur nokkurn tíma gert neitt fyrir láglaunafólk eða öryrkja, hvorki þeir sem hafa verið í ríkisstjórn né í stjórnarandstöðu. Fjórflokkurinn hefur EKKI reynst ágætlega.

    xF er fyrsti flokkurinn sem hefur gert það að einu af aðalmálum sínum. Flokkurinn er ekki einsmálsflokkur, heldur hefur mörg mikilvæg mál á stefnuskránni og ég er sammála flestum þeirra ef ekki öllum. Þá hef ég sannfært reynslulitla fjölskyldumeðlimi, sem af eðlilegum ástæðum neita að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, að trúa ekki á lygarnar frá VG, sem á Íslandsmet í hræsni, og kjósa frekar flokk sem mun bæta hag láglaunastéttanna.

    Þegar ég las færsluna þína, gat ég verið sammála þér í því, að Viðreisn og BF eru einsmálsflokkar. En af einhverjum ástæðum nefndir þú ekki Samfylkinguna. Ef einhvern tíma hefur verið til einsmálsflokkur í íslenzkri pólítík, þá er það Samfylkingin. Þú hlýtur að vita það. Það dylst engum. Ekki einungis hafa þeir eitt hjartans mál á stefnuskránni, heldur er það svo vondur málstaður að ég get ekki skilið hvernig nokkur heilvita maður myndi vilja kjósa þann flokk.

    Aukinheldur er ég hlynntur því að breyta kosningalögunum þannig að flokkar sem fá 2% eða meira komi manni á þing eins og tíðkast í Danmörku. Það myndi þýða aukið lýðræði. Athugaðu að það breytir engu um þá staðrynd að þingmeirihlutinn ráði (þingræði).

    Ég er hægrisinnaður, en aðhyllist félagslega frjálshyggju, sem enginn þingflokkur hefur fylgt. Ég vil ekki vinstristjórn, því að það er engir alvöru vinstriflokkar til á Alþingi, þeir hurfu eftirminnilega eftir að Alþýðuflokkurinn varð dindill í Viðreisnarstjóninni á 6.-7. áratugnum.

    Ég vil öflugt, frjálst atvinnulíf og frjálsa samkeppni, sem er grundvöllur hagsældar, en ég vil líka að ríkið sjái sómasamlega um "dom gamla och dom sjuka" eins og Olof Palme sagði eitt sinn. Þú skilur hvað ég á við: Ríkið á að sjá um heilbrigðiskerfið, almannatryggingar og fjármálaeftirlitsstofnanir, en láta einkaframtakið blómstra í frjálsu umhverfi að öðru leyti. Ég vil nefna í þessu sambandi Danmörku sem er líberal-kapítalískt þjóðfélag og frjálsara en flest önnur í Evrópu (t.d. er persónufrelsi og athafanafrelsi órjúfanlegt skv. stjórnarskrá, sem ekki er í neinu öðru Evrópuríki, sízt af öllu á Íslandi), að þar er ríkinu beinlínis meinað að vasast í viðskiptum sem einkaaðilar geta sinnt, þ.e. ríkið má ekki vera í samkeppni við einkaaðila. Mikið væri það gott ef það væri líka regla á Íslandi t.d. í sambandi við RÚV (sem ætti að selja tafarlaust) og önnur fyrirtæki.

    Pétur D. (IP-tala skráð) 27.10.2017 kl. 23:40

    3 identicon

    Ég gerði víst mistök, þetta átti auðvitað að vera "Flokk fólksins". Ég biðst velvirðingar.

    Pétur D. (IP-tala skráð) 27.10.2017 kl. 23:46

    4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

    Lýsingin "einsmálsörflokkur" sýnir skort á upplýsingum og vissan hroka. Þótt ég hafi hvorki tekið þátt í starfi Flokks fólksins né stutt hann, er mér kunnugt um það að innan þess flokks var unnið að því eftir því sem það var unnt að móta ákveðna stefnu í sem flestum málum. 

    Með "einsmálsflokki" eru dæmdir og léttvægir fundnir flokkar eins og Heimastjórnarflokkurinn, Sjálfstæðismenn þversum og Sjálfstæðismenn langsum og einkunina "einsmálsörflokkur" fá Alþýðuflokkurinn og Framsóknarflokkurinn á fyrstu árum sínum. 

    Á síðari tímum má nefna Þjóðvarnarflokkinn, Samtök frjálslyndra og vinstri manna, Kvennalistann, Bandalag jafnaðarmanna, Borgaraflokkinn og Þjóðvaka. 

    Þjóðvarnarflokkurinn fékk aðeins tvo þingmenn kjörna 1953 en hafði afgerandi áhrif á stjórnmál í landinu á sjötta áratugnum. 

    Svo ég nefni framboð, sem ég þekki nokkuð vel til, Íslandshreyfinguna - lifandi land, hafði hún fyrir kosningarnar 2007 stefnu í flestum málum, sem þá voru í stjórnmálaumræðunni, auk þess að vera flokkur, sem beitti sér sérstaklega í langstærsta framtíðarmálaflokki 21. aldarinnar, umhverfis- og náttúruverndarmálum. 

    Svonefndur "einsmálsflokkar" geta haft stefnumál, sem hafa áhrif á stefnu annarra flokka, líkt og Þjóðvarnarflokkurinn hafði á árunum eftir 1953.  

    Ómar Ragnarsson, 28.10.2017 kl. 00:13

    5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

    Hér er fullyrt af hroka og dónaskap að píratar séu einhverksonar "vinstri sósíalistar", sem er hrein lygi.

    Með sömu rökum og samkonar málfutningi er Sjálfstæðisflokkurinn blautur draumur alræðissinnaðra sóvét fastista.

    Ef þið viljið það verði ykkur þá að góðu.

    Góðar stundir.

    Guðmundur Ásgeirsson, 28.10.2017 kl. 00:52

    6 Smámynd: Jón Valur Jensson

    Ég var sennilega ósanngjarn að segja, að Sigríður Andersen hafi ekki farið að reyna 48 tíma regluna fyrr en "á síðustu metrunum;" hún hefur staðið sig býsna vel í viðleitninni, og það hefur mikið að segja; Útlendingastofnun hefur upp á síðkastið tekizt að leysa sum málin a.m.k. á þremur sólarhringum.

    Guðmund Ásgeirsson spyr ég: Eru Píratar ekki klárlega stjórnleysingjar, anarkistar?

    Jón Valur Jensson, 28.10.2017 kl. 02:56

    7 Smámynd: Sigurður Haraldsson

    Flokkur fólksins er ólýðræðislegur flokkur sem flokkar fólk eftir útliti, skoðunum og framsetningu. Inga Sæland er athyglissjúk með einræðistilburði. Þetta get ég staðfest með bæði því sem ég hef orðið fyrir og svo aðrir í/úr flokknum hafa þurft að upplifa og þola af hendi þessa flokksstjórnar Ingu Sæland. Sjálfstæðismenn hafa tekið sér stöðu í nær öllum 1. sætum í kjördæmum og stjórn flokksins. Ólafur Ísleifsson 1. sæti Reykjavík norður og Kolbrún Baldursdóttir 2. sæti, Karl Gauti Hjartarson 1. sæti suðurkjördæmi, Halldór Gunnarsson 1. sæti norð-ausur kjördæmi, Pétur Einarsson 2. sæti norð-austur. Magnús Þór Hafsteinsson 1. sæti norð-vestur kjördæmi. Sigurjón Arnórsson framkvæmdastjóri, Svanberg Hreinsson ritari, Birgir Jóhann Birgisson tæknistjóri, allir þeir sem taldir hafa verið hér upp eru Sjálfstæðismenn.

    Sigurður Haraldsson, 28.10.2017 kl. 09:29

    8 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

    Einsmálsflokkar eru að sjálfsögðu fyrir einsmáls- kjósenduna. Eins hvers staðar verða vondir að vera, ekki satt? Það er algjör óþarfi að banna ákveðna flokka. Sjálfur vil ég einstaklingsframoð en að sjálfsögðu get ég ekki gert kröfu um að banna eigi stjórnmálasamtök. Kjósendur eiga að velja, ekki ég.

    Jósef Smári Ásmundsson, 28.10.2017 kl. 12:10

    9 Smámynd: Jón Valur Jensson

    Sjálfstæðismenn! segir Sigurður Haraldsson, en ýmsir þeirra eru löngu hættir að vera það. Hann ætti ennfremur að hugsa út í það, af hverju jafnvel slíkir yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn. Ég gerði það t.d. þegar Bjarni Ben. og taglhnýtingar hans (en ekki allir þingmennirnir) sviku þjóðina í Icesave-málinu.

    Jón Valur Jensson, 28.10.2017 kl. 13:52

    10 Smámynd: Sigfús Ómar Höskuldsson

    Það eru líka menn í N-Kóreusem sjá ekki tilgang í öðrum stjórnmálaflokkum. 

    Eðlilegt að þeir sem styðja flokk sem fer hægt og sígandi niður á við [þegar 24-5% atkvæða í dag vera túlkuð sem sigur], vilji ekki meira lýðræði en þeim hentar. 

    Auðvitað vill þessi FLokkur ekki gera nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá , eins og að færa lýðræðið til þjóðar og lækka mögulega lágmarkið til að komast á þing. 

    Langbezt að ráða öllu....einn.

    Sigfús Ómar Höskuldsson, 28.10.2017 kl. 15:48

    11 identicon

    "Flokkur fólksins er ólýðræðislegur flokkur sem flokkar fólk eftir útliti, skoðunum og framsetningu. Inga Sæland er athyglissjúk með einræðistilburði."

    Sigurður Haraldsson, þetta er þvæla. Flokkurinn vill bara að ríkið hugsi fyrst og fremst um láglaunafólkið og lífeyrisþegana sem þegar búa í landinu, hvort sem það eru etnískir Íslendingar eða útlendingar, áður en hælisleitendum sé hleypt inn, sem sumir hverjir fara á ævilanga framfærslu, sem er vilji Pírata, Samfylkingar og VG.

    Á meðan er ekki til peningur til handa öryrkjum og ellilífeyrisþegum sem hafa þrælað alla eða hálfa ævina. Allar stéttir hafa fengið leiðréttingar og hækkanir, en þeir lægst launuðu og lífeyrisþegar lepja dauðann úr skel.

    Það kæmi mér ekki á óvart þótt Kjararáð hækki laun alþingismanna og efstu embættismanna (líka öllum þeim duglausu) um tugi prósenta um leið og ný ríkisstjórn hefur verið mynduð sama hver hún er. Og sú ríkisstjórn mun ljúga því að þetta komi henni á óvart, en ekki sé hægt að breyta neinu um það, Kjararáð sé góðgerðarstofnun elítunnar og óháð Alþingi eða eitthvað í þeim dúr. Spillingin innan stjórnsýslunnar er virkilega áþreifanleg. Og það er líka eitt af stefnumálum flokksins, að útrýma þessari spillingu sem fjór-, fimm- og sex-flokkurinn hefur í raun neitað að gera neitt við, þótt það þyrfti að hreinsa rækilega út.

    Ég hef líka hitt og talað við Ingu Sæland. Hún er mjög geðfelld og veit hvað hún vill. Hún hefur hjartað á réttum stað. Er þér kannski, Sigurður Haraldsson, í nöp við röggsamar konur sem láta ekki valta yfir sig? Hmm?

    Í skoðanakönnunum sem birtar hafa verið fær xF undir 5%, en allir kjósendur sem frambjóðendur og fulltrúar flokksins hafa rætt við, hafa verið spurðir álits. Mig grunar að Félagsvíndastofnun hringi mestmegnis innanhúss þegar sú deild gerir þessar kannanir.

    Kunningi minn hefur rætt við þetta fólk sem hefur verið að kynna Samfylkinguna og VG í Kringlunni og hann sagði að ólíkt frambjóðendum annarrra flokka, vildi fólkið ekki tala við hann um leið og hann byrjaði að tala um stefnumál þessara flokka á gagnrýninn hátt. Hvorki um ESB né Islam. Enda má helzt enginn vita sannleikann um þessi tvö mikilvægu atriði svona rétt fyrir kosningar. Ein stúlka frá VG-liðinu um eða yfir tvítugt var einstaklega fáfróð, en móðgaðist strax, hún tók  gagnrýni á stefnu VG sem árás á sig sjálfa. Hún hafði að sjálfsögðu fullan rétt á því að móðgast og kunningi minn hafði fullan rétt á því að móðga hana.

    Ég spurði hann hvað hann ætlaði sér síðar í kvöld. Hann sagði mér að hann ætlaði að fara á kosningavöku hjá Samfylkingunni og vera í "I LOVE ISRAEL"-bolnum sínum, Degi B. og Björk Vilhelms til skemmtunar.

    Pétur D. (IP-tala skráð) 28.10.2017 kl. 21:40

    12 identicon

    Leiðrétting:

    "Í skoðanakönnunum sem birtar hafa verið fær xF undir 5%, en engir kjósendur sem frambjóðendur og fulltrúar flokksins hafa rætt við, hafa verið spurðir álits."

    Pétur D. (IP-tala skráð) 28.10.2017 kl. 21:44

    13 identicon

    Eins og tölurnar líta út núna þá er Flokkur fólksins kominn inn með 4 menn þrátt fyrir allar hraksspár. Það þýðir að kannanirnar hafa verið mjög hlutdrægar að því leyti að helmingur kjósenda flokksins var ekkert spurður, hvorki með upphringingum né heldur sinntu þessir kjósendur netkönnunum. Ef fylgiskannanir eiga að vera nákvæmari, verður úrtalkið að endurspegla samsetningu allra kjósenda og ekki bara vinstri- og hægri-elítunnar. Aðferðirnar eru einfaldlega rangar. Fólk hefur eyfirleitt ekki fastasíma, símanúmer eru ekki skráð í mörgum tilfellum, fólk nennir ekki að svara spurningum í símanum og netinu osfrv. Þá væri betra einnig í ofanálag að spyrja fólk í Kringlunni, Smáralindinni og á fjölförnum stöðum úti á landi.

    En ef tölurnar halda, þá kemur fjögurra flokka hægri stjórn. Gott að losna við VG og Samfylkinguna. Hjúkk!

    Pétur D. (IP-tala skráð) 29.10.2017 kl. 01:41

    14 Smámynd: Jón Valur Jensson

    Tek undir það með þér, Pétur! Þetta er fagnaðartími.

    Jón Valur Jensson, 29.10.2017 kl. 04:03

    15 identicon

    Takk fyrir það, Jón.

    Það er fagnaðarefni að láglaunastéttirnar hafa loks fengið rödd eftir 60 ára fjarveru frá Alþingi. Ef Flokkur fólksins kemst í ríkisstjórn, þá er ég ekki í neinum vafa að öll mikilvægustu baráttumál flokksins komist í stjórnarsáttmálann. Ef hann kemst ekki í stjórn, þá verða a.m.k. 4 þingmenn sem ekki munu bara sitja þögulir undir því að ný ríkisstjórn eys fjármunum í óþarfa gæluverkefni meðan heilbrigðis- og félagslega kerfið sveltur.

    Pétur D. (IP-tala skráð) 29.10.2017 kl. 11:33

    16 Smámynd: Tryggvi Helgason

    Á þessum síðasta fundi formanna flokkanna, (hjá RÚV), þá heyrði ég ekkert þeirra nefna einu orði, að afnema kvótakerfið, eða, - að veita sjómönnum fullt frelsi til handfæraveiða. “Ekkert”, - ekki eitt einasta orð. Ekki heldur eitt einasta orð um að skera niður eitthvað af bákninu, til dæmis að loka og leggja niður Hafró og Fiskistofu, - setja lög á lífeyrissjóðina, - fækka háskólunum, - segja Ísland úr Schengen og EES, - segja landið frá Parísarsamkomulaginu og kolefnisruglinu, sem og að loka á flóttamenn og hælisleitendur. Ekki eitt einasta orð um þetta. !

    Tryggvi Helgason, 29.10.2017 kl. 17:41

    Bæta við athugasemd

    Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

    Innskráning

    Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

    Hafðu samband