Fimmtíu ár á milli tveggja loftmynda af Reykjavík

NordurstrondMats Wibe Lund er frábær ljósmyndari og hann svo lengi tekið myndir hér á landi að hann man ekki aðeins tímanna tvenna heldur getur fært sönnur á að umhverfið hefur tekið miklum breytingum til dæmis á fimmtíu árum.

Hérna eru tvær myndir sem Mats tók og ég sá á Fésbókinni. Vonandi fyrirgefur hann mér að ég tek þær hér og geri að umfjöllunarefni án leyfis. 

Á myndunum horfum við til austurs og sjáum við Borgartúnið og Laugaveginn. Á efri myndinni, neðst vinstra megin er Rúgbrauðsgerðin sem nú ber það heiti. Á móti er bogadregið hús sem lengi var í eigu borgarinnar, notað undir skrifstofur. Þá sjáum við hús Vegagerðarinnar og þar austast í því var Bifreiðaeftirlitið, skoðunarstöð ríkisins og þar fékk maður ökuskírteini.

Höfði er lengst til vinstri og móar í kringum hann. Við nánari rýningu sjáum við Klúbbinn og Sundlagarnar í Laugardal eru ekki enn byggðar.

Vinstra megin við Laugaveginn eru þrjú háhýsi sem standa við Hátún. Þarna er Mjólkursamsöluhúsið, Víðishúsið og svo Hekla. Móarnir eru út um allar trissur og mitt í einum reitnum er verið að byggja Laugardalshöllina. Hins vegar er Úlfarsfell, Grimmansfell og Hengill þarna rétt eins og í dag.

Nordurstrond2

Mats Wibe lund er snjall og birti mynd tekna í svipaðri hæð, á álíka stað og enn er horft í austur, trjágróðurinn er áberandi. Myndin var tekin 2013.

Þrennt vekur athygli mína. Móarnir eru horfnir, borgin er miklu grænni en áður var og handan við Grafarvog er komin mikil byggð, alveg uppundir Úlfarsfell.

Svo hefur ströndin færst fram, er norðar. Húsum hefur fjölgað. 

Takið líka eftir því að braggarnir sem voru við Borgartún eru auðvitað allir farnir.

Óskaplega væri nú gaman að geta farið aftur í tímann og skoðað borgina 1963, þegar hún var bara bær.

Sjaldan man ég neitt úr kennslustundum í gamla daga. Þó man ég eitt sem handavinukennarinn í Langholtsskóla sagði einu sinni. Það var ekki minni maður en hann Sigfús Halldórsson: Af hverju er ekki íbúðabyggð skipulögð með sjónum í stað þess að setja þar fyrirtæki? Og svo velti hann þessu fyrir sér í kennslustundinni meðan við krakkarnir teiknuðum. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband