Flugvél kastar út kassa í fallhlíf á Sandskeiði

Sandskeið 1Aldrei er hægt að gera neitt í laumi. Alltaf er einhver vitleysingur með myndavél og smellir myndum í gríð og erg. Í þetta sinn átti ég hlut að máli, vaðandi með myndavélina á lofti austan við Sandskeið á leið í hrakfallaferð á Vífilsfell.

Og hvað haldiði að ég hafi séð? Jú, stóra flugvél sem lækkaði flugið rétt eins og hún væri að hrapa. Að minnsta kosti stefndi hún nokkurn veginn á mig og það ræð ég af því að ljósin á henni skinu skært í mína átt þrátt fyrir septembersólina sem var vel útilátin í dag.

Og svo datt eitthvað úr flugvélinni, ég þreif upp myndavélina og smellti af, yfirvegaður, vel pælandi í myndrammanum. Auðvitað hélt ég áfram að mynda þegar flugvélin hækkaði flugið að nýju og hvarf loks upp í himinnblámann í norðri.

Sandskeið 2Fyrst hélt ég að maður hefði stokkið út úr flugvélinn. Datt eina örskotsstund að einhver hafi þurft að komast upp á Sandskeið, ekki haft bíl en fengið að fljóta í Flugfélagsvél. 

Ég hélt svo ferð minni áfram, sótti stikur, lamdi þær niður, datt og tognaði í læri. Þóttist vera hetja og datt nokkru síðar og sleggja þunga endaði flug sitt á handarbaki hægri handar. Kláraði engu að síður ferðina, vorkenndi sjálfum mér heil ósköp og skakklappaðist að bílnum og ók heim með aðra hönd á stýri.

Þegar heim var komið sá ég á myndunum að þetta hafði verið flugvél Landhelgisgæslunnar sem gerði stykki sitt yfir Sandskeiði, sendi niður kassa ekki mann.

Sanskeið 3Meira veit ég ekki og er sagan búin. Hef þó reynt að krydda hana eftir bestu getu. Sannast sagna hef ég frekar lítinn áhuga á því sem þarna gerðist. Líklega var þetta æfing hjá Gæslunni.

Á meðfylgjandi myndum sést atburðurinn mætavel, flugvélin og fallhlífin

Jú, þakka fyrir. Heilsan er eftir atvikum. Leik þó hvorki á hörpu né fiðlu þessa vikuna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband