Þegar þjóðin er sátt við ´óréttlætið´?

Og fyrst bréfritari er byrjaður að vitna í sannfæringu sína sem heimild meitlaða í stein er hann viss um að kosningar færu ekkert verr en þær gera sumar nú orðið, þótt látnir nýttu kosningarétt sinn. Ef sú sanngjarna regla hefði t.d. gilt þegar bréfritari tók síðast þátt í kosningabrölti, að þeir sem hefðu látist síðustu þrjátíu árin eða svo héldu áfram sínum kosningarétti, er aldrei að vita nema hann hefði marið það.

En hefði það verið til góðs?

Það er önnur saga.

Vel skrifaður texti með þokkalegu innihaldi er eftirsóknarverður. Þannig er Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins oft og er hér að ofan er vitnað í niðurlag hans í helgarblaðinu. Stíllinn er léttur og þægilegur og hnyttnin fer ekki framhjá lesandanum. Höfundurinn ræðir um Donald Trump og bandarísk stjórnmál frá öðrum sjónarhóli en tíðkast í flestum fréttum og fréttaskýringum íslenskra fjölmiðla.

Höfundurinn segir vel frá, tekur stundum afstöðu en viðurkennir um leið að hann sé ekki óskeikull:

Hitt er annað mál að þótt það kunni að vera staðreynd að Donald Trump eigi auðvelt með að sannfæra sjálfan sig um eitthvað óljóst og raunar sannfæri fleiri en sig kann hann iðulega að hafa rétt fyrir sér. Síðastliðin tvö ár hefur hann háð kosningabaráttu með öðrum hætti en nokkur annar.

Ótal sinnum hafa þeir sem þykjast vita sitthvað um kosningabaráttu verið vissir um að Trump hafi skotið sig illilega í fótinn. En annaðhvort hafa þessir spekingar (bréfritari með talinn) vitað minna en þeir héldu, Donald Trump verið margfætla eða hann hafi haft ríkulegra innsæi en hið vitiborna fjölmenni.

Bréfritari ræðir nokkuð um kosningakerfið í Bandaríkjunum sem margir hafa fordæmt en nefnir meint kosningasvindl í Illinois og kröfu Repúblikana um að þær yrðu rannsakaðar:

Nixon hafnaði því. Þegar furðu lostnir stuðningsmenn hans spurðu hvort hann áttaði sig ekki á því að niðurstaðan í ríkinu fékkst með svindli sagðist Nixon ekki hafa minnstu efasemdir um það. Og sú væri ástæðan fyrir afstöðu sinni. Það yrði óbærilegur álitshnekkir fyrir fremsta lýðræðisríki heims ef þetta yrði sannað.

Kosningakerfið í Bandaríkjunum er getur líklega ekki gefið rétta mynd af vilja kjósenda sé lítill munur á milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hljóta eins og gerðist í síðustu kosningum. Hins vegar þýðir ekkert að tala um það, þetta er það kerfi sem notað er og stjórnmálaflokkarnir eru sáttir við.

Þannig er kosningakerfið í Bretlandi. Eftir síðustu þingkosningar fengu Íhaldsmenn mikinn meirihluta á þinginu þrátt fyrir að hafa aðeins 37% atkvæða. Bréfritari segir:

Af hverju er þetta minna óréttlæti en lítilræði sem munar á Hillary og Trump og mest er tuðað um? Kannski vegna þess að bresku þjóðinni þykir þetta ekki óréttlæti. Hún vill hafa þetta svona. Hvernig er hægt að fullyrða það? Jú, hún var nýlega spurð.

Í kosningunum á undan þeim sem færðu Cameron hreinan meirihluta neyddist hann til að mynda samsteypustjórn með Clegg, leiðtoga Frjálslyndra. Sá flokkur hefur farið illa út úr kosningakerfinu. Hann notfærði sér því samningsstöðuna og sagðist ekki myndu skjóta stoðum undir stjórn Camerons nema fram færi bindandi þjóðaratkvæði um það hvort ekki ætti að breyta stjórnskipuninni þannig að fjöldi þingmanna yrði í réttu hlutfalli við atkvæði. Og auðvitað myndi hvert atkvæði vega jafnt í því þjóðaratkvæði.

Þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram og Clegg lá kylliflatur. Breskur almenningur vildi miklu fremur hafa hreinar línur í pólitík en að upp rynni tími samsteypustjórna og smáflokkafargans þar sem nördar hefðu úrslitaáhrif á stjórn landsins.

Hér á Íslandi halda sumir upp þeirri gagnrýni að landið sé ekki allt eitt kjördæmi. Vel má vera að skotheld rök séu fyrir því. Hins vegar var meirihluti fyrir núgildandi kjördæmakerfi og eiginlega ekkert annað við því að gera en að hvetja til þess að vægi atkvæða verði sem réttlátast.

í Reykjavíkurbréfinu er rætt um kosningasvindl, kosið sé í nafni látins fólk og fjallað um þá staðreynd að skortur á stjórnarskrá háir ekki Bretum. Allt forvitnileg umfjöllunarefni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband