Miðborg Reykjavíkur og menningararfurinn

mynd-19Sérkenni Reykjavíkur eru lítil hús, oft bárujárnsklædd, og rýmið milli húsanna. Þ.e. auk húsanna sjálfra eru það bakgarðarnir og það hvernig húsum er raðað á milli gatna sem gefa gamla bænum í Reykjavík sinn sérstaka og aðlaðandi blæ. En þessu er nú markvisst verið að eyða. Það er eins og að hvar sem finnst bil milli húsa vilji menn fylla í það og auka nýtingarhlutfallið. Byggja alveg út að lóðarmörkum og sem mest upp í loft þ.a. ef allir gerðu slíkt hið sama myndi byggðin samanstanda af samfelldum steypuklumpum sem næðu frá einni götu til annarrar.

Þróun miðbæjar Reykjavíkur hefur mörgum verið áhyggjuefni í langan tíma. Svo virðist sem borgaryfirvöld hafi fallið í þá gryfju að leyfa alltof mikið byggingarmagn á lóðum sem orðið hafa til vegna skipulegrar úreldingar húsa. Verktakar hafa keypt gömul hús með það eitt í huga að fá að rífa þau og byggja ný og krafan er að hafa nýtingarhlutfallið á hverjum byggingarreit sem hæst.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, skrifar afar áhugaverða og þarflega grein á vefsíðu sína og birtir sláandi myndir sem styrkja umfjöllun hans. tilvitnunin hér að ofan er úr greininni.

Í heildina er grein Sigmundar góð þó svo að hægt sé að gagnrýna einstök efnisatriði. Það skiptir ekki öllu máli. Staðreyndin er sú að í langan tíma hefur gömlum og menningarsögulegum húsum fækkað í Reykjavík. Fólk sem komið er yfir miðjan aldur þekkir ekki lengur Reykjavík æsku sinnar. Húsin eru horfin, götunum er breytt, gömlu bryggjurnar rifnar og á hverjum lofastórum bletti er reynt að byggja til hins ýtrasta. Og svo rammt kveður að þessum stíl að borgin skipuleggur byggingar með engum bílastæðum. Hvaða skoðun sem fólk hefur á bílum og bílamenningu þá koma opin bílastæði í stað húsa.

Á sjöunda áratug síðustu aldar var viðhorf fólks til gamalla húsa og byggðar mjög neikvætt. Þá átti að breyta öllu, henda því gamla og byggja nýtt. Tímamót urðu með Torfusamtökunum á áttunda áratugnum en þau spyrntu hraustlega við fótum, kröfðust þess að Bernhöftstorfan í Reykjavík væri vernduð. Samtökin opnuðu augu okkar margra sem. Víða um land saknar fólk bygginga sem rifnar voru einungis vegna þess að þau vöru gömul og talin fyrir.

Við þurfum að líta heilstætt á það sem við erum að gera og hvernig við viljum að þéttbýli og land þróast. Það gengur auðvitað ekki að við breytum þéttbýlisstöðum þannig að þau verði óþekkjanleg komandi kynslóðum ekki frekar en við breytum landi á sama hátt. Tæknin er slík að hægt er að byggja gríðarlega mörg hús og gjörbreyta þéttbýlinu. Jafnvel er hægt að eyða heilu fjöllunum og nota efnið til dæmis til landfyllingar úti í Faxaflóa.

Ég tek undir margt það sem Sigmundur Davíð segir í grein sinni, til dæmis eftirfarandi:

Áfram verða langflestar byggingar á Íslandi hannaðar í samtímastíl (módernisma). Það er hins vegar fráleitt að halda því fram að ekki megi byggja í hefðbundnum stíl þar sem það á við, t.d. til að styrkja heildarmyndina. Allt er þetta spurning um samhengi. Það væri jafnfráleitt að byggja bárujárnsklætt turnhús í Ármúla eins og það er að byggja gráa kassabyggingu í gamla bænum.

Það er hlutverk borgaryfirvalda að leggja línurnar í skipulagsmálum á þann hátt að það skapi jákvæða hvata en ekki neikvæða, ýti undir fegrun umhverfisins og vernd menningararfsins, þess sem tengir okkur við sögu borgarinnar og gerir gamla bæinn að sérstæðum og aðlaðandi stað. Yfirvöld þurfa að gæta jafnræðis og umfram allt forðast að menn séu verðlaunaðir fyrir að ganga á umhverfisgæði nágrannans en refsað fyrir að leggja til umhverfisins.

Hver skyldu nú viðbrögð borgarstjórnar verða við þessari grein forsætisráðherrans. Auðvitað óttast maður skítkast og ómálefnalegar aðfinnslur. En, alltaf má þó vona ...

Hún er sláandi þessi mynd sem hér er birt, en hún er úr grein Sigmundar.


mbl.is Gagnrýnir skipulagsmál í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband