Tilgerðarlegt lýðræði eða einn maður, eitt atkvæði?

Út af fyrir sig er það virðingarverð tilraun að finna aftur upp hjólið. Má vera að sá hringur sem forðum var fundinn upp sé ekki nógu góður né heldur þær tilraunir og endurbætur sem síðan hefur hugsanlega verið reynt að gera á honum. Þó flögrar sú hugsun að manni hvort tímanum sé ekki betur verið í önnur og gagnlegri verkefni.

Rétt eins með hjólið er sífellt verið að gera tilraunir með lýðræðið. Þær hafa sjaldnast tekist mjög vel, niðurstaðan verður yfirleitt sú sem forðum þótti reynast best, einn maður, eitt atkvæði.

Vörður í Reykjavík hefur síðustu árum ekki riðið feitum hesti frá prófkjörum sem félagið hefur staðið fyrir. Þvert á móti, því sífellt fækkar þeim sem þátt taka, jafnvel þó hver kjósandi fái úthlutað einu atkvæði. Vissulega er ekki Verði einum um að kenna heldur ábyggilega líka þeim sem hafa verið valdir til forystu í landsmálum og borgarmálum sem og kynningu á stefnumálum. Framhjá því verður þó ekki skotist að Vörður hefur síst af öllu náð að kynna prófkjör og frambjóðendur nægilega, afleiðingin er flestum ljós sem líta á kjörsóknina.

Nú hefur Vörður gerst þreyttur á grundvallaratriðum lýðræðisins og ætlar að gera tilraunir með prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, vonandi í því skyni að reyna að auka þátttöku almennings. Þetta hljómar dálítið sósíalísískt, ekki satt, lýðræði með undantekningum og skilyrðum. Hugmyndirnar eru eins og hugsanlegar endurbætur á hjólinu, þær munu ábyggilega gera það betra og þægilegra. En hve lengi hægt að endurbæta hjól svo það virki betur?

Staðreyndin er einfaldlega sú að hjól undir hjólbörum, hjólastóli, reiðhjóli eða bíl snúast á sama hátt í öllum tilfellum. Sá sem vill endurbæta hjólið ætti frekar að einbeita sér að veginum, grundvellinnum, sem það rúllar eftir. 

Vörður ætti á sama hátt að leggja meiri rækt við þann grundvöll sem lýðræðið byggir á. Grundvöllurinn undir það eru stefnumálin og kjósendur ekki skraut eða tilgerð. Einn maður, eitt atkvæði og sá sem fær þau flest er forystumaðurinn. Einfaldara og betra verður það aldrei, rétt eins og hjólið. Hjól er bara hjól og verður ekkert annað. Lýðræðið er í sjálfu sér einfalt, en lengi má þó endurbæta grundvöllinn og kynninguna.

Má vera að stjórnarmenn í Verði viti þetta og telji áminninguna einskis verða og þeirra mesta skemmtun sé tilraunin ekki kynningarstarfið. Þá eru þeir á miklum villigötum - á þeim rúllar hjólið illa.


mbl.is Á von á að ráðið samþykki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Sigurður

Persónulega hefur mér alltaf fundist vanta einhver horn í hringinn, en það er kannski bara af því ég er svo ferkantaður.

Hvað um það, þá er bráð nauðsynlegt fyrir Sjálfstæðisflokk að ná vopnum sínum í höfuðborginni. Að öllu óbreyttu mun núverandi meirihluti halda völdum í næstu kosningum, jafnvel þó meirihluti kjósenda hafi þegar áttað sig á að það mun leiða enn meiri hörmungar yfir borgarbúa. Ástæðan er að kjósendur finna ekki andsvarið, að núverandi minnihluti er ekki að standa sig.

Þar stoðar lítt að kenna Framsókn um, enda aldrei verið alvöru stjórnmálaflokkur innan borgarmarkanna. Sá fulltrúi flokksins sem þar situr nú hefur hengt sig á eitt málefni, vissulega þarft málefni, en einsmálsfólk er ekki til stórræðanna. Af nógu er að taka í gagnrýni á stjórnun borgarinnar. Þá hefur sá flokkur fjarri því leyst sín vandamál og innbyrðis hjaðningar stundaðar af miklum móð.

Hins vegar var Sjálfstæðisflokkur hinn eini sanni stjórnmálaflokkur borgarbúa til áratuga og borgin öflugasta vígi flokksins. Þetta er af og hefur verið svo til alls of langs tíma.

Núverandi fulltrúar flokksins, innan stjórn borgarinnar, hafa vægast sagt verið litlausir. Þegar öll stjórnun borgarinnar kallar á mótmæli, hörð mótmæli, heyrist næsta lítið í minnihlutanum. Einstaka sinnum brýna þeir raust sína, þegar kjósendum ofbýður rugla borgarstjórnar, en sjaldnast er málum fylgt eftir. Verst er þó að minnihlutinn tekur oftar en ekki undir ruglstjórnunina. Má þar meðal annars nefna málsmeðferð Flugvallarins og allt það rugl sem snýr að því. Með ólíkindum að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík skildi ekki taka einarða afstöðu í því máli þegar um 70.000 undirskriftir voru afhendar borgarstjóra, um málið. Þetta er bara eitt af mörgum mistökum minnihlutans í borgarstjórn.

Það er eitthvað stórkostlegt að innan Reykjavíkurdeildar Sjálfstæðisflokks. Hvort það er að hjólin undir flokknum snúist í sitthvora áttina, eða hvort vegstæðið sé svo slæmt, ætla ég ekki að dæma. Hvort heldur er þarf að laga það og það hið fyrsta. Hallast þó heldur að því að hjólin standi á sér, vegstæðið hlýtur að vera það sama og aðrir flokkar fara, nema auðvitað flokkurinn sé kominn út í móa!

Ég kvíð fyrir kosningunum næsta vor. Er að vísu ekki með atkvæðarétt í borginni, en þetta er jú mín höfuðborg, eins og allra landsmanna. Það er skelfing til að hugsa að núverandi meirihluti haldi völdum, ekki vegna góðrar stjórnar, heldur vegna þess að kjósendur sjá ekki aðra möguleika.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 14.8.2017 kl. 21:05

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Vel mælt, Gunnar. Er að mestu sammála.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 15.8.2017 kl. 00:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband