Er lýðræðið bara gólftuska?

Verkalýðsfélagið Eining skilur ekki lýðræðishugtakið, heldur að það sé einhver gólftuska sem megi brúka á þann hátt sem það vill, vinda og teygja eftir því sem ímyndaðar þarfir þess eru hverju sinni.

Þetta má ráða af grein formannsins, Sigurðar Bessasonar, í Morgunblaði dagsins. Í henni reynir hann að svara ágætri grein sem Kristinn Karl Brynjarsson ritaði í blaðið síðasta föstudag. viðhorfum Kristins var gerð skil hér samdægurs.

Vegna allsherjaratkvæðagreiðslu um verkfallsboð sendi Eining atkvæðaseðil til félagsmanna sinna. Með seðlinum fylgdi áróðursbæklingur í hverjum félagsmenn voru hvattir til að greiða atkvæði með verkfalli.

Hér er enginn ágreiningur um atkvæðagreiðslu né heldur hvort boðað sé til verkfalls eða ekki. Aðalatriðið er framkvæmdin. 

Allir vilja forðast áróður á kjörstað og raunar er hann bannaður í opinberum atkvæðagreiðslum hér á landi.

Sá sem sendir út atkvæðaseðil og einhliða áróður með honum skilur ekki eðli lýðræðislegrar atkvæðagreiðslu. 

Í grein sinni í Morgunblaði dagsins segir Sigurður Bessason, formaður Einingar:

Í þessu felst ekkert annað en hvatning til félagsmanna. Ég geri mér fulla grein fyrir því að ýmsir félagsmenn munu eins og þú, vera mér ósammála. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að þegar samningur liggur fyrir beri okkur sem höfum gert hann að leggja hann fyrir félagsmenn og hafa skoðun á samningnum.

Í þessum orðum felst ótrúleg vanvirðing og skilningsleysi á lýðræðinu. Formaðurinn teljur tilganginn réttlæta meðalið. Í þessum dúr er öll greinin, réttlæting á verkfallsboðuninni þannig að lýðræðisleg atkvæðagreiðsla á ekki að vera annað en framlenging á vilja stjórnar félagsins.

Enn er nauðsynlegt að taka fram að hér er ekki verið að gera upp á milli þeirra kosta sem félagsmenn standa frammi fyrir, samþykkja eða hafna verkfallsboðun.

Lýðræðið er ekki eins og gólftuska. Fara ber með það af varúð og nákvæmni, skiptir engu umhvað verið er að kjósa eða hvert umræðuefnið er. Engan afslátt er hægt að veita af lýðræðinu þá snarbreytist það í eitthvað allt annað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband