Rjóminn og gistiþjónustan

Þrátt fyrir létta gagnrýni mína á Moggann í gær fyrir dálítið einhliða uppsetningu á frétt um leiguverð á íbúðum fyrir ferðamenn þá bregst hann ekki í dag. Í fréttaskýringu á leiðaraopnu er greinin „ Rjóminn fleyttur af gistiþjónustunni“ eftir Kristján Jónsson, blaðamann.

Fyrirsögn greinarinnar á við að margir einstaklingar leigja út íbúðir sínar en gefa tekjurnar ekki upp. Þessi svarta leigustarfsemi er auðvitað stórt vandamál, ekki aðeins fyrir ríkissjóð heldur skekkir hún samkeppnisstöðu fyrirtækja í ferðaþjónustu. Vart þarf að hafa um það mörg orð að sá stendur óumdeilanlega betur að vígi sem greiðir ekki skatta og gjöld en hinn sem samviskusamlega telur rétt fram. Hinn fyrrnefndi fleytir óumdeilanlega rjómann af gistiþjónustunni. 

Þó ég sé í aðra röndina dálítill aðdáandi svartrar atvinnustarfsemi vegna dugnaðar og sjálfsbjargarviðleitni sem oft bitist í slíku getur maður ekki orða bundist út af gistiþjónustunni. Í sannleika sagt er ekkert nýtt í þeirri atvinnugrein. Hún gengur út á að sinna frumþörfinni, hvíldinni. Í grunninn sofa allir eins, meðvitundarlausir og væntanlega eins og börn ... Hins vegar getur umgjörðin og þægindin í kringum þjónustuna verið mismunandi og á því byggst verðlagningin oftast.

Gisting í gömlum, uppgerðum bílskúrum eða kjallaraherbergjum er varla eftirsóknarvert og ekkert nýjabrum í slíku nema síður sé. Ég hef skoðað fjölda vefsíðna þar sem verið er að gylla gistinguna og jafnvel skoðað mörg herbergi og íbúðir. Því miður verður að segja eins og er að sumt af þessu er ekki merkilegt og í litlu samræmi við myndir og alls ekki verðlagninguna. Og allir sem ég ræddi við hafa litlar áhyggjur af skattinum því í fæstum tilvikum er boðið upp á annað en handskrifaða kvittun fyrir greiðslu

Næst á dagskránni hjá Morgunblaðinu er að gera mann út af örkinni til að skoða gistingarnar og taka myndir. Afraksturinn verður án efa afar forvitnilegur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband