Hvaða þingmenn sóttu um leiðréttingu og hvað fengu þeir?

Gaman að vita hvenær vinstri sinnaðir fjölmiðlar landsins, Ríkisútvarpið, Fréttablaðið, Kjarninn og DV muni fara í rannsókarbrækurnar og kanni hvaða þingmenn á Alþingi Íslendinga sóttum um leiðréttinguna og hvað þeir fengu.

Ég held að fleirum en mér þætti sérstaklega forvitnilegt að sjá hvernig staðan er á þessu máli hjá þingmönnum stjórnarandstöðunnar, þeim sem hæst gala gegn leiðréttingu á því óréttlæti sem hrunið olli eigendum íbúðarhúsnæðis. Munum að vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms tók afstöðu með skuldareigendum og nokkrum hátekjuskuldurum en neituðu almenningi um aðstoð.

Staðreyndin er einfaldlega þessi. Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms gat aldrei tekið á skuldavanda heimilanna. Hún kunni það ekki og lét því auðnu ráða. Það var hæstiréttur landsins sem kom heimilunum til bjargar með því til dæmis að lýsa gengistryggingu lána ólöglega.

Þáttur Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar og þáverandi félagsmálaráðherra, var ekki geðfelldur. Hann lét setja lög réttu skertan hlut banka og fjármálafyrirtækja vegna dómsins og það gegn hagsmunum almennings. Hann og ríkisstjórnin og meirihluti Alþingis tók afstöðu gegn þjóðinni.

Enn er Árni Páll og vinstra hyskið (svo gripið sé til orðfæris vinstra mannsins Einars Kárasonar, stjórnmálamanns) jafn ráðalaust og fyrr. Hin eina bót sem almenningi stendur til boða eftir eignabrunann í kjölfar hrunsins er að mati þessa liðs ótæk. Þetta segir aðeins eitt. Pólitík vinstri manna er skelfilega fjandsamleg almenningi í landinu. Hún er auðvitað tómt skrum ef efndir fylgja ekki fögrum loforðum.

Þingmenn sem lögðust gegn og gagnrýndu leiðréttinguna en sóttu engu að síður persónulega um hana eru að sjálfsögðu uppvísir að hræsni og skrumi. Trúir þeirri kröfu sem þeir gera til annarra þá eiga þeir auðvitað tvo kosti: Segja af sér eða biðjast afsökunar (væntanlega á tvöfeldni sinni eða jafnvel einhverju öðru sem þeim dettur í hug, af nógu er að taka).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

So true!Sigurður,the truth sometimes realy hurts to think that no one,no group neither left nor right can be trusted to manage this wonderfull country that i love.

Deane Júlían Scime (IP-tala skráð) 14.11.2014 kl. 10:56

2 Smámynd: Baldinn

Ja hérna.  Er þetta þá réttlætið.  Að láta mig, lágtekjumann í leiguhúsnæði greiða lækkun á lánum fólks sem á mikklu meira en ég og hefur 3-4 falt mín mánaðarlaun.  Að auki er stór hluti þess fólks sem nú fékk gjafir frá ríkinu ekki orðið fyrir neinum forsendubrest þar sem húsnæði hefur hækkað mun meira en lánin.

Núna á málið að snúast um einhverja þingmenn sem þáðu lækkununi en voru á móti framkvæmdinni. 

Þessi aðgerð núverandi ríkisstjórnar er fáránleg, óréttlát og er eingöngu framkvæmd ( gegn vilja Sjalla, ef eitthvað er að marka hvað þeir sögðu fyrir kosningar ) til að uppfylla dýrasta kosningaloforð sögunnar frá flokki sem annars var að þurrkast út.

Baldinn, 14.11.2014 kl. 14:01

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Mér finnst nú ekki rétt að ætlast til þess að einhverjir taki ekki við þessari leiðréttingu enda er þetta engin ölmusa. Menn eiga fullan rétt á þessari lækkun hvaða skoðun sem menn hafa á aðgerðunum og líka þótt þeir hafi beitt sér gegn þeim á þingi eða hvar sem er enda ekki hægt að ætlast til þess að allir séu sammála um svona aðgerðir. Ef við förum út á þessa braut að gagnrýna einhverja fyrir að taka við þessu þá erum við komin út á hálan ís. Hvar á annars að setja mörkin? Ætti þessi leiðrétting þá kannski bara að vera fyrir hreinræktaða framsóknarmenn? Og á kannski að gera þá kröfu í framtíðinni að þeir sem eru á móti framkvæmdum eins og jarðgöngum, fari ekki þar í gegn þegar göngin eru tilbúin. Eða átti kannski að meina þeim að hringja sem voru á móti símanum í gamla daga. 

Emil Hannes Valgeirsson, 14.11.2014 kl. 17:52

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Nú er ég ekki alveg sammála þér, aldrei þessu vant. Auðvitað eiga allir rétt á þessari leiðréttingu, skiptir engu hvaða skoðun þeir hafa á henni.

Núna er þetta spurning um siðferði þingmanna sem berjast hatramlega gegn þessu en engu að síður sækja þeir um og þiggja. Einhvern veginn gengur þetta ekki upp í mínum huga. Raunar er varla hægt að líkja þessu við neitt sem upp hefur komið í íslenskum stjórnmálum. Aldrei áður hafa verðtryggingin leikið landsmenn svona grátt.

Þess vegna hefði verið ágætt að hægt hefði verið að þessir þingmenn hefði ekki þáð leiðréttinguna en getað framsenda hana til þjóðþrifamála eins og til uppbyggingar í heilbrigðiskerfinu, rétt eins og Marinó G. Njálsson og kona hans hafa lagt til. Það hefði verið gott innlegg, í bókstaflegri merkingu.

Til viðbótar má alveg snýta mörgum þingmönnum rækilega fyrir að hafa ekki frá hruni komið fólki til aðstoðar þegar eignarhluti þeirra í íbúðum brann upp í verðbólgvoðanum. Þetta tengist allt og það furðulegast er að sömu þingmennirnir, sömu stjórnmálaflokkarnir, sem neituðu fólki um aðstoð eða gerðu það með hangandi hendi gera það enn. Og ljúga núna til um að þeir sem fá núna einhverja leiðréttingu séu stórauðugt fólk sem þurfi ekki á þessu að halda. Þetta gremst mér og ábyggilega þúsundum annarra.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 14.11.2014 kl. 20:24

5 Smámynd: Elle_

Dean, ég elska landið líka en gæti fjarri lagi kallað það wonderful.  En mér finnst nú Baldinn koma með góðan punkt þarna alveg fyrst, aldrei þessu vant, og sem ég hafði aldrei hugsað. 

Elle_, 15.11.2014 kl. 00:17

6 Smámynd: Elle_

En Sigurður, fyrir utan að ég fór að hugsa um punkt Baldins, er ég alveg sammála pistlinum og þessu sem þú skrifaðir núna síðast.  Það passar engan veginn að stjórnmálamenn sem hafa hæst um fáránleikann í þessu skrefi ríkisstjórnarinnar taki við peningunum.  Þeir beinlínis lítillækka sig.

Elle_, 15.11.2014 kl. 00:29

7 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það sem ég var að reyna að benda á að það er enginn að þyggja eitthvað sem einhver hefur rétt þeim. Það er verið að skuldaleiðrétta og það er almenn aðgerð eins og það er kallað. Það má alveg gagnrýna fyrirkomulagið enda er þetta ekki eina leiðin sem hægt er að fara til að ráðstafa fé ríkisins. En að gera þá sem hafa gagnrýnt aðgerðirnar að einhverjum siðspillingjum af því að þeir sækja um leiðréttingu fyrir sínar fjölskyldur, finnst mér bara ekki réttlátt. 

Emil Hannes Valgeirsson, 15.11.2014 kl. 00:47

8 Smámynd: Elle_

Deane, fyrirgefðu ég skrifaði nafnið þitt vitlaust.  Það er ekki við hæfi.

Elle_, 15.11.2014 kl. 00:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband