Everest, stórkostleg kvikmynd

SS a Vatnajokli 1991bEverest er einfaldlega heillandi og áreiðanlega raunsönn kvikmynd. Mér er sagt að hún sé jafnvel enn betri í þrívídd. Imax heimildarmyndin um Everest er fáanleg á Netflix og sýnir að hluta til það sama og er umfjöllunarefni í mynd Baltasars Kormáks. Mæli með því að sjá heimildarmyndina áður en farið er á kvikmyndina, jæja eða þá á eftir.

Í kvikmyndinni má sjá hvílík þrekraun gangan á Everest er. Farið er upp í síðasta áfangann rétt eftir miðnætti og lagt af stað niður klukkan tvö stundvíslega. Í raun er óskiljanlegt hvers vegna aðalgæinn í myndinni, fararstjórinn, leyfði sér að fara upp með þann sem hafði dregist aftur úr. Fyrir vikið komst hvorugur niður.

Eflaust er rangt að gagnrýna kvikmyndina og harkalega. Hún er sviðsetning á raunverulegum atburðum og lýtur því öðrum lögmálum en heimildarmynd. 

Ég hef aldrei gengið á hærra fjall en Piz Buin Pitschen í Ölpunum, 3.255 m og ætti því ekki að gagnrýna þá sem hærra hafa farið og síst af öllu kvikmynd sem er svo vönduð og heimilda gætt í hvívetna eins og Everest.

Almennt segja kvikmyndir ekki mikið um líkamlegar þarfir fólks, svo sem þvaglát eða álíka. Í þessari mynd verður engum mál sem er þó dálítið áhugavert að segja frá hvernig slíkt fer fram.

Hitt er öllu athyglisverðara að enginn virðist borða. Í svona ferðum undir hrikalegum aðstæðum skiptir öllu að hafa nóga orku til að knýja líkamann áfram. Einsýnt er að auk kulda hefur orkuleysi hrjáð suma af fjallgöngumönnunum.

Margir hafa lent í því að vera á ferð um íslensk fjöll og borða ekki nóg. Þá sprettur fram kaldur sviti, maður kemst varla úr sporunum, hjartsláttur eykst og suma svimar. Fæstir gera sér grein fyrir vandanum, kenna þreytu og úthaldsleysi um. Þá skiptir öllu að hafa góða ferðafélaga sem gefa manni gaum og skilja vandann en hann felst í því að borða og drekka reglulega. Annars er voðinn vís.

Svo er það eitt í lokin. Þegar veður versnar í fjallaferðum að vetrarlagi um leið og það skefur eða snjóar hylja menn vit sín. Setja upp lambhúshettur, skíðagleraugu og reima hettuna á úlpunni vel á sig. Nauðsynlegt er að vera í einangrandi hlífðarfatnaði frá hvirfli til ilja. Svo gerist það að göngumaðurinn andar í gegnum lambhúshettuna og þar myndast á skömmum tíma klaki, rakur andardrátturinn bleytir hettuna og hún frýs. Þetta gerðist ekki í myndinni. En eins og áður sagði er þetta kvikmynd sem byggir að hluta á skáldaleyfi.

Eins og áður sagði þykir mér myndin Everest stórkostleg. Einhver sagði að ekki spillti fyrir að Ingvar Sigurðsson leikur í henni Rússa sem kemur mönnum til hjálpar þegar neyðin er stærst.

„Þessu get ég alveg trúað upp á hann Ingvar,“ sagði einhver fyrir framan mig í röðinni á leiðinni út úr Háskólabíói. Ég brosti og er alveg sammála.

Myndin er af höfundi á Vatnajökli í leiðindaveðri. Lambhúshettan var ekki merkilegri en svo að þegar hún ísaði teygðist á henni og hún hætti að gegna hlutverki sínu sómasamlega. Eða kannski var hún ekki gerð fyrir svona aðstæður.

 


mbl.is „Það voru partý þarna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband