Fikt í niðurstöðum lýðræðislegrar kosningar ógildir lýðræðið

Háværar raddir innan Sjálfstæðisflokksins vilja að lýðræðislegt prófkjör skuli ekki gilda heldur skuli niðurstöðunni breytt til að þóknast ímynduðum forsendum sem margir gera til kjósenda.

Sagt er til dæmis að sé skortur á gáfum sé vandamál hjá þeim sem hrepptu efstu sæti lista í suðvesturkjördæmi og suðurkjördæmi ... Nei, auðvitað er þetta er ekki ástæðan, ekki heldur að efstu menn séu með of lítið hár eða of mikið hár, ekki heldur að sigurvegararnir séu ófríðir eða of fríðir eða hafi verið of stutt í Sjálfstæðisflokknum.

Hægt er að bera fyrir sig ótal ástæður fyrir því að fólki huggnist ekki niðurstöður prófkjara enda er lýðræðið svo ósköp ófullkomið. Skárra fyrirkomulag er þó ekki í boði, nema auðvitað að ég fái einn að ráða.

Engu að síður er iðulega reynt að „lagfæra“ lýðræðið svo það passi betur við einhverja ímyndaða tilveru. Það gleymist oftast um leið að um leið og samanlagðum vilja kjósenda er breytt hverfur lýðræðið og verður eitthvað allt annað. Þetta gildir þó yfirgnæfandi meirihluti sé fyrir breytingunum, þær settar með lögum, reglum og alþingi götunnar sé sammála sem og „virkir í athugasemdum“ fjölmiðla. Niðuðurstöðum kosninga má einfaldlega ekki breyta, þá er vegið að lýðræðinu.

Einn stjórnmálaflokkur hefur í lögum sínum að prófkjör skuli ekki gilda nema kynjahlutföll séu „rétt“, þá megi fikta í niðurstöðunum. Annar flokkur hefur það í lögum að niðurstöður prófkjörs í einu kjördæmi skuli ekki gilda nema fólk í öðrum kjördæmum sé sátt. Sami flokkur bannar frambjóðendum að kynna sig, kallar það áróður.

Þannig er nú lýðræðisástin víða þrátt fyrir háleit orð á tyllidögum. Ég er svona líka. Í suðurkjördæmi voru Eyjamenn til tómra vandræða í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Eyjamenn standa allir saman og þess vegna vil ég banna annað hvert atkvæði þeirra. Þannig verður útkoman í prófkjöri mér og öðrum meira að skapi ...       

Í alvöru talað. Hversu mikið er hægt að rugla í niðurstöðum lýðræðislegra kosninga og halda því samt sem áður fram að útkoman sé lýðræðisleg? Staðreyndirnar eru einfaldar hvað lýðræðið varðar:

  • Lýðræðið gildir þó kjósendur velji aðeins fólk af sama kyni í efstu sætin
  • Fikt í niðurstöðum kosninga ógildir lýðræðið
  • Rétt framkvæmdar kosningar eru endanlegar 

Auðvitað skil ég rökin fyrir þeirri kröfu margra innan Sjálfstæðisflokksins að niðurstaða prófkjara í suðurkjördæmi og suðvesturkjördæmi séu ekki góð vegna þess að of fáar konur séu í efstu sætunum. Þetta eru samt ekki rök sem réttlæta breytingar á niðurstöðum rétt framkvæmdra kosninga.

Kosningar geta aldrei verið að hluta til lýðræðislegar. Þær ógildast sé fiktað í niðurstöðunum, hversu lítið sem það er. Svo einfalt og skýrt er lýðræðið. 

Séu gallar í framkvæmd prófkjörs þá á að ógilda það.

Hitt er svo annað mál að lýðræðislegar kosningar ógildast ekki við að stjórnmálaflokkur hafi í lögum sínum að kjósendur í prófkjörum kjósi að jöfnu karla og konur. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Það mætti halda að það ætti að kjósa konur bara af því að þær eru konur....  Ef við tökum úrslitin í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, held ég að konur ættu kannski að lýta í eigin barm.  Ragnhildur Elín hefur setið undir ámæli fyrir að hafa verið hálf verklaus þetta kjörtímabil og málflutningur Unnar Bráar er ekki alveg það sem hinum almenna Sjálfstæðismanni hugnast og ekki er hægt að segja að hún hafi verið nein hamhleypa til verka.  Í Suðvesturkjördæmi hefur Elín Hirst verið mjög svipuð og Unnur Brá og ekki er hægt að segja að mikið hafi kveðið að henni eða hennar málflutningi.  Eru kjósendur ekki að senda skilaboð með þessum úrslitum?  Nú kalla konur eftir aðgerðum vegna þessa.  Þetta er lýðræðisleg niðurstaða og lýðræðið hefur talað, það væri aðför að lýðræðinu að ætla sér að fara að "krukka" eitthvað í úrslitin eftir á.............

Jóhann Elíasson, 11.9.2016 kl. 18:13

2 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Það er nú ekki skrítið þó að fólk hugsi sig aðeins um áður en það gefur konu atkvæði þegar tekið et tillit til þess, hvernig konur hafa staðið sig á þyngi síðustu tvö kjörtíma bil.  Þar hefur að stórum hluta verið gaspur á gaspur ofan. 

Hrólfur Þ Hraundal, 11.9.2016 kl. 18:38

3 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Einhverjar konur, ef ekki fjölmargar, hljóta ad hafa kosid karla í thessum prófkjörum. Ad aetla ad snúa vid úrslitum í nafni einhvers kynjakvótarugls er algerlega galid. Nidurstadan er skýr. Kjósendur hafa valid og úrslitin eiga ad standa óhöggud. Annad er kúgun og sennilega einhverskonar "ismi" ef svo má ad ordi komast.

Gódar stundir, med kvedju ad sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 12.9.2016 kl. 06:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband