Presturinn lamdi Hallgrím með sleggju

Ein skemmtilegasta fyrirsögn sem ég hef lengi rekist á er í Fréttablaði dagsins. Þar stendur skýrum stöfum:

Prestur barði Hallgrím.

Í inngangi fréttarinnar segir þetta:

Sigurður Árni Þórðarson, sóknarprestur í Hallgrímskirkju, og sonur hans Þórður hringdu inn nýtt ár með handafli. Þeir notuðu sleggju á stærstu kirkjuklukkuna í turni Hallgrímskirkju. Skoteldar gerðu veruna í turninum afar sérstaka.

Auðvitað krossbrá mér. Í nokkur sekúndubrot las ég að gamall vinur minn og nafni hefði barið einhvern Hallgrím. Svo létti mér. Þarna var blaðamaðurinn að leika sér með orð. 

Sigurður Árni sló ásamt syni sínum á klukku í Hallgrímskirkju sem kölluð er Hallgrímur eftir skáldinu góða.

Raunar má fyrirgefa svona fyrirsögn, hún er fyndin. Yfirleitt hringja menn kirkjuklukkum en hver er að pæla í slíku. 

Rithöfundurinn stórmerki Ernst Hemingway ritaði fræga og góða bók sem kom út árið 1940 og  nefnist „Whom The Bells Toll“. Í frábærri þýðingu Halldórs Laxness fékk sagan nafnið „Hverjum klukkan glymur“ og verður að segja að betur er vart hægt að þýða heiti skáldsögunnar.

Kirkjuklukkan Hallgrímur glumdi vegna áramótanna og var það vel til fundið að berja á henni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband