Palldómar um ræðumenn á eldhúsdegi

Ég hlustaði á eldhúsdagsumræður á Alþingi sem útvarpað og sjónvarpað var í kvöld, 26. september. Hér eru nokkrir þankar um ræðumenn:

Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar: Einhver hefur talið henni trú um að hún gæti breytt um stíl og framsögn á einu kvöldi. Því miður er það ekki hægt. Hún kunni ekki ræðuna sína, rak í vörðurnar, málvillur voru áberandi og í lokin klykkti hún út með því að segja að heilbrigðismálin ættu að vera gjaldþroska. Gat ekki heyrt betur. Félagar hennar hljóta nú að sakna Árna Páls Árnasonar.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins: Trúverðugur að vanda en hefði mátt hafa lesið ræðuna yfir og lagfært nokkur atriði sem virkuðu ekki sannfærandi. Hafi einhver annar samið ræðuna þarf að finna nýjan ræðuritara.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs: Virtist vera út á þekju, talaði alltof lengi um loftslagsmál sem vissulega kann að vera lofsvert. Greinilegt að ræðumenn VG hafa haft mikil samráð á milli sín um meintar lygar og svik ríkisstjórnarinnar. Lygilegar ásakanir virka ekki sannfærandi, sérstaklega ekki þegar horft er til ávirðinga á síðustu ríkisstjórn sem voru hræðilegar. Katrín hefur fallegt bros en skelfing er maður hræddur um að ekki sé allt sem sýnist.

Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra: Einhvern veginn finnst mér að meira spunnið í hana en birtist í viðtölum og ræðum hennar. Hún er hins vegar góður og sannfærandi ræðumaður, talar yfirleitt skýrt og sannfærandi en í kvöld var ekkert nýtt eða áhugavert við ræðuna.

Óttar Proppé, formaður Bjartrar framtíðar: Óttar afar slakur leikari. Leikþátturinn í ræðunni var lélegur og illa leikinn. Einhver annar hefði hugsanlega getað gert þessari ræðu betri skil. Líklega hefur Óttar ekki lært neitt annað á þeim þremur árum sem hann hefur setið á þingi en að líkja eftir talsmáta vinstri manna í stjórnarandstöðunni. Hann er samt ekkert sannfærandi þegar hann reynir að tvinna saman formælingar um ríkisstjórnina.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður stjórnmálaflokksins Píratar: Hún hafði margt fram að færa en vegna þess að hún er svo skrýtinn ræðumaður komst fátt af efni ræðunnar til skila. Hún gagnrýnir skotgrafir stjórnmála en finnst ekkert að því að brúka sína eigin skotgröf og hún er djúp. Eins og Óttar Proppé hefur Birgitta ekkert lært af veru sinni á Alþingi nema það sem vinstri sinnar á þinginu hafa kennt henni, tala illa um andstæðinganna. Líklega er það rétt sem Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins segir, að stefna hennar og Pírata er afar óljós og býður aðeins uppp á óvissuferð á næsta kjörtímabili. 

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar: Hún hefur ábyggilega farið til sama almannatengslaráðgjafa og formaður flokksins en ekkert lært. Hún er slakur ræðumaður, skræk röddin er þreytandi og fyrir vikið týnist efni ræðunnar. Sigríður birtist eins og auglýsing sem troðið er inn í nokkuð athyglisverðan sjónvarpsþátt og þegar það gerist stendur maður ósjálfrátt upp og fer inn á salerni og pissar.

Ólöf Nordal, innanríkisráðherra: Ólöf er ekki eins klár og hún heldur. Ræðan var nokkuð góð, hefði getað verið betur skrifuð, en framsögnin var einhæf og frekar leiðinleg, rétt eins og hún trúir ekki því sem hún segir. Hún þarf að leita sér leiðsagnar í framsögn rétt eins og svo margir aðrir þingmenn. Hugsanlega gæti Guðlaugur Þ. Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hjálpað eitthvað til. Hann er með betri ræðumönnum á þingi.

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna: Ég hlakka alltaf til að heyra í Svandísi, ekki vegna þess að ég sé sammála henni heldur miklu frekar dáist ég að því því hversu óforskömmuð hún er og virðingarleysi hennar fyrir sannleikanum er áberandi. Enginn annar þingmaður kemst með hælanna þar sem hún hefur ... kjaftinn (afsakið orðbragðið). Ávirðingar hennar á núverandi ríkisstjórn eru hrikalegar, svo miklar að maður gleymir eiginlega öllu því sem þjóðin þurfti að þola af hennar völdum og VG á síðasta kjörtímabili. Hún og félagar hennar voru flengdir í síðustu kosningum en samt lætur hún eins og ekkert hafi í skorist, sýnir enga iðrun eða eftirsjá. Stórbrotinn ræðumaður eins og faðir hennar.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra: Hún er frekar óskemmtilegur ræðumaður, frekar einhæf og svo er eitthvað við hana sem er ekki trúverðugt. Hins vegar var ræða hennar að mörgu leyti góð og athyglisverð. 

Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar: Glæsileg kona og virkar röggsöm en frekar lélegur ræðumaður. Allt er svo ómögulegt hjá ríkisstjórninni, sama tuggan og hjá mörgum þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Sumt í ræðu hennar var ágætt eins og kaflinn um mannúð og aðstoð við flóttamenn. Að öðru leyti var eins og ég væri að hlusta á Svandísi.

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður stjórnmálaflokksins Píratar: Vel skóluð í stjórnarandstöðunni, góð í formælingum og sterk í óvissuferðalýsingum stjórnmálaflokks Pírata á næsta kjörtímabili. Annað hvort er hún slakur ræðumaður eða hún var svo óskaplega taugaóstyrk að oft greindi maður ekki orðaskil. 

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar: Stundum finnst manni margt í Árna Pál spunnið og af og til mælir hann af skynsemi. Svo byrjar masið og hringferðin í kringum heita grautinn. Hins vegar er hann góður ræðumaður, margfalt betri en Oddný. Röddin er skýr en svo hofir maður á munnsvipinn og þá er eins og tungan í manninum sveiflist í hring og við þá sjón gleymist ræðan.

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins: Ég hreinlega gleymdi mér þegar Haraldur talaði. Varð nefnilega hugsað til gróðureyðingar á hálendinu. Svo lagði ég við hlustir og þá var ræðan bara búin. „Sorrí“.

Bjarkey Ólsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG: Velti því fyrir mér hvernig VG framleiðir þingmenn sína. Sé fyrir mér að þeir þurfi að læra útúrsnúninga, formælingar og hálfsannleika. Síðan eru þeir hnoðaðir og bakaðir við háan hita og eftir smá tíma verða til sósíalistar eins og Bjarkey sem kalla sig vinstri menn, græna eða eitthvað sem skyggir á raunverulegar skoðanir. Veit ekki hvort hún og Svandís séu á svipuðum aldri en þær gætu allt eins verið tvíburar, að minnsta kosti hvað varðar talsmátann.

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins: Mér hefur alltaf þótt Karl vera málefnalegur. Hann flutti góða ræðu en talar eins og hann sé að lesa fréttir. Hann þarf að bæta framsögnina.

Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar: Held að Páll sé einlægur og góður maður  (rétt eins og aðrir þingmenn), það skín af honum. Legg trúnað á það sem hann segir og væri ég þingmaður myndi ég hafa bundist bandalagi við hann þegar kemur að ákveðnum málum. Hann er ekki afburða ræðumaður, kallar og hrópar, en málefnin eru yfirleitt góð.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður stjórnmálaflokksins Píratar: Skrýtinn og óhefðbundinn þingmaður. Segir margt gott en er ekki hrópandi slakur ræðumaður. Talar samt slitrótt og er um of hraðmælgur. Fyrir hann væri þjóðráð að liggja dálítið meira yfir ræðunum, endurskrifa oft. Gæti skrifað upp á sumt sem hann hefur sagt. Vandinn er sá að hann setið of lengi á stjórnmálanámskeiði stjórnarandstöðunnar og er því orðinn vinstri maður eins og þingmenn Vinstri grænna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Aðdáunarvert að nenna ekki bara að hanga yfir þessu, heldur fylgjast nógu vel með til að geta gefið ræðumönnum (flestum) dóma!

ls (IP-tala skráð) 27.9.2016 kl. 09:29

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Gleymist einhver? Má vera. Nokkuð snúið að reyna að mynda sér skoðun og skrifa hana niður að lokinni hverri ræðu og þá er sú næsta í loftinu. 

Þegar ég les þetta núna, morguninn eftir, læðist að mér sá grunur að ég hafi verið heldur dómharður um suma. Og ef til vill hefði ég átt að nefna eitthvað sem þingmennirnir sögðu. En ... þetta er nógu langur pistill og líklega ekki mjög málefnalegur í þeim dúr sem ég hef reynt að prédika hér.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 27.9.2016 kl. 09:48

3 identicon

Ég myndi ekki vita það þó þú gleymdir einhverjum, náttúrlega bara góður að missa bara einbeitinguna yfir einum ræðumanni. En þar sem hann er samflokksmaður þinn (held ég) hefur hann ekki verið að segja þér neinar fréttir svo það er afsakanlegt að hugurinn fari á flakk.

Thorsteinn Thorsteinsson (IP-tala skráð) 27.9.2016 kl. 11:20

4 identicon

 Æji, ertu til í að henda þessari á undan :-)

ls (IP-tala skráð) 27.9.2016 kl. 11:24

5 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Get ekki hent út athugasemdum þó ég stundum feginn vildi, mínum eða öðrum.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 27.9.2016 kl. 11:57

6 identicon

Mér fannst Oddný best...málefnaleg og skýr.

Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 27.9.2016 kl. 12:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband