Í sjónum í Nauthólsvík

GSS börnEfsta myndin birtist í Fréttablaðinu í gær og er af tveimur sonardætrum mínum sem eru greinilega miklu hraustari en afi gamli. Þarna vaða þær í kaldri Nauthólsvíkinni í Fossvogi ásamt tveimur vinkonum sínum. Þeim leiðist greinilega ekki.

Rakel er í svörtum bol og Unnur er með kúta. Vinkonurnar heita Hanna Katrín og Steinunn. 

Fyrir örfáum árum ... þegar ég var á svipuðum aldri og þessar fallegu stúlkur var Nauthólsvíkin fjölsótt. Þá lá fólk í sólbaði og krakkar busluðu í sjónum enda var sól og heitt alla daga sumarsins, aldrei rigning, alltaf gott veður (minnir mig). Og enginn heitur pottur.

Strákarnir úr Barmahlíðinni gengu alla leiðina yfir Öskjuhlíð og niður í Nauthólsvík með sundskýlu vafða inn í handklæði.

GSSb

Af og til hef ég pælt í að leggja stund á sjósund, sérstaklega þegar sólin skín í heiði og heitt er í veðri. Þessar hugsanir hafa fljótlega rjátlast af mér þegar ský dregur fyrir sölu og hitastigið lækkar.

Ég minnist margvíslegra svaðilfara í sjó. Síðast valt ég á kajak í Hvalfirði og ferðafélagar mínir hlógu hjartanlega. Eitt sinn brotlentum við þrír félagar á gúmmíbát í brimi við strönd Surtseyjar. Það var mikið ævintýri. Svo er það vaðstandið í köldum ám og ósum víða um land. Minnistætt er að hafa um miðnætti vaðið Hafnarósinn í Hornvík og ósinn í Atlavík á aðfalli.

GSS2bKaldast og verst er þó að vaða blátærar ár, jökulár eru barnaleikur í samanburðinum. Sumir geta vaðið án nokkurra vandræða. Ég á hins vegar í miklum vanda. Kuldinn leiðir upp í haus og gerir um leið út af við ófáar heilafrumur og drepur rætur höfuðhára. Svo rammt kvað að þessu á tímabili að það flögraði að mér að hætta þessu til að vernda þær örfáu sem eftir eru en svo gleymdi ég því og hélt áfram. Þess vegna er ég eins og ég er ...

GSS3Hermann vinur minn Valsson hefur hvatt mig til að koma með sér í sjósund. Segir það sé allra meina bót. Ég trúi því eins og nýju neti enda mikið fyrir reddingar og snöggsoðnar lausnir. Ég væri fyrir löngu byrjaður og búinn að fara fram og til baka yfir Ermasund ef sjórinn væri ekki svona djö... kaldur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband