Þeir sem klappa tröllin upp viðhalda vondri umræðuhefð

Við verðum að breyta umræðuhefðinni, er niðurstaða greinar sem einn stofnenda Pírata, Smári McCarthy, skrifar í Stundina í dag. Greinin birtist í kjölfar frétta um vandræðagang á spjallsvæði Pírata, þar sem of mikið mun hafa þótt vera af því sem Smári kallar „fávitalegar skoðanir.“

Í grein sinni, þar sem hvatt er til kurteisi og yfirvegaðrar umræðu, kallar Smári valdhafa „siðlaus, mannvond fífl.“ Hann segir einnig fjölda fólks á alþingi „tala viðstöðulaust með rassgatinu.“

Um fjölmiðla hefur hann það meðal annars að segja, að „svokallaðir blaðamenn skófla upp hverskyns bulli“ og að flestir fjölmiðlar virðist „sáttir við að láta frá sér hvaða rætnu drullu sem er.“

Smári varar við því, að óvönduð umræða og fjölmiðlun verði til þess að sá tími komi þegar enginn hreinlega muni lengur hvernig á að vera „kurteis og gagnrýninn.“

Þannig stendur skrifað í vefriti sem nefnist Herðubreið, höfundurinn er Karl Th. Birgisson ritstjóra. Við fyrstu sýn er þetta svo sem gott á Smára McCarthy.

Hér hef ég nokkrum sinnum gert athugasemdir við hina margumræddu umræðuhefð sem einna helst er óþrifalegust í stjórnmálum. Spara þar margir ekki stóru orðin sem er svo sem allt í lagi ef ekki fylgja formælingar og uppnefni. Ástæðan er eflaust sú að mörgum er heitt í hamsi og láta vaða, ekki aðeins í athugasemdadálkum fjölmiðla heldur einnig á hinu háa Alþingi.

Líkur benda til að sá sem tvinnar saman óhróðri og andstyggilegheitum um annað fólk þjáist af öðru eða hvort tveggja þessu:

  • Sá sem lætur svona út úr sér er fyrst og fremst að upphefja sjálfan sig. Þekkt er að upphafning á eigin verðleikum á uppruna sinn í aumu sjálfsáliti, þörf á viðurkenningu annarra og oftar en ekki slæmu uppeldi. Til viðbótar er afar líklegt að sá sem niðurlægir aðra trúi því innst inni að fyrir vikið upphefjist hann sjálfur
  • Viðkomandi heldur að einhver trúi óhróðrinum og missi álit á þeim sem um er rætt. Sé einhverjum nógu illa borinn sagan; sönn, hálfsönn eða ósönn, sé mannorðið ónýtt. Þetta er aðferð sem kennd er við Gróu á Leiti.

Ofangreint er auðvitað þvert á alla málefnalega umræðu þar sem rökræður um skoðanir og stefnu skipta öllu en sá sem orðar þær skiptir minna máli.

Hversu oft höfum við ekki séð og heyrt hinn háværa og freka taka yfir umræður og „rúlla andstæðingnum upp“ eins og það er oft nefnt. Staðreyndin er þó engu að síður sú að málstaður þess sem fer hallloka í umræðum þarf síður en svo að vera lakari eða verri en þess sem er talinn hafa haft yfirhöndina.

Þegar upp er staðið skiptir afstaða lesenda eða áheyrenda öllu máli, að þeir sjái í gegnum umræðuna, átti sig á því hvaða málstaður er góður. Þeir sem klappa tröllin upp, hvetja til vondrar umræðu og viðhalda hefðinni. Hinir halda sig frá henni, varast opinberlega að veita tröllunum athygli.

Í raun og veru er Karl Th. Birgisson, ritstjóri Herðubreiðar, að berja á pólitískum andstæðingi. Þetta er í hnotskurn hin vonda íslenska umræðuhefð í stjórnmálum. 

Eðlilegra hefði verið að hrósa Smára McCarthy fyrir að hafa snúið við blaðinu, tekið afstöðu gegn vondri umræðuhefð. Þess í stað leggur ritstjórinn á sig að rifja upp ill ummæli Smára til að gera lítið úr greininni og sinnaskiptum hans. 

Engin breyting verður á umræðuhefðinni í íslenskum stjórnmálum sé ráðist með illu á einn af boðberum breytinga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband