Bjarni Benediktsson borinn röngum sökum

Hvernig á að taka á dómstóli götunnar sem dæmir rangt? Hvað á að gera vegna almanaróms sem reynist rangur? Hvað á að gera þegar saklaus maður er tekinn af lífi? Það er einfaldlega ekki nóg að yppa öxlum og segja á útlensku að þetta sé bara einhvers konar „collateral damage“ eða réttlætanlegt tjón vegna annarra og merkilegri mála.

Eina ferðina enn er ráðist á Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins. Á vefsíðu Jónasar Kristjánssonar var eftirfarandi að finna í gær: 

Loksins eru ný skjöl um íslenzka bankaglæpi komin í dagsljósið. Opnuð hefur verið heimasíða AWP, Associated Whistle-Blowing Press. Það er stofnun, sem stendur að opinberri birtingu gagna um íslenzka hrunið. Þar eru þegar komin gögn um Glitni.  [...] Feitasti bitinn er svo lánalistinn. Þar eru veðlaus lán til vildarvina, þar á meðal 5.967.126.000 króna lán til Bjarna Benediktssonar. Þú getur skoðað þetta á heimasíðunni. Umræða er hafin á fésbók minni.

Um er að ræða upplýsingar sem fram koma á vefsíðunni ljost.is og fésbókarsíða Jónasar fitnaði.

Í dag er allt annað uppi hjá honum og var hann nauðbeygður að biðjast afsökunar, gerði það þó með fyrirvara:

Nú seint á níunda tímanum var hinn umdeildi texti tekinn út af heimasíðu AWP. Þar með hefur verið viðurkennt, að hann var rangur. Settur var inn nýr texti, sem segir þetta vera hluthafaskrá. Birgitta tjáði sig nokkru síðar á fésbók, en sagði ekkert um þetta mál og baðst ekki afsökunar.

DV tók líka hressilega við sér í gærkvöldi og fögnuður blaðsins yfir því að hafa nú fengið einhverjar haldbærar ávirðingar á Bjarna Benediktsson var hreinlega áþreifanlegur.

Fjölmargir lesendur tóku til máls í athugasemdakerfinu og mannorðstilræðislýðurinn réði sér vart fyrir kæti.

Svo lekur loftið úr blöðrunni og í ljós kemur að þetta er allt á misskilningi birt. Úbbs ...

Það dugar samt ekki fyrir þá sem eiga aðeins eina ósk og hún er sú að koma höggi á Bjarna Benediktsson, skiptir engu hvað hann segir, hvað hann hefur gert. Söguburðurinn skal aldrei líða fyrir sannleikann.

Ekki vantar að Birgitta Jónsdóttir, þingmaður, reyni að gera sér mat úr þessu öllu, án þess þó að biðjast afsökunar á því að hafa haft mann fyrir rangri sök. Hún segir á dv.is:

Það má segja að ég sé guðmóðir þeirrar hugmyndafræði sem er á bak við þessa síðu,“ segir Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata um lekasíðuna ljost.is. Birgitta segist ekki standa á bak við síðuna en hún er listuð á henni á meðal stofnenda hennar, Guðmundi Ragnari Guðmundssyni, talsmanni síðunnar, og Pedro Noel og Santiago Carrion, sem eru ritstjórar hennar.

„Það er ekki þannig að ég sé að vinna í einhverjum lekum en ég er sammála þeirri hugmyndarfræði sem er þarna á bak við, að gera fólki kleift að koma á framfæri gögnum án þess að það sé rekjanlegt. Ef þú verður vitni að einhverju sem er siðlaust eða glæpsamlegt þá er þetta miðill sem þú getur notað til þess að koma því á framfæri.

Nú er það eitt eftir, að við sem höfum orðið vitni að því sem kalla má „siðlaust og glæpsamlegt“ þurfum að koma því á framfæri. Málið varðar siðlausa og tilefnislausa árás á Bjarna Benediktsson og fullyrða má að hún er glæpsamleg. Í lögum segir að ólöglegt sé að bera menn óréttmætum sökum. Er ekki einfalt að lýsa sök á hendur vefsíðunni ljost.is og aðstandendum hennar.

Er réttlætanlegt að fólk komist upp með að ljúga sökum upp á aðra og þegar sökin reynist á misskilningi byggt geti þetta lið bara yppt öxlum og talað sig út úr málinu? Ég segi NEI.

Hér er alvarleg þversögn í hugmyndafræði ljost.is. Menn geta ekki stundað ofangreinda hugmyndafræði og kunna ekki til verka. Þannig hugmyndafræði krefjast þekkingar, reynslu og jafnvel menntunar. Birgitta virðist vaða áfram með óljósan ásetning en gerir svo öðrum rangt til vegna þess að hún er illa að sér, þekkinguna skortir. Henni finnst í lagi að skjóta fyrst og spyrja svo.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn R. Pálsson

Upphæðin var ekki rétt, en skiptir það öllu máli? Gjörningurinn var hinn sami.

Sveinn R. Pálsson, 30.12.2013 kl. 20:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband