Hann sagði ekki einu sinni bless ...

HnefibVinur minn einn er nær óþolandi, létt spjall er ekki til í huga hans. Allt hefur einhvern tilgang, merkingu og jafnvel fleiri en eina. Svona menn eru frekar þreytandi á tímum þar sem sjónvarpið tæmir huga manns, Netflix, iTunes og aðrar menningarveitur og maður þarf ekkert að hugsa um tvíræðni eða eitthvað þaðan af dýpra. Eftir því sem maður er meira mataður, hverfur sjálfstæði hugsun og afleiðing er innantómt bergmál þess sem mann rekur minni til að hafa heyrt aðra segja eða vörpulegur leikari hefur látið sér um munn fara.

Jæja ... Þessi æskuvinur minn eða öllu heldur kunningi, bauð mér í heimsókn dag einn er norðaustanáttin gerði því fésbókarfólki grikk sem hélt að nú ætti að vera eilíft mæjorkasumar.

Við spjölluðum um daginn og veginn og þar sem við höfðum ekki sést lengi þurfti ég endilega að leita í reynslusögubankann og þá var tilvalið að segja af svaðilförum og hrakningum. Ég hef til dæmis ótal sinnum vaðið yfir læki, ár og jafnvel fljót og alltaf lifað þær hörmungar af.

Þá varð mér á að segja frá gamla smíðahamrinum hans pabba sem hann erfði frá föður sínum og sá frá sínum. Og gamli sumarbústaðurinn frænku minnar stendur enn og er þó orðinn eitthundrað ára gamall og ég nefndi hann svona í framhjáhlaupi er ég minntist á fjallaskála.

Af minni hálfur var nú fáu logið en vinur minn, svo leiðinlega nákvæmur sem hann er, dró í efa að ég hafi oft vaðið sömu læki, stundum í leysingum, og straumharðar ár. Aha ... hrópaði ég æstur og nefndi hraðmæltur til sögunnar Krossá, Reykjarfjarðarósinn og hugsanlega einhvurjar fleiri sprænur.

Nei, sagði vinurinn. Sko, þú veður hverja á bara einu sinni vegna þess að vatnið rennur í burtu og kemur aldrei til baka ... áfram streymir áin endalaust!

Svo benti hann mér á að gamli hamarinn hans langafa sé með þrjátíu ára gömlu skafti og tíu ára gömlum haus og ábyggilega ekki í fyrsta sinn sem þessir hlutir hans voru endurnýjaðir. Þetta sé nú ekki sá ættargripur sem ég hef gumað af. Síður en svo.

Sumarbústaður frænku minnar er nú ekki allur sem hann sýnist, þó fornfálegur sé. Hann benti á að hver einasta spýta í honum hefur verið endurnýjuð þó vera megi að í honum sé eitt og annað sem teljist 100 ára en búið að sandblása og hefur fengið nýtt hlutverk. Gólfið er vissulega meira en eitthundrað ára en það er sannarlega komið úr húsi við reykvísku Hverfisgötuna sem var talið ónýtt og rifið fyrir mörgum árum þó svo að endurnýta mætti nokkur gólfborð.

Við þessu gat ég ekkert sagt, fannst raunar dálítið niðurlægin felast í afhjúpuninni, óþarfa aðfinnslur sem drepa hefðbundnar samræður. Við þögðum. Ég mundi eftir því að svona var hann líka í gamla daga. Í barnaskóla gat hann aldrei unnt nokkrum öðrum neinnar frásögu. Hann toppaði allt eða dró í efa.

Þá lét ég einfaldlega krók koma á móti bragði, ef þannig má að orði komast. Uppi á vegg í hékk innrömmuð mynd, plakat. „We never walk alone“, stóð þar með stríðsletri og kennitákn fræga enska fótboltafélagins Liverpool.

Ég hallaði mér aftur í stólnum og lét fara vel um mig áður en að ég skaut á hann því sem ég hafði upphugsað í skyndingu.

Já, má vera að þetta sé allt rétt hjá þér, kæri minn. Þannig er þetta líka með fótboltafélagið þitt. Á hverjum tíma er það ekkert annað en þeir leikmenn sem sparka í tuðruna í samkeppni við önnur. Þó klúbburinn sé 125 ára er hefur hann reglulega verið endurnýjaður eins og fjalirnar í húsinu hennar frænku minnar. Raunar er hann eins og Krossá, alltaf rennur nýtt vatn um vaðið - og kemur aldrei til baka. Á hverju ári bætast nýir leikmenn í liðið og aðrir hverfa á braut. „They never stay for long“ ... Ég reyndi að endurbæta slagorð Liverpool.

Liverpool er ekkert annað en „lógóið“, sagði ég og sveiflaði hendinni með leikrænum tilburðum og benti á plakatið.

Þú ert nú meiri asninn, sagði þessi vinur ... kunningi minn. Hann þurfti ekki að hugsa sig um. Þú getur ekki snúið kenningum Forn-Grikkjans Herkakleitosar upp á menn. Þetta á við dauða hluti, drengur minn. Ætlarðu kannski að halda því fram að lýðveldið Ísland sé ekki það sama og það var við stofnun, árið 1944?

Ég reyndi að leiða þetta hjá mér og benti á að félög væru ekkert efnislega óáþreifanleg væru þau þó til vegna þess að þau væru formuð á sama hátt og hlutir. 

Ég endurtek, þú ert asni, sagði kunninginn. Þú ert ekki heimspekingur en það er ég. Sé það rétt sem þú segir værirðu ekki sá hinn sami og þú varst þegar þú fæddist vegna þess að árlega endurnýjast líkaminn að hluta til og smám saman breytist hann. Þú ert ennþá sami asninn og þú varst þegar við vorum í barnaskóla.

Skyndilega rann upp fyrir mér hvernig hann var í gamla daga. Hann hafði einstakt lag á að gera lítið úr öðrum, ekki bara mér. Hann var þessi leiðinda náungi sem skipti sér af öllu. Ef einhverjir hlógu og skemmtu sér hrinti hann einhverjum. Þegar hann beið lægri hlut í fótbolta átti hann það til að stela fótboltanum og skera gat á hann. Á dansiböllum kippti hann stólunum undan stelpunum og reif í hárið á þeim. Hann var hávær og frekur. Á örskotsstundu mundi ég þetta allt, leiðindin, sárindin út af fótboltanum, stríðninni og ... það sem mestu máli skipti þeim tíma sem hafði farið til spillis en hefði getað orðið eftirminnilegur.

Jæja, sagði ég, stóð upp og kýldi hann á kjaftinn svo hann steinlá á stofugólfinu.

Þú hefur rétt fyrir þér, sagði ég, og nuddaði sáran hnefa hægri handar. Við breytumst ekki, þó hef ég ekki slegið nokkurn mann fyrr en núna.

Svo kvaddi ég en hann svaraði aungvu, sagði ekki einu sinni bless.

Þessi saga getur verið sönn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sigurður

Bráðskemmtileg frásögn með heimspekilegum vangaveltum.

Samfélag og innihald þess eru hugmyndir manna. Getur það orðið einhvað annað? Af því spretta fjórar grunnspurningar:

1. Hver skapaði þetta? (Guð ekki talinn með)

2. Er þetta alvarlegt?

3. Hvar endar þetta?

4. Hver á að taka til þegar yfir lýkur?

Sigþór Hrafnsson (IP-tala skráð) 26.6.2017 kl. 23:35

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll,

Forvitnilegar spurningar sem leiða hugann að sumarbústaðnum hér að ofan.

1. Sá sem byggði sumarbústaðinn bjó til hús sem notað hefur verið í eitthundrað ár. Aðrir hafa endurbætt verk hans. Hvers er höfundarrétturinn?

2. Sá sem byggði sumarbústaðinn er fallinn frá, sem og fleiri er komu að verkinu á síðari tímum. Já, allir sem endurbætt hafa sumarbúastaðinn eru dánir eða verða það.

3. Lífshættulegt er að endursmíða búastaðinn.

4. Sorpa ... nema því aðeins að kveikt verði í bústaðnum.

Þetta er auðvitað útúrsnúningur enda er ég lítt heimspekilega kantaður.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 27.6.2017 kl. 08:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband