Leyndardómurinn um forna ljósmynd upplýstur

Bær orginalÞessa mynd tók Johannes Klein (1854-1928), danskur málari og ljósmyndari, á ferð sinni um Ísland árið 1898. Hann var í fylgd með Daniel Bruun, dönskum fornleifafræðingi, sem kom oft hingað til lands að kanna fornar minjar.

Myndin er varðveitt á dönskum söfnum og má meðal annars leita að henni hér.

Þetta er ákaflega falleg mynd af bæ, fyrir framan hann er afgirtur kálgarður, öll hús opin og í fjarska nokkur fjöll.

Myndin var kynnt í mars á þessu ári á Facebook síðu sem nefnist „Gamlar ljósmyndir“. Síðan hefur margt gerst, tæplega fimmhundruð færslur hafa verið skrifaðar um myndina og margir vísir menn og konur tjáð sig, þar á meðal höfundur þessara lína.

Kort leið KleinSitt sýndist hverjum um myndina og hvar hún gæti verið. Margir vildu vita hvar Johannes Klein hefði farið um landið og upplýst var að hann hefði aðeins einu sinni komið hingað.

Hann tók land á Eyrarbakka, reið líklega yfir Selvogsheiði og til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Þaðan sigldi hann yfir Faxaflóa, fram hjá Búðum, Ólafsvík og Stykkishólmi, síðan yfir Breiðafjörð og fór í land á Reykhólum. Þaðan reið hann með fygdarliði sínu um Dali, yfir í Húnavatnssýslur og Skagafjörð, yfir Kjöl og til Reykjavíkur.

Hér er lítið kort yfir þá staði sem Klein kom á og tók ljósmyndir, teiknaði myndir eða málaði.

Á þeim þremur mánuðum sem liðu frá því að myndin birtist á Facebook áttu margir andvökunætur yfir kortum og ljósmyndum sínum. Lásu í kort á tölvum og mynduðu hugmyndir og kenningar. Undirritaður var fyrst sannfærður um að myndin væri tekin í Skagafirði og væri jafnvel af Mælifelli. Sú hugmynd gekk ekki, nokkrir voru til að leiða höfundinn frá villum síns vegar.

BærinnÞá lá leiðin í Reykhóla og Dali en ekkert fannst þó svo að mikil líkindi fundur í landslagi víða sé myndin borin við það. Samt voru alltaf einhver smáatriði sem trufluðu, fjallstopp vantaði, bæinn vantaði og svo framvegis. Og smáatriði í ljósmynd verður víst að taka með.

Aðrir stungu upp á Hvalfirði, Haukadal, Víðidal, Vatnsdal og fleiri og fleiri stöðum. Allt án árangurs.

Þá gerist það einn góðan sumardag að sá sem kynnti myndina í upphafi leysti gátuna. Sverrir Þórólfsson birti mynd sem sýndi og sannaði að sú gamla var tekin af bænum Miðdalskoti sem er skammt norðan við Laugarvatn og fjöllin í fjarska tilheyra Klukkutindum. Þeir eru norðaustan við Þingvallavatn, skammt frá Skjaldbreið. Á kortinu hér við sést afstaðan milli bæjarins og tindanna.

Gríðarlegar breytingar hafa orðið á landslagi á þeirri rúmu öld sem liðin er frá því að myndin var tekin. Bærinn er löngu horfinn og samnefnt kot komið neðar í landið og er eiginlega stórbýli, að því er manni sýnist.

Gróðurinn er mikill, birkið hefur vaxið upp um allar hlíðar og þar sem á gömlu myndinni virðist lítill gróður er nú þéttur skógur.

Bær 2Og hér er nú mynd tekin í dag, klippt úr stærri mynd, og sú gamla til samanburðar. 

Ekki fer á milli mála að hér er um sama landslagið að ræða.

Bær aGaman að þessu og ekki síður hversu það kom áhugasömum fylgjendum með síðunni á óvart að þarna ætti myndin heima, þar á meðal mér. Hér eru nokkrar athugasemdir:

  • Guðný Þórarinsdóttir: NEI! hjálp! ég á sumarbústað í Miðdal og horfi á þetta útsýni nánast um hverja helgi!
  • Baldur Garðarsson: 4 km fyrir austan Laugarvatn (þar sem bjáninn ég vinn og er búinn að keyra þarna um margoft í vetur á sama tíma og ég hef skoðað myndir af Vestur- og Norðurlandi í leit að staðnum), en þarna eru frístundahús, gætum líka leigt eitt slíkt og haldið fund. Þetta andleysi mitt heitir að sækja vatnið yfir lækinn.

Bær5Leitin að staðnum sem myndin var tekin var afar fróðleg og þótt margar tillögur hafi komið fram stóð upp úr hversu margt fólk býr yfir miklum fróðleik og þekkingu á landinu og sögu þjóðarinnar. Fyrir það má þakka.

Hér eru loks þrjár myndir sem Sverrir Þórólfsson birti með færslu sinni og sanna svo ekki verði um villst hvar gamla myndin var tekin.

Gott er að smella á myndirnar til að stækka þær.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband