Mesti ógæfumaður Íslandssögunnar síðan Axlar-Björn lifði

Hvað hafa stjórnmálafræðingar fram að færa sem öðru fólki er hulið? Verum sanngjörn, hugsum málið og leggjum svo svarið fram.

Sko, lögfræðingar túlka lögin, guðfræðingar véla um trúmál, veðurfræðingar rannsaka veðurfar, hagfræðingar ... tja þeir fjalla um efnahagsmál (held ég), kennarar huga að menntun unga fólksins, læknar sinna sjúkum og svo má lengi telja upp gagnlegar menntastéttir.

Ég fæ hins vegar ekki séð að stjórnmálafræðingar viti eitthvað meira en við hin. Hitt er þó alveg víst að margir þeirra kunna að klæða skoðanir sínar í ansi ásjálegan búning, eru ábúðafullir eins og veðurfræðingur fyrir framan veðurkortið, og eru þar með afar sennilegir - svona við fyrstu sýn (eða áheyrn).

Ekki vil ég gera lítið úr sagnfræðilegri þekkingu stjórnmálafræðinga eða skilningi þeirra á pólitík. Stundum virka þeir bara afar áheyrilegir í sjónvarpinu eða útvarpinu, þangað til að málin eru krufin aðeins meir. Hins vegar þarf oft mikla þekkingu til að sjá í gegnum sennilegheitin.

Ólafur Harðarson kemur til dæmis iðulega í kosningasjónvarpið og í fréttatíma til hans Boga vinar síns og þá kemur saman mikið vit. Svo mikil skemmtan er að hlusta á þá félaga að mann langar jafnvel til að hitta þá og sötra á koníaki og skiptast á skoðunum fram eftir kvöldi og nóttu.

Óli er hins vegar gamall Allaballi og Samfylkingarmaður og það litar flest af því sem hann segir. Þannig er vissara að draga upp fyrirvarann þegar hann messar, en það getur stundum verið fjári erfitt því hann er svo fjári sennilegur.

Fleiri álitsgjafa í stjórnmálafræðinni mætti nefna. Margir þeirra hafa í lengri eða skemmri tíma dvalið á stoppistöð flokka sem síðar hafa gengið í gegnum endurnýjaða lífdaga, málað yfir nafn og númer og þeir orðið eins og nýir.

Hiklaust koma þessir stjórnmálafræðingar svo fram í fjölmiðli ríkisins og segja okkur sauðsvörtum í nafni fræða sinna hvað sé og hvað ekki, gera það með sama sjálfsörygginu eins aðrir fræðingar spá rigningu á suðvesturlandi og slyddu fyrir norðan eða að stýrivextir þurfi að hækka eða lækka.

Af stjórnmálafræðingum held ég að Ólafur Harðarson, prófessor í Háskóla Íslands sé mesti óþurftarmaður Íslandssögunnar, Axlar-Björn „included“ ...

Af hverju ...? Jú, Óli vegur að mannorði fólks sér til vegsauka en hinn myrti fólk til fjár. Báðir hlutu frægð fyrir.

Þannig er þetta nú. Stjórnmálafræðingar segja svo sem ekki neitt, veltast frá einu í annað án þess að leggja nokkuð merkilegt fram umfram það sem við hin sjáum og vitum - nema auðvitað að þeir séu þátttakendur í pólitíkinni. Þá vantar nú ekki skoðanirnar, sleggjudómanna og jafnvel rökleiðslurnar - og þá hallar jafnan á pólitíska andstæðinga.

Ljósi punkturinn er hins vegar sá að allflestir eru þeir barngóðir, berja ekki konuna sína, halda með Liferpúl eða Júnætit í enska boltanum og sumir fara meira að segja í kirkju á sunnudögum. En það gerði nú Axlar-Björn líka og mörg átti hann börnin ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Af hverju segirðu: "guðfræðingar véla um trúmál"?

Ég er mjög móðgaður yfir þessu! laughing

Jón Valur Jensson, 2.5.2016 kl. 03:24

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

PS. En ef farið er að tala hér um sleggjudóma, þá hef ég nú sjaldan eða aldrei heyrt nokkurn eins djarfan og þennan: "Af stjórnmálafræðingum held ég að Ólafur Harðarson, prófessor í Háskóla Íslands, sé mesti óþurftarmaður Íslandssögunnar, Axlar-Björn „included“ ... Óli vegur að mannorði fólks sér til vegsauka en hinn myrti fólk til fjár."

Þú ert kannski bara að skrifa þér til skemmtunar, Sigurður minn? Skemmtu samt ekki skrattanum!

Jón Valur Jensson, 2.5.2016 kl. 03:41

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Þú fylgist lítt með og þar af leiðandi er ansi leiðinlegt að þurfa að benda þér á eftirfarandi sem Ólafur Harðarson segir á Fésbókarsíðu sinni:

„Mitt mat (skoðun en ekki vísindi): DO er mesti ógæfumaður Íslandssögunnar í pólitík, Sturla Sighvatsson included ...“

Hér er um persónulegt níð að ræða og setur prófessor Ólafur mikið niður. Manni er einfaldlega ofboðið vegna þessara ummæla að ansi langt má seilast til að jafna metin.

Hitt eru engir sleggjudómar, stjórnmálafræðingar segja sjaldnast neitt umfram það sem við, almenningur, vitum. Skil ekki hvers vegna þeir eru kallaðir til vitnis í fjölmiðlum sem hlutlausir álitsgjafar. Flestir þeirra sem þar anda eru bullandi vanhæfir vegna þátttöku sinnar í stjórnmálastarfi.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 2.5.2016 kl. 08:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband