Elsku afiiii, viiiiltu halda á mér?

IMG_9201 - Version 2Kl. 19.02: - Afi, viltu halda á mér?

- Nei, elsku vina.

Kl. 19:03: - Aaaafi, viiiiltu halda á mér?

- Nei, elskan.

Kl. 19:04 Elsku afiiii. Viiiiltu halda á mér?

- Nei, þú ert orðin svo stór að ég get ekki haldið á þér.

Eitthvað á þessa leið hljóðaði samtalið við hana Unni, sonardóttur mína, á göngustígnum upp á Esju. Hún er sex ára. Pabbi hennar hljóp upp göngustíginn á eftir dætrum sínum, þeim Írisi og Rakel, og átti eflaust fullt í fangi með að hafa við þeim spretthörðu lömbum.

Við vorum á á leið á tónleika Aron Can, Þuru Stínu, Úlfs Úlfs og Emmsje Gauta ofarleega í hlíðum Esjunnar. Þúsund sinnum eða oftar hef ég gengið á Esjuna en aldrei sé annan eins fjölda á göngustígnum. Ábyggilega á annað þúsund manns fóru upp, krakkar, unglinga, ungt fólk, kallar og kellingar. Fólk á öllum aldri og allir í banastuði. Ekki endilega vegna tónlistarinnar heldur líklega miklu frekar vegna vímunnar, adrennalínvímunnar, sem leggst á alla sem reyna á sig líkamklega og er svo indæl þegar lagst er niður.

IMG_9190Við Unnur gengum hægt. Ekki vegna þess að ég væri svo hægfara, frekar vegna þess að hún kvartaði og kveinaði í upphafi. Hreinlega nennti ekki þessu labbi. Hún læddi hönd sinni í lúkuna hjá afa sínum og lét hann toga sig áfram.

- Aaafi, viltu halda á mér? spurðu hún hvað eftir annað. Stundum svaraði ég en fannst best að nota öndunina til annars en að masa.

- Aaafi ... kallaði hún ísmeygilega.

IMG_9202- Eigum við að setjast á stein? spurði afi.

- Sjáðu, afi, sagði hún, og var enn ósest. Sjáðu hvað allir bílarnir eru orðnir litlir. Hún benti niður á bílastæðið þar sem við blöstu hundruð bíla í kvöldsólinn.

- Ég get tekið bíl í hendina á mér, sagði Unnur, og þóttist taka örsmáan bíl í lófann sinn.

- En hvað bílarnir eru orðnir litlir, sagði afi. Þú getur sett þá í vasann.

- Nei ... sagði sú litla, hálfhneyksluð. Það eru engir vasar á buxunum mínum.

Afi hló inni í sér en lét á engu bera. Við sátum á steini og horfðum á útsýnið. Svo héldum við áfram, fundum okkur stað í nær óslitinni röðinni og smám saman komumst við hærra.

- Hvenær komum við? spurði Unnur litla.

-Hlustaði, sagði afi. Heyrirðu ekki í tónlistinni. Við hljótum að vera næstum því komin.

Sú litla stoppaði og hlustaði. Já, sagði hún. En eru tónleikarnir byrjaðir?

IMG_9214 - Version 2- Já, mér heyrist það, sagði afi.

- Flýtum okkur þá, sagði Unnur, og hún greikkaði sporið, fór helst til hratt fyrir afa.

- Sjáðu, sagði Unnur, allt í einu. Þetta eru ekki tónleikarnir, þetta er hátalari.

Og viti menn þarna var hátalari á mel fyrir ofan göngustíginn, bein útsending frá sviðinu fyrir ofan.

- Og þarna er annar, sagði Unnur, stuttu síðar og benti á hátalarabox, skammt fyrir ofan litla lækinn sem rennur úr mýrinni og yfir göngustíginn. Glymjandi tónlist barst úr honum, eins og þeim fyrri. Ekki beinlínis sú tónlist sem ég kann best við en ég var ekki á leið upp á Esju til að hlusta á tónlist.

Við vorum nú komin upp fyrir mesta brattann og göngustígurinn sveigði austur fyrir mýrina og svo upp hlíðina að svokölluðum Steini og síðan áfram upp hamranna.

Unnur gerðist nú djarfari, sleppti hönd afa síns og skokkaði áfram. Svo stoppði hún og snéri sér við og horfið glettnislega á afa sinn sem puðaði á eftir henni. Hún vildi ekki týna honum í mannmergðinni. Afi blikkaði hana, hún brosti en það var ekki fyrr afi hafði náð henni að hún skokkaði hún af stað. Þetta endurtók sig nokkrum sinnum. Þannig bjó hún til sitt eigi öryggi.

Svo sáum við glitta í sviðið en göngustígurinn lá ekki beint að því heldur aðeins ofar. Unnur gekk að litla læknum í lægðinni við göngustíginn og velti því fyrir sér hvort hún ætti að stökkva yfir.

IMG_9233 - Version 2- Stökktu, kallaði afi, hvetjandi, en öryggið var henni mikilvægara, hún vildi ekki missa af afa. Hún greip í hönd hans og þau leiddust upp þar sem flestir héldu út af göngustígnum og yfir þúfurnar að melnum þar sem sviðið blasti við. Sko, þar stóð hann pabbi og systurnar hennar og veifuðu. Unnur þaut af stað eins og ör og í áttina að pabba sínum. Hann virtist kalla eitthvað en orðin týndust í hávaðanum frá tónlistarmönnunum.

- Ég sagði, passaðu þig á bleytunni, sagði pabbi brosandi, þegar hann hélt yngstu dóttur sinni í fanginu.

- Ég er ekkert blaut, bara sveitt, sagði sú stutta, losaði sig og stökk til systra sinna.

- Afi, afi, afi ..., kölluðu Íris og Rakel. Við erum votar, bara á einum fæti ekki hinum ... Svo kom sagan af því hvernig þetta vildi til og þær sögðu sömu söguna í kappi við hvora aðra. Nú kom það sér einstaklega vil að afi er með tvö eyru og gat einbeitt sér að því að hlusta á tvær sögur í einu. Auðvitað eru hæfileikar afans bundir við smásögur, eða öllu heldur örsögur. Sko, þær stigu í bleytu, vatn seitlaði í annan skó beggja og þær kipptu fætinum upp og pabbi reddaði öllu. Tók þær úr og vatt sokkanna. Þetta er í stuttu máli endursögn afa.

Fjöldi fólks var þarna uppi og tónlistin bergmálaði á milli Þverfellshorns og Gunnlaugsskarðs og kastaðist svo til baka frá hömrunum í Kistufelli og fór þaðan út í algleymið þar sem hún ferðast enn og er komin á tífaldan hraða ljóssins á leiðinni framhjá Satúrnusi.

Börnin, krakkarnir, unglingarnir, unga fólkið, kellingarnar og kallarnir voru þarna í banastuði, ölvuð af adrennalíninu eftir gönguna upp. Fólk talaði og hrópa, hló og kættist.

Jú, og sumir komu upp með þyrlum en þótt það sé gaman er það aldrei eins gaman og að ganga upp. Í því felst hinn sanna gleði sem endurspeglaðist í andlitum fólks sem var rjótt og kátt eftir gönguna. Alveg stórkostlegt að sjá.

Við hlustuðum á listamennina spila og syngja. Frábærir tónlistarmenn og stórkostlegt umhverfi.

- Afi, þú lofaðir að halda á mér niður, sagði Unnur, og horfði ómótstæðilegum augum sínum á afa sinn.

IMG_9283 - Version 2Afinn hikaði, reyndi að slíta augnsambandið, og velti því fyrir sér hvernig hann gæti komist hjá því að efna áður gefið loforð.

- Ég ætla að hlaupa, sagði Íris.

- Ég líka, hrópaði Rakel.

Skyndilega var Unnur tekin á sprett. Hún ætlaði sko ekki að bíða eftir að afi sinn ákveddi sig og þar að auki var miklu skemmtilegra með systrum sínum.

- Fariði varlega, hrópaði pabbinn, og tók stórstígur á rás á eftir dætrum sínum. Þær svöruðu engu, að minnsta kosti heyrðum við það ekki. Afinn rúllaði áfram á eftir syninum, en þeir höfðu ekkert í stelpurnar.

- Sjáðu þær, sagði pabbinn, og í augunum hans ljómaði föðurlegt stolt.

Afinn var hræddastur um að þær rynnu í brattanum á göngustígnum enda bara á strigaskóm. Þær kunnu þó fótum sínum forráð og ferðin niður gekk aldeilis klakklaust. Margir fullorðnir áttu þó í vandræðum því strigaskór eru fjarri því góður búnaður til gönguferða í Esju. Þó gangan upp hafi verið tiltölulega þægileg runnu margir á rassinn á niðurleiðinni, þó enginn skaðaðist mikið, eftir því sem best er vitað. 

Nokkru fyrir ofan næst neðsta lækinn beið Unnur. Hún brosti til pabba síns, leyfði honum að ganga framhjá en beið eftir þeim gamla. 

- Veistu hvað? afi, spurði hún. Afi vissi ekki.

- Sko, ég pissaði upp og nú þarf ég aftur að pissa. Finnst þér það ekki skrýtið?

- Nei, sagði afi. Þegar við þurfum að pissa, þá pissum við. Það er ekkert skrýtið við það.

- En hvar? spurði Unnur.

Afi fann stað innan við lúpínurnar, við stóru tréin, í hvarfi frá göngustígnum. Eftir þetta stutta stopp hlupum þau niður, það er sú stutta hljóp en afi stikaði stórum. Þarna var pabbi og Unnur stökk í fangið á honum..

- Heyrðu Unnur? Var afi ekki búinn að lofa að halda á þér niður? spurði afi.

- Jú, sagði hún, og brosti með tilhlökkun, fattaði ekki gabbið.

- Komdu, sagði afi, og setti hana á háhest. Unnur hrópaði af fögnuði og saman stikluðu þau yfir brúna og grjótið. 

IMG_9295 - Version 2- Og nú erum við komin niður, sagði afi, prakkari, einni mínútu síðar.

- Þetta var stutt, sagði Unnur, hin djúpúðga, og pældi ekkert meira í gabbinu heldur hljóp til systra sinna og þær fóru í kapphlaup að bílnum.

Afi þykist fyrir löngu hafa fært sönnur á að tregða barna að ganga upp brattar brekkur eða á fjöll stafar ekki af leti eða getuleysi. Þeim finnst bara svo leiðinlegt að ganga bratt, finnst það jafnvel tilgangslaust. Aðferð hans, sem er hvort tveggja pabbi og afi, er að gera gönguna skemmtilega. Hér áður fyrr greip hann til þess ráðs að segja sonum sínum sögur af álfum, tröllum og hamförum sem hann spann upp á leiðinni. Það reyndist ágætlega en krafðist ansi mikils súrefnis svo að pabbinn var nærri því blár er upp var komið.

- Teldu upp á eitthundrað, sagði afi við Unni. Hún taldi, hægt og rólega, gleymdi að stoppa og gekk upp. 

- Hvað kemur næst, sagði hún, og hafði komist í tuttugu og níu. Afi hjálpaði til eftir því sem þörf var á.

- Fimmtíu, sagði Unnur. Við eru komin að brúnni og ég ekki einu sinni komin upp í hundrað.

Systurnar sofnuðu vært þetta kvöld. Daginn eftir var lífið harla gott eins og æskuárin eiga að vera því litlar stelpur fá ekki harðsperrur eftir fjallgöngu. Afinn var aftur á móti doldið stirður þegar hann vaknaði. Það lagaðist samt enda er lífið honum harla gott.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband