Danskur prófessor skilur ekki Jón og Gunnu

„Dönsku húsnæðislánafélögin hafa aldrei í 200 ára sögu kerfisins farið í gjaldþrot. Hér á Íslandi lækkuðu stjórnvöld nýverið skuldir heimila. Þið verðið að sannfæra fjárfesta um að það muni aldrei gerast aftur,“ sagði Rangvid á morgunverðarfundi Dansk-íslenska viðskiptaráðsins á Grand Hótel í gær.

Þetta er úr frétt í Morgunblaði dagsins af fundi, sem ég hélt fyrirfram að yrði afar merkilegur, en miðað við þessi orð prófessors Jesper Rangvid, veit hann ekkert hvað gerðist hér á landi í kjölfar hrunsins. Hann lætur sem að lækkun á skuldum heimilanna hafi verið einhver léttúðugur leikur stjórnvalda. Það var nú langt í frá þannig.

Vandinn við marga af innfluttum og jafnvel innlendum spekimönnum sem höndlað hafa veraldarviskuna er sá að þeir vita ekki um daglegt líf almennings, aðeins sýndarheim tilbúinna markaða og fá laun sín ómælt úr þeirri hít. Skiljanlega vita þeir lítið um annað.

Árið 2008 varð mikið efnahagskreppa í heiminum með alvarlegum afleiðingum. Hér á landi varð bankahrun og við lá þjóðargjaldþroti. Með réttu hefði prófessorinn á að segja að hið síðarnefnda mætti aldrei gerast aftur og sannfæra þyrfti fjárfesta um það.

Flestum er ... tja, andskotans sama, ... ef ég má gerast svo djarfur að orða það þannig, um markaði, fjárfestingu og annað álíka þegar skuldir þeirra rjúka upp en eignir falla í verði. Þetta skildi ekki ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms en sögðust þó ætla að slá skjaldborg um almenning en studdu hins vegar bankanna með ráðum og dáð. Núverandi ríkisstjórn stóð hins vegar í lappirnar og gerði það sem átti að gerast í upphafi stjórnartímabils áðurnefndra skötuhjúa.

Vandinn er hins vegar sá að fjármagnið í stórum kippum er mun áhugaverðara og skemmtilegra viðfangsefni en hin þunna budda Jón og Gunnu. Sem betur fer hafa þau kosningarétt sem gerir vægi þeirra meira.

Vörum okkur hins vegar á ráðgjöfum sem bera ekki skynbragð á efnahagslegar þarfir Jóns og Gunnu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Sigurður, þú skrifar: „Flestum er ... tja, andskotans sama, ... ef ég má gerast svo djarfur að orða það þannig, um markaði, fjárfestingu og annað álíka þegar skuldir þeirra rjúka upp en eignir falla í verði."

Margir hugsa svona, en ég ég vona að það sé ekki meirihlutinn, því þetta er eitthvað sem fólk verður að hugsa um. Ef maður tekur lán á vöxtum sem geta hækkað, eða myntkörfulán, þá verður fólk að vera meðvitaður um að skuldabyrði getur hækkað.

Wilhelm Emilsson, 3.7.2014 kl. 01:40

2 Smámynd: Wilhelm Emilsson

„verður fólk að vera meðvitað" átti þetta að vera

Wilhelm Emilsson, 3.7.2014 kl. 01:41

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Það sem átt er við er að hver einstaklingur hugsar fyrst og fremst um sinn eigin hag, fjármál, húsnæði, fjölskyldu og álíka. Annað er aukaatriði.

Myntkörfulán hafa nú verið dæmd ólögleg og lánveitendur hafa þurft að endurgreiða ofgreiðslu.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 3.7.2014 kl. 12:36

4 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Takk fyrir svarið, Sigurður.

Ég er sammála þér um það að hver einstaklingur hugsar fyrst og fremst um eigin hag. En eins og þú bætir við eru fjármál og húsnæði hluti af eigin hag. Til að hugsa af viti um eigin hag verður einstaklingurinn af hafa lágmarksvit á fjármálum--annars getur allt farið í svaðið--og allt sem tengist fjármálum og húsnæði tengist „markaði, fjárfestingu".

Eru myntkörfulán alveg ólögleg núna? Samkvæmt því sem ég las á Wikipedia féllu dómar á báða vegu, en myntkörfulán í bílasamningum voru dæmd ólögleg.

Að taka myntkörfulán er „gengisbrask", sem er mjög áhættusamt. Ég veit dæmi um að bankarnir pressuðu á fólk að taka slík lán. En lágmarks þekking á fjármálum sýnir hve áhættusamt það er. Í greininni um myntkörfulán á Wikipedia kemur fram að þetta var inni í umræðunni fyrir hrun:

Í viðtali við Fréttablaðið árið 2004 sagði Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, „að þó svo að myntkörfulán kunni við fyrstu sýn að virðast mun hagstæðari en lán í krónum þá væri vert að hafa í huga að þau feli í sér áhættu. Það sýnir ekki rétta mynd að reikna slíkt lán út frá óbreyttum forsendum miðað við daginn í dag. Gengið hreyfist til og frá og svo geta vextir líka breyst erlendis, rétt eins og hér heima“.

En margir virðast hafa trúað því að krónan væri stöðug og sterk, þrátt fyrir að sögulega séð hafi hún ekki verið það.

Wilhelm Emilsson, 3.7.2014 kl. 20:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband