Hvað er verið að spara með 4.847 skammstöfunum?

Listi um skammstafanir er í vinnslu; alls 4.847 skammstafanir og styttingar. Skýringar fylgja talsverðum hluta efnisins. Flokkunin er þessi:

Eiginleg skammstöfun: t.d., o.s.frv.
Stytting:
- Almennt: aðaleink.
- Föður- og móðurnöfn: Gunnarss., Helgad.
- Skírnarnöfn: Kr., Ág.
Tákn og stakir bókstafir: $, a.
Akróným:
Akróným I (sem kveðið er að, einstakir stafir): Kea
Akróným II (sem ekki er kveðið að): ADSL
Akróným III (sem kveðið er að, orðhlutar): Rannís
 
Ofangreint er birt á ágætri vefsíðu Stofnunar Árna Magnússonar sem er uppfull af fróðleik og upplýsingum sem allir hafa gaman og ekki síður þörf á að notfæra sér.
 
Skammstafanir eru að mínu mati algjörlega óþarfar. Þær eru nær eingöngu notaðar í ritmáli, enginn ber skammstöfun fram nema það sem er að ofan nefnt „Akróným“ sem auðvitað er ekki íslenska heldur að uppruna gríska. Látum það nú vera.
 
Ég er sannfærður um að skammstafanir og styttingar eigi uppruna sinn á þeim tíma er þörf var á að spara pláss í prentun. Þetta má rekja til blýsetningar en hafa öðlast nær því eilíft líf jafnvel þó fyrir margt löngu hafi runnið upp tölvuöld og engin þörf á að spara verðmætt pláss á prentaðri síðu.
 
Hvers vegna ætti ég til dæmis að nota skammsstöfunina „t.d.“? Af hverju ætti ég að skrifa Sigurðars. í stað Sigurðarson? Hvaða gagn er af því að segja nóv, apr, júl, sept eða des í stað þess að skrifa mánaðarnöfnin fullum fetum? Ég held því fram að skammstafanir stuðli ekki að góðum skilningi á texta sem er prentaður eða er á tölvuskjá. Hvað er eiginlega verið að spara með skammstöfunum?
 
Auðvitað eru skammstafanir bara gamaldags brúk vegna aðstæðna sem ekki lengur eiga við. Nú byggist notkun þeirra bara af leti eða hugsunarleysi. 
 
Svo er það allt annar handleggur þetta með skammstafanir fyrirtækja eða að sem á vefsíðum Stofnunar Árna Magnússon er nefnt „Akróným (leiðinlegt orð). Kaupfélag Eyfirðinga á Akureyri er langt nafn og líklega þörf á styttingunni í KEA. Hugsanlega er óhætt að segja Rannís í stað Rannsóknamiðstöð Íslands.
 
Held að RÚV sé eiginlega feluleikur, sé sett upp til að fela hlut ríkisins í nafninu. Sama er með því að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins felur nafn sitt á vefsíðu sinni sem kölluð er vinbudin.is. Þessir aðilar telja farsæll að þykjast vera eitthvað annað en ríkisstofnun og má vissulega færa gild rök fyrir þeirri afstöðu.
 
(Hér gæti ég haldið áfram mali mínu og nefnt t.d. prentað mál frá 2. nóv. '13, kl. 11:30, 14. des. '13, kl. 13:00 og e.t.v. af þessu ári, t.a.m. 1. feb. '14 og 2. júl. '14. Ýmisl. skýrist af áðurn. dæmum o.fl. o.s.frv.
 
 
 
 
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Sammála.

Skammstöfunarglaðir texta smiðir skilst ekki alltaf nema að undangenginni rannsókn á skammstöfunum þeirra.

Hrólfur Þ Hraundal, 26.10.2014 kl. 13:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband