Steinhússmýri sigraði Elskubæ í fótbolta

Baksíðan á Mogganum í morgun er harla skemmtileg. Hún er eiginlega lögð undir íþróttir og sérstaklega vekur stóra myndin athygli, nokkrir kallar sem mynda stuðningsmannafélag Leeds, sem er knattspyrnufélag í samnefndri borg á Englandi.

Einu sinni var Leeds stórveld en er það ekki lengur. Man eftir að ríkissjónvarpið sýndi stundum nokkurra daga gamla leiki félagsins í deild hinna bestu. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Félagið hefur átt í barningi í fjölmarga áratugi, svamlað í neðri deildum og flest verið því mótdrægt á knattspyrnuvellinu.

Þetta minnti mig á menntskólaárin. Ég kom inn í fjórða bekk í Menntaskólann í Reykjavík og lenti í eftirminnilegum bekk sem ég sat einn vetur. Þar kynntist ég eiginlega í fyrsta sinn alvöru KR-ingum, sem þó tóku mér vel, Valsaranum, tja, bara alveg ágætlega. Svona menn þekkti ég ekki, lagði sjaldnast leið mína í Vesturbæinn, yfirráðasvæði KR, nema ég væri tilneyddur. Og til hvers hefði Valsari sosum átt að fara þangað?

Man að Skúli bróðir minni fullyrti við mig þegar ég var smápatti að KR væri versta fótboltalið í heimi. Og veistu hvers vegna? spurði hann, og svaraði spurningunni um leið: Það er vegna þess að KR-ingar verða svo montnir ef þeir skora mark. Þessi rök þóttu mér afar sterk og var harður andstæðingur KR þangað til daginn sem ég leiddi eldri son minn, þá nýorðinn sex ára, inn á fyrstu æfinguna hjá félaginu. Þá var ég fluttur í Vesturbæinn en Skúli bróðir hafði búið þar lengur en ég man. Fram til dauðadags hélt hann með KR. Ekki veit ég hvernig á sinnaskiptum hans stóð og við ræddum það oft en hann hló bara og gerði grín að mér. Hins vegar mun það enn vera svo að KR-ingar varða afar montnir af hverju marki sem þeir skora, og þau eru mörg og öll gagnleg. Hann ýkti ekkert um þá hluti.

En það var þetta með KR-inganna í bekknum mínum í Menntaskólanum í Reykjavík. Margir hverjir spiluðu þá með öðrum flokki, strákar eins og Guðmundur Jóhannesson, Gunnar Ingimundarson, Guðjón Borgar og Gísli Gíslason. Í þessum bekk var starfandi fótboltafélag og þá var í tísku að nefna þau eftir enskum. Okkar hafði einhvern tímann fyrir mína tíð fengið nafnið Steinhousemuir (Steinhússmýri) og ku hafa verið nefnt eftir skosku félagi í samnefndum bæ. Þar var og er starfandi fótboltafélag sem aldrei hefur gert garðinn frægan en þráast þó við, sem betur fer, ætti maður eflaust að segja. 

Helstu andskotar okkar voru í fimmta bekk og nefndu lið sitt hinu elskulega nafni Darlington eftir enskum bæ. Afrek þess hafa verið nokkur en fæst þess eðlis að það taki því að rifja þau upp hér. Með þessu MR-liði léku nokkrir sprækir KR-ingar. Í augnablikinu man ég eftir Þorláki Björnssyni og Sigurði Helgasyni. 

Í úrslitaleiknum léku sum sé Steinhousemuir og Darlington á gamla Melavellinum. Mikið var viðhaft, Guðni rektor var heiðursgestur og tók í spaðann á öllum leikmönnum eins og við værum á Wembley. Og svo hófst leikurinn ... en minningin um hann hefur fyrir löngu veðrast og horfið út í veður og vind. Þó man ég það eitt að við unnum, voru besta liðið, skólameistarar í MR.

Jú, og eitt man ég og það var að við Guðmundur Jóhannesson sem nú er ljósmyndari, vorum markahæstir í Steinhousmuir í skólamótinu. Aðrir komust varla á blað ... held ég. Ég lék á kantinum en Gummi var senter. Ég var dálítið óstýrlátur og man eftir því að Gunnar Ingimundarson, fyrirliðinn, tók mig fyrir leik eftir leik og öskraði að ég ætti að halda mig á kantinum og bíða. Jafnvel þegar ég stalst inn á miðjuna og skoraði mark á tók hann mig fyrir og skammaðist. Auðvitað var þetta rétt hjá honum, ég vissi það. Hins vegar hafði ég aldrei áður leikið á kantinum, var eiginlega oftast sem sentir. Það varð líka úr að Gunni setti mig í þá stöðu og eftir það vorum við sáttir. Verst að ég á enga mynd af þessu fræga bekkjarliði.

Og þetta var nú tengingin við baksíðu Moggans í dag. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband