María Mey, Theresa May og heimsstyrjöld í maí

Dagsetningin er engin tilviljun því þennan dag verða 100 ár liðin síðan að María Mey opinberaðist þremur litlum börnum í Fatima í Portúgal. Samkvæmt kaþólskri trú hafa sex opinberanir átt sér stað í Fatima, sú síðasta 13. október 1917 en þá urðu 30.000 til 40.000 manns vitni að því sem fólkið segir vera óvenjulega hegðun sólarinnar en börnin þrjú, sem María Mey opinberaðist fyrir í maí, höfðu sagt fyrir um þennan atburð.

Þetta er úr vefritinu pressan.is sem þekkt er fyrir áreiðanlegan fréttaflutning og afar vel skrifaðar fréttir. Ofangreint er úr „frétt“ um næstu heimsstyrjöld sem hefjast mun á næstu vikum. Hún er höfð eftir manni sem „vissi“ að Trump yrði kostinn forseti Bandaríkjanna. Aðrir voru ekki eins getspakir. Sumir héldu að annað hvort Trump eða Clinton yrðu fyrir valinu.

Blaðamaðurinn gleymir þó að geta þess að Theresa May, sem ábyggilega er náskyld Maríu Mey frá Portúgal, ætlar að halda kosningar í Bretlandi, það er um hálfum mánuði eftir upphaf heimsstyrjaldarinnar. Vonandi að hið fyrrnefnda truflist ekki af hinu síðarnefnda.

Í alvöru ... Hvers vegna í ósköpun er verið að halda úti Pressunni og raunar Eyjunni? Hvorugt ritið skiptir máli í fréttaflutningi hér á landi. Uppistaðan eru illa skrifaðar þýðingar úr erlendum fréttamiðlum. Tilgangurinn er að safna texta á milli auglýsinga, þær virðast vera meginmarkmiðið. Aldrei hafa fréttir í Pressunni verið annað en endurbirting af öðrum sem þegar hafa birst annars staðar, nema auðvitað þegar skrifarar þar reyna að þýða úr erlendum ritum.

Nú virðast fjárfestar komnir inn í útgáfufélagið og vonandi fylgir þá einhver stefnumörkun um fréttaskrif og lágmarkskröfur um kunnáttu í skrifum, íslenskuþekkingu og .. ekki síst skilning á blaðamennsku og fréttamiðlun. Ef ekki er illa farið með aurinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Fyndið hjá þér, Sigurður, að nefna að Theresa May sé ábyggilega náskyld Maríu Mey frá Portúgal ! En eins ertu að gera fyrst að gamni þínu með Pressuna, sem þó er ekki alslæm, þótt þar sé kannski lítið um frumlega blaðamennsku, en þeim mun meira er þá um birtingu forvitnilegs efnis annars staðar frá, m.a. hafa þeir oft sagt frá leiðurum eftir Davíð okkar Oddsson (ég segi okkar, því að ég held upp á bæði manninn og skriffinninn) og jafnvel birt mjög gagnlega hluti úr þeim.

Ekki sá ég í fljótu bragði neina grein þar núna, kennda við mann sem boðar, að heimsstyrjöld verði á næstu vikum! Ég ætla bara rétt að vona, að svo verði ekki, svo hjálpi okkur Guð ... og María mey með bænum sínum.

Jón Valur Jensson, 21.4.2017 kl. 05:41

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Gleymdi að setja link á fréttina í pistilinn. Hef nú bætt úr því. Þessi litla tilvitnun í pistlinum sem margt um slök efnistök þessa rits. Og skrifa viðurnefni Maríu með upphafsstaf ... 

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 21.4.2017 kl. 07:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband