Tvöfalda þotan á fljúgandi ferð yfir Dyngjujökli

Þota3

Furður náttúrunnar eru margar og skrýtnar. Hér segir af einni en hvort hún tilheyri náttúrunni skal nú ósagt en hitt er þó víst að náttúran er umhverfis og allt um kring.

Google birtir á vefsíðum sínum ýmsar myndasyrpur, meðal annars myndir af jörðinni sem teknar eru úr geimnum. Þessar myndir hafa gríðarlega upplausn og hægt að þysja nær endalaust inn í þær og skoða ólíklegustu smáatriði náttúru Íslands.

Margir leggjast ofan í slíkt, ekki síst þeir sem áhuga hafa á gönguferðum, landafræði og jarðfræði svo eitthvað sé nefnt af því sem undirritaður pælir jafnan í.

Þota2

Emil Hannes Valgeirsson er einn þeirra „nörda“ sem, eins og höfundur þessara lína, liggur yfir loftmyndum og stúderar þær í þaula. Um daginn rakst hann á einkennilegan blett sem hann vildi skoða nánar og er í miðjum rauða rammanum á efstu myndinni.

Myndin er af jaðri Dyngjujökuls sem er norðan við Bárðarbungu og allir ættu nú að vita hvar er. Vinstra megin á myndinni er Urðarháls, stórkostlegt fjall með miklum gíg efst í því miðju. Hægra megin eru flæður Jökulsar á Fjöllum.

Og Emil þysjaði inn í myndina. Og hvað haldiði að hann hafi fundið? Jú, farþegaþotu á fljúgandi ferð (... hvað annað?).

Þota1

Enn þysjaði hann inn í myndina og þá kom þotan glögglega í ljós. 

Emil segir á bloggsíðu sinni:

Það er svo sem ekkert óvenjulegt að farþegaþotur séu á sveimi yfir landinu enda landið í þjóðleið milli heimsálfa. Þetta er samt frekar óvenjulegt sjónarhorn á flugvél á flugi ekki síst úr þessari miklu hæð. Það má gera ráð fyrir að gervitunglið sem myndaði landið sé í 600-1000 km hæð eða allt að 100 sinnum meiri hæð en flugvélin sem þýðir að flugvélin er nokkurn vegin í raunstærð miðað við yfirborð landsins. Kannski verður lítið um flugumferð þarna á næstunni en það má þó nefna að væntanlega er vélin löngu flogin hjá enda gæti gervitunglamyndin verið nokkurra ára gömul. 

Þess má hér geta að ég er oft óþarflega tortrygginn. Um leið og ég hafði lesið pistilinn Emils var mitt fyrsta verk að kanna hvort hann væri nokkuð að plata. Viti menn, þetta er allt satt og rétt. Þarna var flugvélin bæði á Google Maps og Google Earth.

Hvað sem öllu öðru líður er þetta skemmtileg tilviljun og flokkast eiginlega sem furður náttúrunnar.

Sé einhver að velta því fyrir sér hvers vegna flugvélin er tvöföld þá er það líklegasta skýringin að sú græna sé einhvers konar speglun af þeirri hvítu.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Geir Leifsson

Sæll Siggi

Ég skrifaði skýringu á því hvers vegna myndin af þotunni kemur svona út í umræðuna hans Emils um þetta.

http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/1431254/

Björn Geir Leifsson, 24.8.2014 kl. 22:00

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Ekki er nóg að hafa vit í kollinum heldur er frekar brýnt að kunna að nota það. Tek þína skýringar trúanlegar án þess að reyna frekar á hausinn minn. Þetta er hins vegar afar fróðlegt. Bestu þakkir, félagi.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 24.8.2014 kl. 22:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband