Býr nýja hraunið til lón sunnan við Vaðöldu?

Hraunið og JöklaHvað verður um hraunið sem nú rennur frá eldsprungu í norðanverðu Holuhrauni um flæður Jöklu? Þegar litið er á landakort eða loftmynd af svæðinu sést að landi hallar allt frá Urðarhálsi í áttina að Vaðöldu. Hún er dyngja, hæsti hluti hennar er í 941 m hæð.

Sé nægur kraftur í gosinu mun hraunið halda sömu stefnu og Jökla, að sunnanverðri Vaðöldu og í gljúfrið þar. Ástæðan er einfaldlega sú að sama aflið stýrir vatni og hrauni, þyngdaraflið. Í sömu átt stefndi Holuhraun fyrir tvö hundruð árum áður en það þraut örendið. Sama gerðu hraunin sem komu úr gígum sunnan við Þorvaldartind í Dyngjufjöllum. 

Gömlu gígarnir í Holuhrauni eru í um 790 m hæð. Nýju gígarnir, þeir nyrstu, eru í um 730 m hæð og þar sem hraunið hefur náð lengst er það nú í um 680 m hæð. Hraunið hefur núna runnið lengst í norðaustur um sjö km og á þeirri leið hefur það lækkað um tæpa eitthundruð m og er rétt tæplega hálfnað á leið sinni að Vaðöldu.

Hér ætla ég að leyfa mér að vera með dálitlar vangaveltur og byggja á kortinu hér fyrir ofan en grunnur þess er frá Landmælingum Íslands og ég hef bætt inn óábyrgum hugmyndum mínum um framþróun rennslis Jöklu og hrauns.

Munum að hraunið er þykkt og getur auðveldlega hindrað Jöklu á leið sinni. Hvað gerir hún þegar hraunið er fyrir?

Við Vaðöldu hefur Jökla grafið sig dálítið niður milli dyngjunnar og hraunbreiðunnar sem liggur að fjallinu. Í þann farveg mun hraunstraumurinn líklega renna og um leið tekur fyrir rennsli Jöklu í bili. Hún mun nær tæmast fyrir neðan en vatnið mun um síðir leita sér annarrar útrásar og flæmast jafnvel inn á Krepputungu, sunnan eða norðan við við Rifnahnjúk og í Lindaá og Kreppu. Hún gæt svo sem runnið í Hvannalindir og þaðan í Kreppu.

Verði farvegur Jöklu undir Vaðöldu of þröngur mun hraunið smám fylla litla gljúfrið og þá skríða upp úr honum og dreifa sér á svæðið í kringum Rifnahnjúk, rétt eins og Jökla. Þá er nú ansi hætt við að áin lokist af og lón taki að myndast á þessum slóðum.

Á kortinu hér fyrir ofan er hugsanleg staða eftir til dæmis viku, veltur á krafti gossins. Þarna gæti Jökla átt sér þá einu leið að sameinast Kreppu sem út af fyrir sig er ekkert stórmál nema ef á leiðinni þangað muni hún eyðileggja Hvannalindir. Flestum er sárt um þá vin. Auðvitað vita allir að Jökla og Kreppa sameinast hvort eð er fyrir ofan Herðubreiðarlindir.

Þó kann að fara svo að hraunið renni aðeins vestan við Rifnahnjúk, fari ekki austan við hann. Þar gæti það haldið áfram í norður og Jökla samsíða. Þar hafa svo sem áður runnið hraun og Jökla er ekkert ókunnug á þessum slóðum og nóg er plássið.

Loki hraunið lengi fyrir rennsli Jöklu mun myndast lón við Vaðöldu og langt upp að Dyngjujökli . Um síðir myndi hún þó brjóta sér leið í gengum hraunið og finna sér gamla farveginn sinn einhvers staðar fyrir neðan. Hér endurtekur sig ábyggilega gömul atburðarás.

Rauði liturinn á myndinni merki hraunið á að giska þar sem það er í dag. Appelsínuguli liturinn er hugsanlegt hraunrennsli næstu daga. Blái liturinn er lón sem verður til ef Jökla lokst inni. Örvarnar merkja rennslisátt hrauns og vatns. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Áin kælir hraunið, hægir verulega á því eða stöðvar framskriðið alveg og það hrúgast  upp. Hraunrennslið mun aldrei geta girt fyrir ána, til að það gerist þarf meira að koma til en nú er í gangi.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 7.9.2014 kl. 15:17

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Nei, Axel, það er margt til í þessu hjá þér, en það þarf nú ekki að fara þannig. Ég held að áin mun varla ná að kæla hraunið og stöðva rennslið. Hraunið er alltaf kaldar til jaðrana. Gerist þó það að framrásin kólni verður það aðeins um stundarsakir, áin breytir um stefnu eða hraunið kemst yfir ána, jafnvel hvort tveggja.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 7.9.2014 kl. 15:35

3 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Það verður spennandi að fylgjast með framvindunni næstu daga.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 7.9.2014 kl. 16:29

4 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Það er gott að vera viss, eins og hann Axel Jóhann. 

Hraun sem lendir í mótstöðu við straumvatn, smíðar sér sitt eigið skjól og heldur áfram í því skjóli. 

Þarna eru það átök á milli þyngdarafls og hörku sem ræður för vatnsins.  

Hrólfur Þ Hraundal, 7.9.2014 kl. 16:49

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þetta eru áhugaverðar pælingar og ég ímynda mér að hraunið gæti stíflað framrás Jökulsár með þessum hætti þ.e. ef gosið heldur áfram með sama krafti í vikur eða mánuði.

Á meðan hraunelfan streymir óstorknuð eftir hrauntröðinni sem hefur myndast, þá gæti hraunið lengst talsvert. En gosið gæti líka minnkað eða dottið niður tímabundið og þá getur hraunelfan í tröðinni storknað. Hraunið þyrfti þá að byrja aftur á upphafsreit.

Emil Hannes Valgeirsson, 8.9.2014 kl. 11:34

6 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Já, þetta er eiginlega ekki flókið. Í jöfnunni þarf að vera samfellt gos, samfellt hraunrennsli og þá fellur hraunið eftir landslaginu rétt eins og vatnið. Hætti gosið verður varanleg umferðateppa á miklubraut hraunsins.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 8.9.2014 kl. 11:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband