Líkasteinar íslenskunnar

FlösinVið lestur Morgunblaðs dagsins vakti athygli mína grein um tvo menn sem hafa leigt Garðskagavita og komið þar upp kaffihúsi og sýningaraðstöðu. Það nefnist Flösin, fallegt nafn.

Veitingamenn í Reykjavík hefðu kallað kaffishúsið ensku nafni svo útlendingar misskildu nú ekki neitt um íslenska menningu. Raunar er það svo að minnimáttarkennd íslenskra ferðaþjónustuaðila er orðin svo mikil að íslenska er ekki lengur gjaldgeng. Helst verður að enskugera íslenska menningu sem raunar er alvarlegur misskilningur sem er þegar farinn að hafa áhrif.

Misskilningurinn er í því fólginn að menning skiljist ekki nema hún heiti ensku nafni. Grikkir, Ítalir, Spánverjar þurfa ekki enskuna. Stoltir hafa þeir nöfn veitingahúsa, hótela og ferðaskrifstofa á þjóðtungum sínum eða mállýskum. Skiptir ferðaþjónustan afar miklu í þar eins og hér. Þjóðverjar, Frakkar og Norðurlandaþjóðirnar gera slíkt hið sama.

Eina undantekning í Evrópu er Stóra-Bretland enda er þar töluð enska. Hins vegar gerir enginn ferðamaður sem hingað kemur ráð fyrir öðru en hann fái að kynnast íslenskri menningu og hefðum en ekki enskri.

Með þetta í huga þykir manni vænt um að stofnað hefur verið veitingahús sem nefnist Flösin. Það stingur hins vegar þægilega í stúf við ensku heitin í ferðaþjónustunni. Gangið niður hinn reykvíska Laugaveg, lítið á merkingar ferðaþjónustubíla Mountain Taxi, Super Jeep, Reykjavik Excursion ...

Eitt fáránlegasta enskt nafnið sem ég hef rekist á er Glacier Goddies, veitingavagn í Skaftafelli. Á Laugarvatni er baðhús sem nefnist Fonatana. Þar skammt frá er Vígðalaug og þar við Líkasteinar. Þar voru lík Jóns Arasonar og sona hans þvegin eftir að þeir voru hálshöggnir árið 1550. Eflaust er búið að breyta nöfnunum upp á ensku svo þau skiljist. 

Með því að nafngift á ensku er orðin viðurkennd og látin óátalin stefnir í að íslenskan verði sett á Líkasteina og búin þar til greftrunar.

Meðfylgjandi mynd er tekin traustataki, hana á Morgunblaðið/Svanhildur Eiríksdóttir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband