Rétt upp hönd sem notar prentaða símaskrá ...

Símaskráin er komin út ...! Ja, hérna. Og ég sem hélt að útgáfu hennar hefði verið hætt. Í sannleika sagt man ég ekki hvenær ég tók mér bókina síðast í hönd til að leita að símanúmeri. Líklegast á síðustu öld. Og símafyrirtækið Já segir í auglýsingu í Morgunblaði dagsins: „Hér sækir þú þitt eintak.“ Mitt eintak, hvorki meira né minna ... 

Ég er næstum því viss um að mörgum þykir prentuð símaskrá eyðsla á peningum, pappír og trjám, umhverfislega slæm hugmynd. Flestir nota tölvu, snjallsíma eða spjaldtölvu þurfi þeir að finna símanúmer hjá einstaklingum eða fyrirtækjum. Ég opna ja.is og slæ inn nafn og fæ á sekúndubroti niðurstöður. Sami ferill með símaskrá tekur miklu lengri tíma og þar að auki er niðurstaðan oft ekki góð, númerið getur verið gamalt og heimilfangið úrelt.

Viðurkenni fúslega að hér áður fyrr var maður ansi leikinn að fletta í símaskránni. Slíkur hæfileiki er ekki meðfæddur, aðeins er nauðsynlegt að kunna stafrófið, það íslenska á ég við. Margt yngra fólk á í vandræðum með stafrófið, ef til vill af því að það notar ekki símaskrá.

Prentuð símaskrá er stór, þung og full af prentsvertu. Ferlega ógeðfelld í sjálfu sér, rétt eins og dagblöðin. Morgunblaðið les ég sem áskrifandi í netútgáfunni og svo hefur verið nær alla þessa öld. Prentuðu eintaki af Fréttablaðinu fletti ég stundum. Mér finnst það eiginlega jafn leiðinlegt og símaskráin. Sem sagt ég leitast við að afla mér upplýsinga á netinu, vel síður prentaðar útgáfur nema ef til vill bækur sem ég fæ ekki í tölvutækri útgáfu.

Og jú, það er rétt. Já eða ja.is gefur út símaskrána. Held að ástæðan sé fyrst og fremst sala auglýsinga, þori þó ekki að fullyrða það enda hef ég ekki skoða símaskrána lengi. Man bara að síðast þegar ég gáði voru auglýsingar í henni.

Jú, það er rétt hjá þér lesandi góður. Auðvitað hljóta margir þeir að nota símaskrána sem ekki eru „tölvulæsir“ eins og það heitir víst. Ugglaust margir eldri borgarar og svo þeir sem ekki hafa aðgang að tölvu. Já (þetta er upphrópun, ekki ja.is), líklega er þörf á prentaðri símaskrá, einhver eftirspurn er eftir henni.

Þegar öllu er á botninn hvolft er símaþjónustufyrirtækinu Já samt alveg óhætt að láta einhvern annan fá eintakið mitt. Nei, ég hef ekki áhuga á að fá það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Úpps, þvílík sóun!!!.

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 6.5.2015 kl. 10:24

2 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ekki eru allir á Íslandi nettengdir. En það er víst ekki öllum ljóst?

Hvert fóru Síma-peningarnir?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 6.5.2015 kl. 14:16

3 Smámynd: Jón Þórhallsson

Sjálfur nota ég aldrei pappírs-símaskrána.

En í pappírs-símaskránni eru allkyns almannavarna-upplýsingar sem gæti verið gott að vita af t.d. ef að rafmagnið fer af til langs tíma á landsvísu einhverra hluta vegna.

Jón Þórhallsson, 6.5.2015 kl. 16:43

4 Smámynd: Guðjón Ó.

Ég tek alltaf eintak. Finnst það þægilegt

Guðjón Ó., 6.5.2015 kl. 17:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband