Er Páll Magnússon sammála Sjálfstæðisflokknum að leggja niður RÚV?

Páll Magnússon, fjölmiðlamaður, var ekki í framboðsbuxunum þegar hann í lok árs 2012 hafði þessi orð um fyrrum formann Sjálfstæðisflokksins og ritstjóra Morgunblaðsins sem tjáði skoðun sína á Ríkisútvarpinu:

Það er ekki lengur hægt að svara því sem frussast út um samanbitna kjálkana á Davíð þegar hann fjallar um RÚV. Þetta er eins og það skrýtnasta í kveðskap Æra-Tobba – eitthvað illskiljanlegt og samhengislítið garg út í loftið. En Tobbi verður að njóta sannmælis. Flest það sem hann samdi er auðvitað miklu gáfulegra en heiftarþruglið í Reykjavíkurbréfum Davíðs.

Fyrrum útvarpsstjóri kann lítið að stilla sig þegar rætt er um Ríkisútvarpið sem hann stjórnaði í mörg ár. Hann kann sér ekki hóf í umræðunni, kann lítt málefnalega röksemdafærslu, heldur nær brjálast eins og ofangreind tilvitnun ber vitni um.

Hvað skyldi Davíð Oddsson hafa sagt sem truflaði geð Páls útvarpsstjóra svo hrikalega. „Frussið“ og „illskiljanlegt og samhengislítið garg út í loftið“ var einfaldlega þetta:

Því er skynsamlegt að gera þá breytingu að hafa valákvæði í skattafrumvarpi fólks, þar sem skattgreiðandi getur merkt við hvort hann vill að þeir tugir þúsunda, sem hafðir eru af honum sérmerktir á hverju ári, skuli ganga til „RÚV“ eða til að mynda til einhvers háskóla landsinsnáttúruverndarsamtakaKvenfélagasambandsinsÍSÍHjálparstofnunar kirkjunnar eða Hörpunnar, svo dæmi séu nefnd. 

Ekki væri sem sagt gert ráð fyrir því að menn gætu sparað sér skattgreiðsluna, því það myndi sjálfsagt ýta undir fjöldaflótta frá „RÚV“, þrátt fyrir meintar vinsældir. 

En á hinn bóginn ættu skattgreiðendur val og myndu væntanlega, ef marka má yfirlýsingar forsvarsmanna „RÚV,“ í yfirgnæfandi mæli láta sitt fé renna til stofnunarinnar fremur en annað.

Nú ætlar Páll Magnússon í prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í Suðurkjördæmi. Fyrrum kollegar hans á flestum fjölmiðlum draga ekki af sér að kynna framboðið og telja væntanlega að hann eigi erindi með litlu erfiði. Enginn spyr hann þó um stefnuskrá flokksins og sérstaklega hvort hann sé sammála eftirfarandi úr síðustu landsfundarályktun.

Rekstur ríkisins á fjölmiðlum mၠekki hamla frjálsri samkeppni og raska rekstrargrundvelli annarra fjölmiðla. Landsfundur leggur til að þörf samfélagsins fyrir ríkisfjölmiðil verði endurskilgreind og Ríkisútvarpið ohf. verði lagt niður í núverandi mynd. Auka þarf gegnsæi í eignarhaldi fjölmiðla.

Mikilvægt er að varðveita menningararf þann sem Ríkisútvarpið ohf. hefur umsjón með og gera efni í eigu stofnunarinnar aðgengilegt almenningi.

Ofangreint skrifa ég auðvitað Páli til lasts en hann á einnig sínar góður hliðar. Þann 5. apríl 2014 ritaði hann ágæta grein í Morgunblaðið. Í henni réðst hann gegn þeirri þjóðsögu sem Gróa á Leiti hefur statt og stöðugt reynt að koma inn hjá almenningi að þeir sem stunda útgerði séu einfaldlega bófar og arðræningjar. Hins vegar er dæmi um að stjórnmálamaður hafi verið happafengur fyrir fjölmiðil.

Í greininni rakti hann sögu útgerðar í Vestmannaeyjum. Raunar er hún keimlík sögum víða um land. Harðduglegt fólk sem hefur byrjað smátt en stækkað við sig og rekur fjárhagslega sjálfstæða útgerð. Á slíkri vegferð hefur sumum tekist að að koma undir sig fótunum en öðrum ekki, saga sem er hvorki ný né gömul, þetta hefur gerst í öllum atvinnugreinum. Þannig eiga hlutirnir að vera. Vill einhver skipta á þessu og miðstýrðum fyrirtækjum í opinberri eigu? Getur einhver haldið því fram að „alþýða“ landsins hagnist þá meira af afrakstri útgerðarinnar?

Í niðurlagi greinar sinnar segir Páll Magnússon eftir að hafa rakið sögu lítils útgerðarfyrirtækis í Vestmannaeyjum:

Þetta er sem sagt beinn samfélagslegur ávinningur af útgerð þessa eina báts og starfi 30 manna áhafnar hans í Vestmannaeyjum. Þá er ótalinn óbeinn ávinningur af ýmsu tagi og önnur afleidd störf sem þessi útgerð skapar í viðhaldi, veiðarfæragerð, uppskipun og svona mætti áfram telja. Hvernig er hægt að halda því fram af einhverju viti – að ekki sé nú talað um sanngirni – að engir nema „sægreifarnir“ njóti arðsins af auðlindinni? 

Niðurstaðan er sú að Páll Magnússon var vaninn af ríkisspenanum, styður einkaframtakið, er nú kominn í Sjálfstæðisflokkinn og ætlar í framboð fyrir hann. Þetta er löng leið en ekki ókunnug öðrum fjölmiðlamönnum í mörgum flokkum. 

Spurningin er núna sú hvort eitthvað sé spunnið í Pál þrátt fyrir það sem hér hefur verið sagt. Ekki hafa allir fjölmiðlamenn verið happafengur fyrir Alþingi Íslendinga.

 


mbl.is Páll Magnússon vill leiða listann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Ómar Snorrason

Sæll Sigurður. Mér er það til efs, að þú takir öllum ákvörðunum/ályktunum landsfundar, sem um boð af himni væri að ræða, og þú eigir að taka upp þá skoðun skilyrðislaust. Hvers vegna ætti Páll þá að gera það, maðurinn sem þekkir innviði bæði einkarekstrar og ríkistekstrar í fjölmiðlum, ætti að hafa eithvað til síns máls. Eins og yfir 80% landsmanna, þá hef ég engan áhuga á að leggja niður RUV, vitandi að engir nema mjög fjársterkir aðilar hafi bolmagn til að reka slíkt batterí, sem leiðir til einsleitins fréttaflutning, þá helst í þágu sérhagsmuna. RUV er góður miðill, sem fáir en háværir aðilar eiga að skammast sín fyrir að tala niður, og helst vilja leggja niður. 

Jónas Ómar Snorrason, 11.8.2016 kl. 06:17

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Ég var á landsfundinum og styð það sem ég tek þátt í að samþykkja, kæri Jónas. Ég hef skoðanir. Á ég a falla frá þeim af því að ekki eru allir sammála mér?

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 11.8.2016 kl. 08:13

3 identicon

Ég er nú ekki viss um, að Páll hafi áhuga á því að leggja niður Ríkisútvarpið, enda þarf maður nú ekki endilega að vera sammála öllu, sem lagt er til í flokkssamþykktum. Það veit ég af gamalli reynslu. Hins vegar furðaði ég mig á því, að hann skyldi vilja fara fram fyrir Sjálfstæðisflokkinn, þar sem bæjarstjórinn í Eyjum, faðir hans, var einn af eðalkrötunum svokölluðu og starfaði alltaf með Alþýðuflokknum í gamla daga. Það segir samt sitt um það, hvernig komið er fyrir Samfylkingunni, að fólk úr gömlum kratafjölskyldum skuli fara annað, ef það vill fara í framboð. Hvað Ríkisútvarpið áhrærir, þá þarf nú að endurskoða það og starfsemi þess eitthvað betur. A.m.k. þarf að athuga fréttastofuna eitthvað, því að hún er of hlutdræg og einsleit, eins og flestir eru áreiðanlega sammála um nú orðið.

Guðbjörg Snót Jónsdóttirq (IP-tala skráð) 11.8.2016 kl. 10:18

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Þetta er rétt hjá þér, Guðbjörg. Maður þarf ekki að vera sammála öllu í stefnu stjórnmálaflokks til að styðja hann. Þó verður að gera kröfu til þess að frambjóðandi í prófkjöri sé nokkurn veginn á sömu línu í veigamestu málunum.

Já Samfylkingin er orðin léleg eftiröpun af Alþýðuflokknum og heldur ábyggilega landsfund sinn við hornborðið á Borginni eins og sagt var um gamla flokkinn. Hins vegar er ekkert sem segir að fólk þurfi að fylgja foreldrum sínum í stjórnmálum.

Oft þykir mér fréttastofa Ríkisútvarpsins góð en þeim tilvikum hefur fjölgað upp á síðkastið að ég furða mig á framreiðslu frétta. Til dæmis skil ég ekki hversu mikið er lagt upp úr því að Framsóknarflokkurinn haldi flokksþing. Þetta er endurtekið dag eftir dag. Skil þetta ekki.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 11.8.2016 kl. 11:04

5 Smámynd: Jónatan Karlsson

Sæll Sigurður.

Oft þykir þér fréttastofa RÚV góð, en þar er ég þér svo gjörsamlega ósammála, því ESB áróðurinn og endalaus Pentagon/Mossad þvælan þar er blátt áfram óþolandi, svo ekki sé nú minnst á fnykinn af öllu góða fólkinu sem þar ræður ríkjum.

Síðast fyrir 2 – 3 dögum las þulur í lestri frétta að mannfallið í (friðsamlegri) yfirtöku Rússa á Krímskaga hefði verið u.þ.b. 10.000 manns - ÞVÍLÍKT RUGL

Jónatan Karlsson, 11.8.2016 kl. 21:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband