Elliðaárdalur árið 1935 og í dag, skógrækt sem breytir veðurfari

Elliðaárhólmi 2Gömul mynd úr fórum móður minnar heitinnar vakti athygli mína um daginn. Myndin er tekin um 1935 í Elliðaárdal, raunar hólmanum sem er á milli tveggja kvísla árinnar.

Á myndinni er móðir mín, þá 18 ára, ásamt verðandi mágkonu sinni og manni hennar. Líklega hefur veðrið verið eintaklega gott þennan dag, sól og lygnt. Frænka mín hellir kaffi í bolla og fólkið nýtur stundarinnar.

Hversu mikið hefur ekki Elliðaárdalur breyst síðan þessi mynd var tekin?  

Lautin sem fólkið valdi sér er löngu horfin í gróður sem þekur nú allan dalinn öllum til yndisauka.

Elliðaárdalur 3Um daginn tók ég aðra mynd, ekkert langt frá lautinni. Komst nægilega hátt upp til að sjá til virkjunarinnar sem er fyrir neðan húsin á gömlu myndinni. Þau sjást hins vegar ekki lengur fyrir trjágróðri. 

Á gömlu myndinni sést hús efst á hæðunum hægra megin. Hugsanlega er það Árbær en hæðirnar þekkjast í dag sem Ártúnsholt. Raunar er það svo að hverfið þarna er hulið trjágróðri.

Hér áður fyrr töldu margir að útilokað væri að rækta skóg á Íslandi. Þjóðin var orðin svo vön trjáleysinu eftir aldalanga gróðureyðingu og uppblástur, og talið var að skógur gæti ekki þrifist á Íslandi nema í undantekningatilvikum. Því er nú öðru nær. Fræðimenn fullyrða að stór hluti landsins hafi verið skógi vaxinn við landnám og landið að mestu gróðursælt og fagurt.

ElliðaárdalurTrausti Jónsson, veðurfræðingur, segir á bloggi sínu Hungurdiskar þann 25. september 2016:

Allmargir staðir á landinu eru ef til vill veðursælli en Reykjavík, en þegar á allt er litið er höfuðborgin til þess að gera veðursælt pláss. Með aukinni byggð og stórvaxnari gróðri hefur meira að segja heldur dregið úr vindi víða um bæinn - þar á meðal á Veðurstofutúni þar sem varla hreyfir nú vind miðað við það sem áður gerðist.

Þetta segir hann i tilefni þess að nú eru 25 ár síðan fárviðri mældist síðast í Reykjavík. Staðreyndin er einfaldlega sú að trjágróður hefur breytt veðurfari í Reykjavík, vindstyrkur hefur minnkað að mun.

DSC_0006Hugsið ykkur ef til dæmis Mosfellsheiði væri skógi vaxin. Hversu gríðarleg veðurfarsleg breyting yrði ekki á höfuðborgarsvæðinu? Skógrækt á Kjalarnesi undir Esju yrði til þess að austanáttin myndi aldrei ná sama styrk og oft gerist nú á dögum.

Hvað þarf til að leggja í tiltölulega lítinn kostnað til að breyta lífsgæðum fyrir Íslendinga? Vantar fólk, eldmóð, hugsjónir, framtíðarsýn?

Um Elliðaárdal, Heiðmörk og víðar eru nú fólk á göngu, hlaupum og hjólum, ekki aðeins á heitasta degi sumarsins, eins og hér áður fyrr, heldur allan ársins hring.

Næstneðstu myndina tók ég 1. júlí 1985 af hitaveitustokkunum yfir Elliðaárnar. Dálítið dapurt umhverfi allt upp í Bústaðahverfi. Þetta útsýni er ekki til í dag. Neðri myndin var tekin  í september 2012 og sýnir að húsin í borginni eru að hverfa í trjágróður og enn hefur bæst við. Stórkostlegar breytingar. Báðar myndirnar, og fleiri, birti ég á þessum vettvangi 2012 og má finna hér.

Við þurfum hins vegar að gera betur, leggjast í skógrækt á Mosfellsheiði og bæta þannig lífsskilyrði á höfuðborgarsvæðinu.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband