Er nokkur skaði þó örnefni týnist?

Finnst ekki úr vegi að endurbirta gamlan pistil um örnefni. Ég er nefnilega á þeirri skoðun að ekki sé mikill skaði þó örnefni týnast. Þau hafa týnst í gengum aldirnar og því fylgir enginn vandi vegna þess að önnur koma þeirra í stað. Og frelsi til að búa til ný örnefni á að vera mikið. Sumir átta sig ekki á því en á hverju ári verða til fjölmörg örnefni og það sem meira er, sum þeirra festast í sessi. Önnur, jafnvel „betri“ örnefnum er hafnað eða þau ná ekki fótfestu. Svona er bara lífið.

Fyrir handvömm var ritað Skógarfoss í stað Skógafoss á skilti við Skóga og segir frá þessu á mbl.is. Ég skrifaði í fljótheitum dálítinn pistil og fékk nokkrar athyglisverðar athugasemdir frá glöggum lesendum. Þar sem ég hef dálítinn áhuga á örnefnum ætla ég að halda hér áfram. Ef til vill endurtek ég eitthvað af því sem ég hef áður skrifað um álíka efni en það er varla til skaða.

Flestir vita að örnefni tapast eftir því sem kynslóðir hverfa og þannig hefur það áreiðanlega verið frá upphafi. Menn hafa nefnt staði, kynslóðir geymt örnefnin, gleymt sumum, búið til önnur. Í ljósi þessa má spyrja sig hvort það sé mikill skaði þótt örnefni týnist.

Breytt landnotkun 

Já, ég fullyrði það. Gaman væri til dæmis að vita hvað Eyjafjallajökull var nefndur um árið 1000. Af Njálu má ráða að hann og Mýrdalsjökull hafi borið síðarnefnda nafnið. Það finnst okkur sem þekkjum dálítið til á þessum slóðum frekar ólíklegt.

Breytt landnotkun breytir mikilvægi örnefna. Land breytist nú hröðum skrefum frá því að vera nær eingöngu fyrir landbúnað og í að vera meira fyrir ferðafólk af ýmsum þjóðernum. Hin breytta landnotkun felur t.d. í sér að ferðamönnum fjölgar og þeir hafa annan skilning og aðra þörf fyrir örnefni en fjárbændur og hestamenn liðins tíma. 

Skortur á örnefnum 

Þá kemur skyndilega í ljós gríðarlegur skortur á örnefnum. Hvernig á að rata ef örnefnin eru ekki til hjálpar til að gefa umhverfinu gildi. Skipta örnefni einhverju máli nema til skrauts? Við getum ferðast um landið eftir korti á skjá þar sem ekkert annað en landslag er sýnt, aðeins punktar sem segja til um hæðir og línur sem gefa til kynna bratta.

Í stuttu máli er sú spurning æ áleitnari hvort það sé ekki öllum að skaðlausu þótt örnefni týnist. Sé svarið við spurningunni jákvætt þá nær það ekki lengra. Sé það neikvætt þarfnast það rökstuðnings. Raunar er það svo að almennt er talinn missir af týndum örnefnum og þeim þætti sem þau hafa gengt í sögu og menningu okkar.

Búa til örnefni

Um leið kviknar sú spurning hvernig örnefni verða til og hvor ekki sé í lagi að búa til örnefni þar sem þau vantar. Þarf að leita til opinberra aðila til að fá samþykki eftir öllum krókaleiðum. Ég held að örnefni eigi einmitt að fá að verða til og ná fótfestu, ekki þurfi meðalgöngu stjórnvalda til þess. Eða hver ættu viðurlögin að vera við því að til verði örnefni sem stjórnvöldum er í nöp við en almenningi þykir vænt um? Og hverjum á eiginlega að refsa? Þeim sem missti það fyrstur út úr sér eða þeim sem fyrstur setti það á blað eða kort?

Refsing? 

Svo er það hitt, að ef refsivert sé að búa til örnefndi eða segja örnefni vera til sem stjórnvöld hafi ekki samþykkt hvað á þá að gera vegna þeirra sem fara rangt með örnefni? Er það ekki jafnrefsivert? Svo dæmi sé tekið úr fyrri pistli, mætti hegna þeim sem kallar Heiðarhorn Heygarðshorn og Útigönguhöfða Útigangshöfða? 

Og nú komum við loks að því sem nokkrir ágætir menn nefndu í athugasemdum við pistilinn minn og það getum við kallað misnotkun á örnefnum. Hún er yfirleitt óviljandi og reiknast fyrst og fremst á þekkingarleysi sem er illfyrirgefanlegt hjá blaða- og fréttamönnum og leiðinleg þegar við hin eigum í hlut.

Ómar Bjarki Smárason, jarðfræðingur, og góður og íhugull vinur á blogginu nefnir í athugasemd þá áráttu að bæta erri í nöfn á stöðum, ekki aðeins er Skógafoss kallaður Skógarfoss heldur vekur hann athygli á að sveitarfélagið Fjarðabygg sé oft skrifað Fjarðarbyggð.

Jón Ketilsson segir um Bröttubrekku:

Mér skilst að sú brekka heiti Brattabrekka eftir fjalli sem heitir Bratti.  Ekki af því hún sé brött. Svo það ætti að vera "að fara um Brattabrekku". 

Ég kannast ekki við þetta fjall. Leitaði smávegis að því í bókaflokknum „Landið þitt Ísland“, sem ég glugga oft í, og einnig skoðaði ég kort í mælikvarðanum 1:100.000 en fann ekki þetta fjallsheiti.

Ómar Ragnarsson virði ég manna mest, þekking hans er drjúg. Hann nefnir þá áráttu sumra að setja ákveðinn greini við örnefni og heiti. Þetta hefur mér í mörgum tilfellum fundist afar broslegt. Minnir mig á móður eins kunningja míns sem segist iðulega hafa farið í Hagkaupið eða Bónusið og sonurinn hló.

Fólk gengur iðulega á Esjuna en enginn segist hafa farið á Þverfellshornið, Kerhólakambinn eða Mosfellið. Þaðan af síður fara menn á Akureyrina eða Reykjavíkina nema ef svo vilji til að þetta sú til dæmis nöfn á bátum eða skipum.

Ég heyri þó æ fleiri segjast hafa ferðast um Vestfirðina. Mér finnst það líka ótækt, sérstaklega ef það kemur fyrir á prenti. Vestfirðir eru nú aðeins nafn á landshluta, það er til dæmis ekki yfirnafn á Dýrafirði. 

Gunnar Magnússon nefnir stórmerkilegan hlut sem ég hef ekki tekið eftir. Hann segir að skilti í Kollafirði, þeim sem er fyrir sunnan Steingrímsfjörð, bendi vegfarendum á Kollafjarðaheiði en ekkiKollafjarðarheiði. Vonandi er búið að laga þetta enda er þarna aðeins einn Kollafjörður nema heiðin sé nefnd eftir báðum Kollafjörðum landsins, þessum og þeim í Faxaflóa.

Olgeir Engilbertsson, bóndi í Nefsholti, og gamall vinur minn, segir:

Ég lendi oft í svipuðum ógöngum með Lambafitarhraunið sem flestir skrifa Lambafitjarhraun. Það var ein Lambafit sem fór undir þetta hraun 1913 og ég get ómögulega samþykkt J í nafni hraunsins.

Þarna erum við loks komin að kjarna málsins. Olgeri segir frá mennngarsögulegri staðreynd, svipaðri þeim sem ég nefndi hér á undan. Það sem hann segir réttlætir örnefni enda hluti af menningu þjóðarinnar. (Ég tek eftir því að Olgeir notar ákveðinn greini á örnefnið enda eflaust réttlætanlegt í ljósi samhengisins.)

En það er annar kjarni máls sem vert er að vekja athygli á í þessu sambandi og það er fótakefli margra okkar, ritun tungumálsins. Á sama hátt og við ætlumst til þess að rétt sé farið með örnefni verður að gera sömu kröfu um að tungumálið sé rétt ritað, að við höfum samning um ritun íslenskunnar. Í hvort tveggja, tungumáli og örnefnum er fólginn ákveðinn skilningur sem á að vera sameiginlegur okkur öllum sem búum hér á landi.

Læt ég þessu nú lokið enda alltof mikið skrifað og stefni út í hafsauga miðað við það sem ég ætlaði mér í upphafi. 


mbl.is Endurskoða lög um örnefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elle_

Of mikið af r-um er bætt inn í heiti, eins og kom fram frá Ómari jarðfræðingi.  Bolungarvík ætti að vera Bolungavík, Laugarnes ætti að vera Lauganes og Laugarnesvegur Lauganesvegur, komið af bolungum og laugum, ekki einni laug.  Svo kemur ósamræðið í sama (lauga)hverfi: Skrifað er Laugadalur, Laugalækur og Sundlaugavegur, eins og ætti að gera. 

Orðið fit beygist að mínu viti fit, fit, fit, fitjar.  Lambafitjarhraun væri þannig rökrétt ef um var að ræða 1 lambafit.  Hafi verið 2 + lambafit, væri orðið samkvæmt mínum skilningi Lambafitahraun.

Elle_, 2.4.2014 kl. 17:01

2 Smámynd: Elle_

Ósamræmið, ekki ósamræðið.

Elle_, 2.4.2014 kl. 17:02

3 Smámynd: Elle_

Líklega beygist það fit, fit, fiti, fitjar.

Elle_, 2.4.2014 kl. 19:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband