ESB, rakettur og múlasnar ...

BrennaSkömmu fyrir áramót tilkynntu fréttamenn að ESB hefði ákveðið að Íslendingum skyldi hér eftir vera óheimilt að skjóta á loft tilteknum gerðum flugelda á gamlaárskvöldi.

Svo segir í leiðara Morgunblaðs dagsins. Í honum er fjallað um skrifræði Evrópusambandsins, já þess hins sama og Samfylkingin Vinstri grænir og fleiri flokkar vildu að Ísland sameinaðist.

Í ESB ráða kommissarar sem bera enga lýðræðislega ábyrgð. Þeir stjórna og gefa út lög og reglur sem ríkjum sambandsins ber að samþykkja og skrifa undir. Ekkert ríki hefur rétt til að breyta þeim eða laga þau að aðstæðum í landi sínu. Þess vegna gilda hér lög um múlasna.

Hversu asnalegt sem það nú er mega Íslendingar ekki skjóta upp tilteknum tegundum flugelda á gamlaárskvöldi, eins og segir í leiðara Morgunblaðsins. Þar segir ennfremur:

Engin flugbjörgunarsveit hefur selt flugelda sem ná til meginlands Evrópu. Þetta mál kemur búrókörlum í Brussel og kerlingum þeirra ekkert við. Hvers vegna í ósköpunum kysstu menn auðmjúkir þennan ómerkilega vönd eins og hina. Vissulega hafa verri mál verið kjössuð.

En eru flugeldar á íslensku gamlaárskvöldi þúsund kílómetra „frá Evrópu“ svo notaður sé frasi búrókrata, ekki úr seilingarfjarlægð þeirra? Íslendingum er heimilt að gera ekkert með þvælu af þessu tagi. ESB má þá grípa til „gagnráðstafana.“

Endilega að láta sambandið gera það, svo að skrípaleikurinn blasi við öllum.

Þetta litla mál er táknrænt. Það sýnir að embættiskerfið er stjórnlaust og að ístöðulausir stjórnmálamenn eru gagnslausir á vaktinni.

Engum dettur í hug að mótmæla heimskulegum skipunum frá ESB, hvað þá að hafa þær að vettugi.

Er nú ástandið á Íslandi orðið slíkt að við tökum möglunarlaust við skipunum að frá meginlandi Evrópu, breytum siðum og venjum til að þóknast þeim sem eru svo langt frá okkur og hafa um margt þarfara að hugsa en flugeldaskot okkar á gamlaárskvöld?

Næst má búast við því að bannað verði að borða kæsta skötu, svokallaður þorramatur verði aflagður, bannað verði að ganga á fjöll eftir sólsetur í Brussel, brennur verði bannaðar, rekstur björgunarsveita verði bannaðar nema í þeim séu starfsmenn á fullum launum og svo má lengi telja upp það sem við höfum á annan hátt en þeir í Evrópu.

Má vera að við höfum ekki þrek til að berjast á móti tilskipunum frá Brussel vegna þess að EES samningurinn með kostum og göllum geri okkur værukær og við höfum gleymt að Ísland er sjálfstætt ríki og við séum ein þjóð. Þá erum við líka bölvaðir múlasnar og eigum ekkert betra skilið heldur en ístöðulausa stjórnmálamenn sem þykjast standa vaktina.

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband