Rof á um 66% landsins

Eina helgi í ágúst gengum við um í nágrenni Hagavatns, austan Farsins, um tröllaheima Jarlhettna. Umhverfið er stórskorið og jökullinn nálægur. Teikn um hin virku öfl er móta landið eru mikilfengleg; móbergshryggir, lón, jökulurðir og ummerki gamalla jökullóna. Á nýju landi sem kemur undan jökli er auðnin náttúruleg og framvinda gróðurs harla forvitnileg. Á eldra yfirborði, utan ríkis jökulsins, er auðnin einnig ráðandi, en svo hefur ekki alltaf verið. Það er manni holt að minnast þess framan við Jarlhetturnar uxu skógar fyrr á tímum. Hér var skógurinn felldur og gert að kola, m.a. fyrir Skálholtsstað, langt fram eftir öldum. En nú standa aðeins eftir stakar gróðurtorfur í víðfeðmri auðn.

Rof á ÍslandiÞannig skrifar Ólafur Arnalds, prófessor í jarðvegsfræðum á vefsíðu sína moldin.is. Það hefur reynst vera lífsstarf Ólafs að rannsaka gróðurfar á Íslandi og því miður er niðurstaða hans ekki uppörvandi. Gróðureyðing og uppblástur hefur verið viðvarandi vandamál á Íslandi svo lengi sem færustu vísindamenn geta rakið. Rannsóknir þeirra enda við landnám, þá hefst þetta allt saman.

Til að lifa af í landinu var gengið á gróður, skógar hoggnir fyrir eldivið og smíðar, þeir ruddir til að rýma til fyrir beit búfjár. Í kjölfarið hófst uppblástur sem staðið hefur óslitið til þessa dags. Vandamálið er hrikalegt og þá sérstaklega á hinu svokallaða gosbelti landsins.

Á vefnum kvasir.is sem Rannsóknarstofnun landbúnaðaarins og Landgræðsla ríkisins gefa út er fjallað um rof á gróðurfari landsins.

Svo vön erum við tötrunum að margt fólk sér einhverja óskilgreinda fegurð í gróðurleysinu; auðnum, melum, klettum, söndum. Hins vegar er það staðreynd að þessi „fegurð“ stafar af hrikalegri umgengni um landið og þá sérstaklega ofbeit. Niðurstaðan er sú að á um 66% Íslands er gróðurþekjan rofin meira eða minna leyti eins og sjá má á meðfylgjandi töflu.

RofkortAlmennt er talið að land hafi verið algróið við landnám og skógar þakið um 15 til 40% landsins í stað 1% nú og gróður hafi þaki allt að þremur fjórðu hlutum landsins. Hnignunin er gríðarleg sem og allar þær afleiðingar sem þar hafa haft og nútímamaðurinn þarf að að þola. Nefna má breytingar á veðurfari sem fylgdu. 

Forfeður okkar kunnu að búa til viðarkol og til þeirra var gert í gryfjum sem fyrirfinnast víða, jafnvel á þeim stöðum sem nú er enginn skógur heldur á víðernum sem fólk dásamar og telur fegurðina einu og sönnu. Á Kili hafa fundist kolagrafir, einnig á Reykjanesi og víðar þar sem aungvir skógar standa nú.

Raunar var það svo að árið 1755 var kolagerð bönnuð með lögum á Íslandi. Ástæðan var einfaldlega sú að á þeim tíma skildu margir að skógar voru í stórhættu vegna kolagerðar. Vandinn var þó miklu meiri og alvarlegri og það er búfjárbeitin, einkum sauðfjárbeit. Kindin sækir í nýgræðinginn, hann er bestur og næringamestur og meðan nýgræðingurinn fær ekki tíma til að vaxa og dafna breytist gróðurfarið lítið.

Til lítils er nú að áfellast forfeðurna. Gert er gert. Vandinn lýtur að deginum í dag. Andrés Arnalds segir í ofangreindum vefpistli sínum:

Þessi ólíku sjónarmið eru táknræn fyrir sjónarmið sauðfjárbænda sem vilja nýta landið áfram, burtséð frá ástandi þess, og hinna sem sjá fyrir sér að þekking á ástandi landsins skili breytingum á nýtingu þess. Staðreyndin er sú að sums staðar er land vel gróið og hentar vel beitar, en auðnir, rofsvæði og land í námunda við virkustu eldfjöll landsins henta alls ekki til beitar. Í dag er ekki gerður greinarmunar þar á. Núverandi “gæðastýring í sauðfjárrækt” skilar málum allt of stutt á þeirri leið. Hvenær verður beitarnýting aðlöguð að landkostum? Hvað þarf til?

Hann spyr hvað þurfi til. Þarf löggjafinn ekki að taka málið til sín og ákveða hvernig beit á landinu skuli háttað? Að sjálfsögðu.

Hins vegar er hér ekki um einfalt mál að ræða. Þingið getur sett lög þar sem beit á hinu svokallaða gosbelti sé einfaldlega bönnuð. Hvað verður þá um það sauðfé sem þar gekk? Verður það sett á aðra afrétta sem þola ekki aukna beit og gróðurinn þar mun rofna og eyðast og svo koll af kolli?

Sauðfjárbeit á einskismannslandi er hápólitískt mál ekki síður en veiðar í landhelgi Íslands en hún er í lögum sögð þjóðareign rétt eins og þjóðlendur. Munurinn er hins vegar sá að í landhelginni er farið eftir tillögum vísindamanna um veiðar en á þurru landi er látið sem beit skaði ekki landið. Í því er firran fólgin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband