Gýs undir jökli, á flæðunum eða bara alls ekki?

BerggangurHvað er berggangur?Slík fyrirbrigði hafa verið talsvert í fréttum þegar jarðfræðingar tjá sig um skjálftana í Bárðarbungu og nágrenni.

Hér til hægri er mynd af tveimur samliggjandi berggöngum. Þeir myndast þegar kvika úr iðrum jarðar þrengir sér inn í sprungur, víkkar þær jafnvel. Kvikan getur verið á leiðinni loðrétt upp eða út til hliða. Um síðir hættir kvikan að renna og hún storknar. Þegar bergið rofnar situr berggangurinn eftir því oft er hann úr „endingarbetra“ efni en umhverfið. Að öðrum kosti myndi það ekki rofna

Jarðfræðingar segja að glóandi kvika frá iðrum jarðar hafi verið á leiðinni upp í Bárðarbungu en mætt þar fyrirstöðu, eins og oft gerist Þá leitar kvikan til hliðar, þar sem fyrir eru sprungur eða hreinlega sprengir bergið og þrengir sér svo lengi sem fyrirstaðan er minni en þrýstingur kvikunnar.

Frá því á föstudaginn síðasta hefur feikimikill berggangur verið að myndist og og lengjast. Hann er nú orðinn meira en 25 kílómetrar á lengd. Meginskjálftarnir verða til þegar kvikan leitast við að opna sprungur og slík hreyfing er allt önnur en skjálftar sem verða vegna spennu sem myndast t.d. við landrek.

Merkilegast við bergganginn er að jarðfræðingar segja hann vera um 1,6 metra á breidd, sem hlýtur að byggja á ótrúlega nákvæmum mælingum. Þeir segja líka að hæð berggangsins sé um 2,1 km, sem er álíka mikið og hæð Hvannadalshnúks frá yfirborði sjávar. Enn er þó berggangurinn langt frá yfirborði jarðar, það er undir jöklinum. Jarðfræðingar segja að um þrír kílómetrar séu niður á ganginn.

140821 Google Maps kl 1651 b

Frá því 16. ágúst hefur það gerst markvert að skjálftarnir hafa færst að mestu frá Bárðarbungu og eru nú miðja vegu á milli hennar og Kverkfjalla, hafa SV-NA stefnu. Þeir eru komnir niður fyrir efstu drög Dyngjujökuls. Um leið hefur orðið vart fjölda jarðskjálfta við jökuljaðarinn og úti á flæðum Jökulsár á Fjöllum en hún á uppruna sinn í honum.

Dyngjujökull dregur nafn sitt líklega af Trölladyngju. Hinn gríðarlega stóri hraunskjöldur myndaðist við eldgos sem þó varð ekki undir jökli. Þess vegna gat hraunið fætt eftir landslaginu, og ekkert öskugos varð að ráði. Herðubreið er dæmi um samskonar eldgos en munurinn er sá að þá gaus undir þykkum ísaldarjökli. Það hefur án efa verið stórbrotið eldgos með miklu öskufalli. Jökullin mótaði Herðubreið. Um leið og gosvirknin komst upp úr bræðsluvatninu tók hraun að renna. Þess vegna er efsti hluti Herðubreiðar eiginlega eins og dyngja, ekki móbergsfjall eins og undirstöðurnar þó eru.

bardarbunga_dyngjuj-isor

Verði eldgos í jökli eru líkur á því að úr verði móbergsfjall, að minnsta kosti fyrst í stað. Undir Dyngjujökli kann að gjósa á langri sprungu og þá myndast ábyggilega móbergsranar eins og víða þekkjast, m.a. norðan við Kverkfjöll, þar heita Kverkhnjúkar. Gjósi í jaðri jökulsins eða úti á flæðunum fær hraun að renna svo til óhindrað. Þarna er gríðarlegt flæmi, nær rennislétt og ábyggilega langt í að hraun nái niður á láglendi og raunar litlar líkur til þess.

Þarna við upptök Jökulsár á fjöllum er Holuhraun. Þar komum við að merkilegum stað sem tengist ofangreindum atburðum. Ég vil benda hér á góðan vef Íslenskra orkurannsókna, ÍSOR, sem gefur hefur út afar góð kort og fróðleg og vefurinn er einkar athyglisverður. Á vefnum segir um Holuhraun:

Í bókum sínum um Ódáðahraun leiðir Ólafur Jónsson líkur að því að hraunið hafi komið upp í eldgosi nálægt jökuljaðrinum árið 1797. Vitnar hann í Espólín sem segir um það ár: „Þá sá Jón bóndi Jónsson í Reykjahlíð norður, réttorður maður, eldsloga nokkurra suður á fjöllum tvö kvöld um veturinn, og varð vart við öskufall; þess urðu og fleiri varir“. Ólafur rekur síðan ferðalýsingar manna um svæðið á þessum árum og dregur af þeim þá ályktun að hraunið hafi ekki verið runnið 1794 þegar Pétur Brynjólfsson fór suður með jöklinum. Hann var heimildarmaður Sveins Pálssonar sem ekki getur Holuhrauns í sínum lýsingum. Um 40 árum síðar fór Pétur Pétursson bóndi á Hákonarstöðum á Jökuldal ferð vestur með norðurjaðri Vatnajökuls og lýsir miklu „vonzkuhrauni“ við jökuljaðarinn milli Jökulsár á Fjöllum og Urðarháls. Hraunið var svo illt yfirferðar að þeir voru nærri búnir að missa hesta sína því hófar þeirra tættust sundur. Ekkert annað hraun kemur til greina en Holuhraun, sem þá hefur ekki verið orðið eins sandorpið og seinna varð. Aðalupptakagígur Holuhrauns er um 350 m utan við ystu jökulgarða Dyngjujökuls og svo virðist sem hraunjaðarinn liggi rétt utan jökulgarðanna. Athyglisvert er að leiðin sem kvikan frá Bárðarbungu virðist fara eftir núna er ekki fjarri því að stefna að upptökum Holuhrauns. Ef til vill er Holuhraun því myndað í svipaðri atburðarás og nú er í gangi. Þess ber þó að geta að við vitum ekki til þess að til séu efnagreiningar á Holuhrauni sem gætu sýnt hvort það er ættað úr eldstöðvakerfi Bárðarbungu eða Öskju. Lýsingar Guttorms Sigbjarnarsonar jarðfræðings á hrauninu benda þó fremur til Öskju.

Ekki er þó hægt að fullyrða að gosið 1797 hafi ekki náð inn undir jökulinn. Urðarrani einn mikill liggur niður jökulinn skammt suðaustan Holuhrauns og skiptir Dyngjujökli í tvær tungur. Hann er um 4 km langur og myndast slíkir urðarranar þar sem jökullinn rýfur jökulsker eða fjall sem er stutt undir yfirborði hans. Ekkert bendir þó til þess að þar sé um framhald gossprungunnar að ræða, en á hæðarlíkani af undirlagi jökulsins (í jöklabók Helga Björnssonar) er aflangt fjall eða hæð skammt frá þeim stað þar sem urðarraninn kemur upp á yfirborð jökulsins. Ekki er þekkt neitt jökulhlaup í Jökulsá á Fjöllum árið 1797 sem enn frekar styður þá hugmynd að gosið hafi ekki náð inn undir jökul. Ekki er vitað hvar jökuljaðar Dyngjujökuls lá á þessum tíma en jökullinn er þekktur framhlaupajökull. Síðast hljóp hann árið 1999 um 1250 m. 

Hér virðast vera nokkur áhöld um hvort Holuhraun sé ættað úr Bárðarbungu eða Öskju. Óneitanlega er freistandi að halda því fram að atburðirnir núna séu í líkingu við þá sem urðu 1797.

Látum nú þetta duga að sinni. Bent skal á að hægt er að láta móðan mása af lítilli þekkingu og komast jafnvel að svipaðri niðurstöðu og meiri og merkilegri menn en sá sem hér hamrar á þráðlausa lyklaborðið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Pétursson

2,1 x 1,6 x 25 = 84 km3. Það er ekkert smáræði... svo er eftir allar minni sprunur í hinar áttirnar...

1 km3 er 1000 x 1000 x 1000m = 1.000 Milljón km3  þá er þetta 84.000 milljón rúmkílómetrar, eða hvað?

Landið okkar er alltaf að gliðna og þetta er stærsta sprungan á miðju landsins (flekarek til  austurs og vesturs)  eðlilega verða svo svona uppákomur vegna þessa flekareks.  Jarðsagan er öll svona - og mikið af einmitt svona "berggöngum" t.d. eru stórir svona berggangar  lóðrétt í Digranesinu á NA landi... og  harðir eitlar standa af sér sjávarganginn og mynda "Stapa" við ströndina eins og t.d. Eldey við Reykjanes...  Dæmigert Ísland í mótun...

Kristinn Pétursson, 22.8.2014 kl. 11:58

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Já, þetta er rosalegt umrót náttúrunnar. Mundu að Hvítserkur er berggangur!

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 22.8.2014 kl. 12:10

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ath. að breidd berggangsins er 1,6 metrar en ekki kílómetrar (sbr. það sem kemur fram í bloggfærslunni).

Það gerir að rúmmál kviku í bergganginum er 0,084 ferkm. Til samanburðar komu 0,2 ferkm upp í Heimaeyjargosinu, 0,3 í Eyjafjallajökli og 15,0 ferkm í Skaftáreldum.

En hér virðist bara vera talað um kviku i bergganginum, meira magn ætti að vera sjálfu kvikuhólfinu undir sjálfri bungunni.

Emil Hannes Valgeirsson, 22.8.2014 kl. 14:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband