Áfram Kleppur hraðferð ...

Hlíðarskóli, fótboltavöllurHlíðarhverfið var í æsku minni á áhrifasvæði Vals og svo ku vera enn. Þeir sem þar alast upp og ganga í Hlíðaskóla verða óhjákvæmilega Valsarar. Undan þessu komst ég ekki, varð Valsari, rauður.

Ég bjó í Barmahlíð og þar voru margir stráka sem spiluðu fótbolta allt sumarið. Gulli Níelsar var frábær í fótbolta, líklega bestur okkar, einnig Gulli Jóns, Bonni, Jón Guðmunds, Friðgeir, Guðni, Gaui og fleiri og fleiri. Aðeins eldri voru Gústi Níelsar og Ævar Jóns sem skiptu sér lítið af okkur nema til að hrekkja. Svo voru yngri krakkar sem við skiptum okkur lítið af nema til að hrekkja.

HlíðarskóliÞarna var kjörlendi fyrir fótbolta. Hægt að skipta í lið upp á eitt mark á mölinni fyrir framan bílskúra. Oft fórum við upp í Stakkahlíð þar sem var stórt opið svæði, hallaði að vísu en í öðrum hvorum hálfleik fékk maður að sækja niður hallann ... meðaltal hálfleikjanna var því sléttlendi og allir sáttir.

Hlíðaskóli

Í Hlíðaskóla voru nokkrir fótboltavellir. Einn var bestur og galdurinn var sá að komast út nægilega tímanlega í löngufrímínúturnar til að ná mörkunum. Þá hljóp einn eða tveir mínútu áður en bjallan hringdi út á völlinn og greip þéttingsfast í annað markið. Það þýddi einfaldlega að völlurinn var frátekinn. Við erum með'ann kölluðu þeir ef einhverjir óviðkomandi hættu sér of nálægt.

Úr Öskjuhlíð 1960Bekkjarbræður mínir voru nokkrir einstaklega góðir fótboltamenn, svo sem Logi Úlfarsson, Helgi Ásmundsson Loftur Pétursson, sem raunar var og er enn Frammari enda kom hann úr Bólstaðarhlíð sem er norðan Miklubrautar, nær áhrifasvæði Fram en Vals. Sorglegt.

Á þessum árum var Hermann Gunnarsson aðalgæinn í íslenskum fótbolta og Árni Njálsson besti þjálfari í heimi. Og við hrópuðum Áfram Valur, Áfram Valur ... Sóttum leikfimistíma í íþróttahús Vals að Hlíðarenda.

Í KR

KRSvo breyttist allt. Í MR kynntist ég í fyrsta skipti kynstofni sem heitir KR-ingar og þvílíkir ofur KR-ingar sem það voru. Ég er enn hálfhræddur við þá. Til að sæta ekki einelti held ég að ég hafi ekki upplýst um að ég væri Valsari fyrr en löngu eftir stúdentspróf.

Meðal óvinarins

Börn eru bara til vandræða, það hef ég alltaf sagt. Þegar eldri strákurinn minn var sex ára bjuggum við á Kaplaskjólsvegi, í miðju áhrifasvæði KR. Aðeins tíu metrar voru yfir á völlinn. Það voru því þung skref sem Valsarinn tók er hann fór í fyrsta sinn með strákinn á æfingu hjá KR. Eftir það var ekki aftur snúið. Smám saman tókst manni að hrópa áfram KR, áfram KR ...

081004 BikarleikurEinu eða tveimur árum síðar hitti ég svo gamlan bekkjabróður úr MR á fótboltamóti fyrir sjö eða átta ára drengi. Þar léku KR og Stjarnan. Við tókum auðvitað tal saman og ég sagði honum að nú væri ég með strák í KR og hrópaði áfram KR. Hversu erfitt það nú er fyrir gamlan Valsara. Þá sagði þessi gamli vinur minn, uppalinn og þrautseigur KR-ingur: Heyrðu Siggi, sko hér er ég með strák sem leikur með Stjörnunni á móti KR og ég hrópa auðvitað áfram Stjarnan ... Hvað annað?

Auðvitað var þetta rétt hjá honum Gumma Jó og svo fór ég að litast um meðal áhorfenda á fótboltaleikjum yngri flokka og sá að áhrifasvæði fótboltafélaga stjórnuðu því með hvaða liði strákarnir léku, yfirleitt ekkert annað. Foreldrar hvöttu börnin sín óháð því hvort þeir voru Valsarar, KR-ingar, Frammarar eða eitthvað annað.

Hins vegar eru allir eins og einn frændi minn sem á gallharðan Frammara fyrir föður, býr í Valshverfi en æfir og spilar með KR.

Úr KR

KR2Jæja, þessar voru nú pælingarnar hjá mér á sunnudaginn þegar sonur minn hringdi sagðist vera hættur í KR. Nærveru hans væri ekki lengur óskað eftir átta ára þátttöku í meistaraflokki, nokkra Íslands- og bikarmeistaratitla auk annarra afreka meðal annars í yngri flokkum. Þetta kom svo sem ekkert á óvart. Allir vita að fótboltafélögin í heiminum hafa breyst.

Oft hef ég velt því fyrir mér hvers vegna fótboltafélög nota ekki meira þá leikmenn sem þau hafa alið upp frá blautu barnsbeini. Nei, einhvern veginn eru þeir ekki nógu góðir ... Hver ber ábyrgðina á því?

Félögin sanka hins vegar að sér leikmönnum úr öðrum félögum og það heitir „að styrkja liðið“. Oft eru aðeins þrír eða fjórir uppaldir í liðinu, alltaf minnihluti leikmanna. Félögin eru orðin lógó og leikmennirnir eru málaliðar, aðkeyptir til að falla inn í flókið púsluspil sem velviljaðir menn reyna að sýsla við með misjöfnum árangri.

Áfram Kleppur hraðferð ...

Fyrir vikið eru nú skilin á milli félaga orðin ansi óglögg. Leikmenn flandra úr einu félagi í annað, jafnvel árlega. Þjálfararnir eru reknir og ráðnir rétt eins og þeir séu grasið á leikvellinum sem þarf að slá reglulega ... svo hægt sé að spila þokkalegan leik. 

Fótboltafélög eru orðin eins og strætó á leið niður í miðbæ. Vagninn er alltaf hinn sami en fólkið kemur og fer. Áfram strætóbíll, áfram OK14B11, Kleppur hraðferð ... eða þannig.

Fótboltafélag í meistararflokki er skrýtin samsuða alveg eins og strætó.

 

Sýnishorn, málaliðar

Núorðið hvetjum við eiginlega lógóið til sigurs og þá meira af gömlum vana. Hjartans einlægni fylgir ekki lengur með eins og þegar Hermann Gunnarsson rótaði upp rykinu á Valsvellinum, Ásgeir Elíason stóð fastur fyrir andstæðingum sínum, Ellert Schram raðaði inn mörkunum svo nokkrir hjartans menn séu nefndir úr Val, Fram og KR, erkifjendunum. Þá var nú gaman að lifa enda línurnar skýrar. Stuðningsmenn þessara liða töluðust helst ekki við.

Þegar horft er á fótboltaleik, hér á landi og erlendis er það eins og að vera staddur á minjasafni, þjóðminjasafni, listasafni. Í liðunum er eitt eintak af spilurum úr öllum hinum liðunum, sýnishorn af því „besta“. Sumir segja að þetta sé miklu skemmtilegra fyrirkomulag.

 

Myndirnar:

Tvær efstu myndirnar eru af fótboltavöllunum við Hlíðaskóla í gamla daga. Þær fann ég á Facebook, veit ekki hver tók eða hver á birtingaréttinn en vona bara að mér fyrirgefist birting.

Þriðju myndina fann ég líka á Facebook, þekki ekki ljósmyndarann. Myndin er tekin í Öskjuhlíð og horft yfir Hlíðarnar.

Fjórða myndin er af KR liði á Tommamóti í Vestmannaeyjum 1992, tíu ára strákar. 

Fimmta myndin er af bikarmeisturum KR 2008.df

Á sjöttu myndinni ganga KR-ingar inn á völlinn sinn.

Stækka má myndirnar og með því að smella á þær.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband