Meintar villur í íslenskum fréttamiðlum

Hér eru nokkrar athugasemdir sem ég hef við örfáar fréttir í fjölmiðlum í rétt rúma viku. Ég  er ekki málfræðingur en hef stundað skriftir nokkuð lengi og fallið í margan pyttinn og fengið aðstoð góðs fólks við að komast upp úr. Segi og skrifa, prófarkalesarar eru þyngdar sinnar virði í gulli ...

Því miður virðist enginn prófarkalestur vera á íslenskum fréttamiðlum og ekki einu sinni þannig að samstarfsmenn lesi yfir hver fyrir hvern annan (leiðrétt samkvæmt prófarkalestri Ómars Ragnarssonarlaughing). Hið seinna ætti þó að vera algjört lágmark.

Athugasemdir eru hér skráðar sem vafamál, veit að íslenskufræðingar myndu í sumum tilfellum einfaldlega skrifa „rangt mál“. Þar á eftir skrifa ég athugasemd og legg síðan til orðalag sem mér þykir betra.

 

Vafamál

„Lög­regl­an hef­ur fram­kvæmt yfir hundrað hand­tök­ur á þessu tíma­bili.“ Mbl, 25.júní 2017.

Athugasemd

Ekki fallegt orðalag, né heldur að framkvæma leit, framkvæma skemmtun eða framkvæma skrif. Betra er að leita, skemmt eða skrifa.

Skárra:

Lögreglan hefur tekið meira en eitt hundrað manns höndum (á þessum tíma).

 

Vafamál

„Fjölbreytt úrval af ilmum.“ Auglýsing í sjónvarpi 25. júní 2017.

Athugasemd

Ilmur er karlkynsorð í eintölu. Það er ekki til í fleirtölu, ekki frekar en lykt (kvk), þefur (kk) eða 

Skárra

Verslunin ilmar af ótrúlegri angan enda úrvalið fjölbreytt …

 

Vafamál

„Ég átti mjög áhuga­verðan fund með Þýskalandi eft­ir að við dróg­umst með þeim í HM-riðil­inn. Þar skinu hort­ug­heit­in í gegn og hvernig er litið niður á Ísland. Ég sagði þá við þau: Þið skuluð aðeins fara að haga ykk­ur.mbl.is 23.6.2017.

Athugasemd:

Orðasambandið „að hag sér“ skilst ekki eitt og sér nema eftir fylgi atvikisorð eða lýsingarorð. Jón hagar sér vel/illa/sæmilega … Enska sagnorðið „to behave“ getur hins vegar staðið sér. Jafnvel Google Translate veit muninn.

Skárra

Ég sagði þá við þau: Þið ættuð að haga ykkur betur.

 

 

Vafamál

„Einn þeirra sem AFP-frétta­stof­an ræddi við reyndi í tvígang að sleppa úr haldi en náðist í bæði skipt­in og var bar­inn til óbóta að laun­um. “ mbl.is 27.6.2017.

Athugasemd

Betra hefði verið að sleppa niðurlaginu, setningin hefði verið skiljanlegri fyrir vikið.

Skárra

… var í staðinn barinn til óbóta. Eða … var að launum barinn til óbóta.

 

 

Vafamál

„Hann hefur nú sagt að heilbrigðisfrumvarpið sé „illkvittið.“ visir.is 27.6.2017.

Athugasemd

Líklega er þetta þýðing á enska orðinu „mean“ sem getur þýtt vondur, illur eða illkvittinn. Hér er frumvarpið persónugert, því llkvittinn er sá sem kemur illum orðrómi af stað. Hér hefði mátt vanda til þýðingarinnar.

Skárra

Hann hefur nú sagt að heilbrigðisfrumvarpið sé vont.

 

Vafamál

„Freista mætti þess að lýsa valkostunum þannig að við stöndum frammi fyrir tveimur vondum kostum: … “ Arnar Jónsson, lögmaður, í grein í Morgunblaðinu 29.6.2017.

Athugasemd

„Valkostur“ er vont mál vegna þess að það er samsett með tveimur orðum sem þýða nokkurn veginn það sama, þó blæbrigðamunur sé á. Við eigum við við eigum kost á því að fara í Hagkaup eða Bónus, eigum val um þessar tvær verslanir (og fleiri). Hvers vegna ætti það að vera „valkostur“ að fara í Hagkaup eða Bónus?

Skárra

Freista mætti þess að lýsa aðstæðum þannig að við stöndum frammi fyrir tveimur vondum kostum. … Eða: … að við þurfum að velja milli tveggja vondra/slæmra kosta.

 

Vafamál

„Eins og að hafa gott skopskyn og kyssast góða nótt á hverju kvöldi.“ Pressan 29.6.2017.

Athugasemd

Er varla rökrétt frekar en að segja: ‚heilsast góðan dag‘, ‚kveðjast góða nótt‘.

Skárra

Bjóða góða nótt með kossi.

 

 

Vafamál

„Hann ætlar sér að halda til Bandaríkjanna og hitta þar syni sína tvo sem voru að fæðast í gegnum staðgöngumóðir.“ Pressan 29.6.2017.

Athugasemd

Frekar illa orða rétt eins og staðgöngumóðir sé eins og hús, farið inn á einum stað og út á öðrum.

Skárra 

… sem fæddust hjá staðgöngumóður.

 

Vafamál

„Reynslan hefur kennt mér að ef maður endurleitar heysátuna finnur maður hina nálina.“ Guðjón E. Hreinberg, heimspekingur í grein í Morgunblaðinu 30. júní 2017.

Athugasemd

Skrýtið orðalag. Hér vantar forsetninguna 'í'.

Skárra

Reynslan hefur kennt mér að ef leitað er aftur í heysátunni finnst hin nálin.

 

Vafamál

„Það er ljóst hvar ég spila á næsta tímabili en ég get ekki uppljóstrað það,“ sagði Sánchez í samtali við Sky Sports.“ visir.is 30. júní 2017.

Athugasemd

Skrýtið orðalag, eiginlega dálítið rembingslegt. Varala talar nokkur maður svona.

Skárra

Ég veit hvað ég mun spila á næsta tímabili en ég get ekki ljóstrað því upp (eða sagt frá því), sagði Sánchez í samtali við Sky Sports.

 

 

Vafamál

„ Hægt sé að fá góð gæði fyrir peninga í löndum eins og Kanada, Noregi og Írlandi. “ visir.is 2.júlí 2017.

Athugasemd

Gæði er nafnorð í hvorugkyni, ekki til í eintölu. Dregið af orðinu góður. „Góð gæði eru því tvítekning, rétt eins og ‚slæm vonska‘ sem er auðvitað bull.

Skárra 

Hæg sé að fá mikil/meiri gæði fyrir peninga í löndum eins og Kanada, Noregi og Írlandi.

 

Sé það núna að bloggkerfi mbl.is gefur ekki merkilega möguleika á skilmerkilegri uppsetningu á texta eins og hér fyrir ofan. Helst af öllu þyrfi að finna aðra lausn fyrir svona umfjöllun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

"Verslunin ilmar af ótrúlegri angan enda úrvalið fjölbreytt …"

Ekki mikið betra, vegna klifunar.  Þú ættir að fara alla leið þá: "Verzlunin lyktar öll stybban af angandi þef."

Það er meira: "„Ég átti mjög áhuga­verðan fund með Þýskalandi eft­ir að við dróg­umst með þeim í HM-riðil­inn. Þar skinu hort­ug­heit­in í gegn og hvernig er litið niður á Ísland. "

... já.  Lestu þetta upphátt.  Eitthvað vantar í setninguna.

"„Freista mætti þess að lýsa valkostunum þannig að við stöndum frammi fyrir tveimur vondum kostum: …"

Þetta er líka klifun.

"„Hann ætlar sér að halda til Bandaríkjanna og hitta þar syni sína tvo sem voru að fæðast í gegnum staðgöngumóðir.“"

Ekki bara er þetta sci-fi, heldur er þessi setning líka hreint Ero-Guro - ef maður skilur hana bókstaflega.

"„ Hægt sé að fá góð gæði fyrir peninga í löndum eins og Kanada, Noregi og Írlandi. "

Þetta er skilt því þegar fólk spyr hvað verðið kostar.

Ásgrímur Hartmannsson, 2.7.2017 kl. 15:37

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Smá grín: Við prófarkalestur sá ég að þú mælir með því að blaðamenn prófarkalesi fyrir hvern annan. 

Hið rétta er: ...að prófarkalesa fyrir hver annan." 

Ef þú breytir þessu máttu alveg fela þessa athugasemd mína, því að venjulega er prófarkalesið áður en textinn er birtur, - prófarkalestur fer yfirleitt hljóðlega fram í leynum. 

Ómar Ragnarsson, 2.7.2017 kl. 20:55

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir, Ómar. Þetta sannar að gott að hafa einhver til að lesa yfir fyrir sig. Fæstir eru góðir prófarkalesarar fyrir sig sjálfa. 

Oft bið ég samstarfsmann um að lesa yfir texta hjá mér (auðvitað fyrir birtingu). Það dregur úr líkunum á villum, bæði stafsetningar- og málfræðivillum. íslenskan er svo blæbrigðalík að villuleiðrétting

Stundum er gott að geyma texta og lesa yfir síðar. Þó kemur oft fyrir að ég þarf að leiðrétta og laga texta á þessum vettvangi löngu eftir að ég hef birt hann.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 2.7.2017 kl. 21:10

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Íslenskan er svo blæbirgðarík að villuforrit koma ekki alltaf að nógu góðu gangi (... átti þetta að vera hérna fyrir ofan).

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 2.7.2017 kl. 21:12

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þetta eru fínar vangaveltur og lengi hægt að halda áfram. Mér finnst t.d. sérstakt að eiga fund með Þýskalandi eins og þar sé um einhverja persónu að ræða. Síðan er talað um þau þar sem allt í einu komin fleirtala í hvorugkyni. Skárra er að eiga fund með Þjóðverjum eða fulltrúum Þýskaland og segja síðan eitthvað við þá.

En talandi um gott og slæmt mál þá finnst mér orðalagið "að beina sjónum sínum að einhverju" oft vera notað á undarlegan hátt en fólk sleppir oft að nefna hverra sjónum um sé að ræða og segir bara "að beina sjónum að einhverju". Skondið dæmi um þetta var dagskrárkynning í sjónvarpi þar sem kynntur var til sögunnar íslenskur náttúrufarsþáttur með eftirfarandi hætti: "Í þessum fyrsta þætti beinum við sjónum að hafinu".

Emil Hannes Valgeirsson, 3.7.2017 kl. 12:54

6 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sammála Emil. Þetta orðalag sem þú nefnir er afar óljóst, oft þýðing úr ensku. Verra væri ef orðalagi hefði verið þetta „... beinum við sjónum að sjónum.“.

Fyrir kemur í íþróttafréttum að Þýskaland, Liverpool eða Valur hafi skorað mark og þeir hafi unnið leik ... Enn verra er þó þegar sagt er að „við“ unnum Englendinga í landsleiknum, og við hefðum skorað tvö mörk en „þeir“ eitt. Hverjir eru „við“ og „þeir“? 

Svona getur málið breyst vegna leti og þekkingarleysis þeirra sem vita allt um fótbolta en fátt um íslenskt mál sem er svo sem ekki alslæmt. Verst er að þetta sama fólk fær enga tilsögn og enginn les yfir það sem það skrifar eða leiðrétti það sem það segir. Hvort tveggja myndi áreiðanlega hjálpa alveg heilmikið.

„Þó að  bein þýðing á orðinu lærisveinn sé nemandi eða lærlingur, þá fá orð oft nýja þýðingu í hinum ýmsu greinum. Segja má að noktun orðsins lærisveinn á þennan máta sé svokallað íþróttamál.“

Sem sagt, beinlínis er verið að þvinga fram breytingar á íslensku máli, ekki samkvæmt ábendingum þeirra sem til þekkja, íslenskufræðinga, rithöfunda eða annarra sem kunna með að fara. Nei, ákvörðunin er tekin af nokkrum náungum sem kalla sig blaðamenn og þeim virðist allt leyfilegt.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 3.7.2017 kl. 13:36

7 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Skýringin á tilvitninunni í sjöttu athugasemd féll niður. Hún kemur til vegna póst sem ég sendi á íþróttamann á virðulegum prentmiðli og gagnrýndi notkun hans á orðinu lærisveinn sem hann notar um leikmenn þjálfara liðs. Þeir séu sem sagt lærisveinar þjálfarans. Þetta tel ég rangt.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 3.7.2017 kl. 13:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband