Auðvelt að hefta úrbreiðslu lúpínu

Hestur

Einn af fróðlegustu og skemmtilegustu fébókarhópum sem ég skoða reglulega er „Vinir lúpínunnar“. Málið er að mér hefur lengi þótt væntum þessa bláu og fallegu jurt sem um þessar mundir skrýðir landið enda í fullum blóma. Ég læt mér í léttu rúmi liggja illar ásakanir um að lúpínan sé innflytjandi í íslenskra flóru, ekki upprunaleg og þar sem hún er ekki af víkingaættum eigi að útrýma henni rétt eins og grenitrjám. Þessu er ég nú ekki sammála.

Ég hef lesið nokkuð um lúpínuna og meðal annars birt dálítið hér á þessu stað um rannsóknir á henni. Margir halda því fram að lúpínan vaði yfir íslenskar jurtir og eyði þeim. Þetta er nú ekki allskostar rétt þó satt sé að lúpínan hörfi víða hægar en vonir stóðu til. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að hún vex og dafnar þar sem enginn gróður var fyrir og hjálpar þannig til við að klæða landið, myndar mold og bætir nitur í jarðveg.

Á visir.is birtist fyrir skömmu frétt um útbreiðslu lúpínu við Grenivík, í svokölluðum Þengilshöfða. Þetta er haft eftir sveitarstjóranum, Guðnýju Sverrisdóttur:

Við erum að spá í hvort það eigi að útrýma lúpínunni eða ekki. Sumum finnst ömurlegt að hafa lúpínu og öðrum finnst það bara fallegt,“ segir Guðný sem ítrekar að endanleg ákvörðun hafi ekki verið tekin. Of seint sé að eitra á þessu ári.

„Ef það verður ákveðið þá tekur það tuttugu ár og við þurfum að leggja töluverða peninga í það. Annað hvort byrjum við á næsta ári eða við hugsum ekki um þetta því það verður alltaf erfiðara og erfiðara að útrýma lúpínunni eftir því sem hún breiðist út. Hún stoppar ekki.

Á fésbókinni urðu miklar umræður um orð sveitarstjórans. Til að gera langa sögu stutta kemur fram hjá Vinum lúpínunnar að besta leiðin til að losna við lúpínu er skógrækt.

Aðalsteinn Sigurgeirsson, skógfræðingur, segir:

Á einn hektara í Grýtubakkahreppi væri hæfilegur skammtur af birki 2400 plöntur (gróðursettar með 2 x 2 m millibili). Vinnukostnaður: eitt dagsverk fyrir tiltölulega óvanann mann. Væri gróðursetning undirbúin með herfingu (TTS; og með því stikaðar út línur fyrir gróðursetningu) mætti í leiðinni draga úr samkeppni við gróðursettu smáplönturnar fyrsta árið, og komast af með ódýrar, ársgamlar trjáplöntur. Þá væri þetta varla nema nokkurra klukkustunda verk.

Annar mætur skógfræðingur, Einar Gunnarsson, bætir við:

Varðandi skógræktaráætlun Aðalsteins má bæta við að kostnaður væri um það bil eftirfarandi: Herfing með TTS herfi Kr. 14.000.- plöntur og gróðursetning kr. 150.000.- Flutningur á herfi, gróðursetning og umsjón (há tala vegna þess að aðeins er um að ræða 1 ha.) Ca. 100.000.- Samtals 264.000.- Núvirði eftir 20 ár u.þ.b. 2 milljónir króna.

Ljóst er að sveitarstjórinn þekkir ekki vel til og gæti sparað sveitarfélagi sínu talsverðar fjárhæðir ef hún hlustaði á menn eins og Aðalstein og Einar. Náttúrulegar aðferðir duga yfirleitt betur auk þess er alkunna að betur vinnur vit en strit.

Mikið óskaplega líður mér alltaf betur þegar ég uppgötva að það sem sumu fólki virðist vera óyfirstíganlegt vandamál er einungis smávægilegt verkefni. Lykillinn er alltaf upplýsing. 

Þessa fallegu mynd sem fylgir hér tók Ragnar Th. Sigurðsson, frábær ljósmyndari, af hesti í lúpínubreiðu. Birti hana hér án leyfis en vona að Raggi fyrirgefi mér. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Kannski bara málið að nota hesta til að traðka niður lúpínuna.

Annars er ég bæði á móti lúpínu- og skógrækt. Vil helst að sem minnst sé verið að eiga við landið.

Emil Hannes Valgeirsson, 1.7.2013 kl. 11:08

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Ef ég hefði sagt þetta, Emil, hefði ég samstundið verið úthrópaður og bannfærður. Hins vegar skil ég svo mætavel hvað þú átt við. Vilt að landið fái tækifæri til að rétta úr kútnum á „eigin forsendum“. Þetta eru rök sem ber að virða rétt eins og hinna sem vilj hjálpa til við að gærða upp landið. Þarna vegast á margvíslegar skoðanir og erfitt að fullyrða að ein sé réttari en önnur.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 1.7.2013 kl. 11:27

3 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

"Stöðugleiki" íslensks lífríkis verður ekki tryggður með því einu að uppræta lúpínu og fyrirbyggja skógrækt. Naturam expellas furca, tamen usque recurret (Þótt náttúran sé lamin með lurki, leitar hún út um síðir).
Vilji menn tryggja 'status quo' í rofinni, gróðursnauðri ásýnd Íslands gæti lausn legið í að varpa nifteindasprengjum á lúpínubreiður og skóga. Sbr. "Þar gætu nifteindasprengjur hins vegar komið betur að notum þar sem þær mundu valda hlutfallslega meira tjóni á mönnum og lífríki en minna tjóni og ekki eins varanlegu á mannvirkjum og líflausu umhverfi."
http://visindavefur.is/svar.php?id=376

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 1.7.2013 kl. 11:27

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Já ég er aðallega að meina að náttúran þróist á sínum eigin forsendum - það þarf ekki að vera það sama og "status quo".

Emil Hannes Valgeirsson, 1.7.2013 kl. 12:16

5 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Forsenda er (skv. Wikipediu) "óbein ályktun sem er talin vera sönn í samræðum".  Dæmi um forsendu væri t.d. „eiginmaður minn er grannur“ þar sem það er ályktað viðkomandi eigi eiginmann.
Í náttúruverndarlögunum sem samþykkt voru skömmu fyrir þinglok í vor segir (í 1. grein) að þau eigi "að tryggja eftir föngum þróun íslenskrar náttúru á eigin forsendum". Í drögum að sömu lögum var sagð að "íslensk náttúra skyldi þróast eftir eigin LÖGUMÁLUM". Enginn hefur mér vitanlega leitað eftir frekari ritningarskýringum um hverjar "forsendur íslenskrar náttúru" eru, hvað þá "hennar eigin lögmál". Væntanlega liggur valdið hjá umhverfisráðherra hverju sinni til þess að skýra forsendur og lögmál ísl. náttúru út fyrir okkur óþvegnum almenningi.
http://www.althingi.is/altext/lagas/141b/2013060.html

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 1.7.2013 kl. 12:56

6 identicon

Mikið er gott að þú sért ekki blóma rasisti eins og hann Emil sem vill bara örfoka land og mela, eins og það var á söndunum fyrr á árum þegar að það var mjög algengt að bílar voru sendir þangað í sandblástur fyrir sprautun, en ekki hægt nú til dags vegna blessaðrar lúpínunnar.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 1.7.2013 kl. 15:36

7 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Blóma rasisti er gott orð.

Emil Hannes Valgeirsson, 1.7.2013 kl. 15:42

8 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Blóma-rasisti ... hmm, eitthvað svo fagurt og orginal ...

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 1.7.2013 kl. 15:59

9 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Staðreyndin er einfaldlega sú að íslenskur jarðvegur er skelfilega rýr og enn verr farinn eftir uppblástur í kjölfar ofbeitar og gróðureyðingar í aldir, en nokkur reiknaði með. Lúpínan þrífst einungis í snauðum rýrum jarðvegi en safnar í hann lífsnauðsynlegum nitur (nær ein allra planta) og hleður honum upp og hverfur svo á brott þegar jarðvegurinn er orðinn næringaríkur og öflugur fyrir fjölbreyttan og öflugan gróður.

Það er engin hætta á að á Íslandi verði ekki alltaf einhver svæði sem henta einungis þeim harðgerðu plöntum sem nú vaxa á jarðvegslausum melum sem lúpínan getur gert að gróðurvinum á nýjan leik eins og var um aldir og árþúsundir áður en menn og búfé mættu á svæðið og á milli ísalda þegar hér uxu t.d. yfir 20 tegundir skógartrjáa.

Lúpínan er frábær jurt til að endurheimta eðlilegt íslenskt gróðurríki.

Ef menn vilja uppræta plöntur sem vaða yfir annan gróður þá yrðu þeir að horfa fyrst á grasið og grastegundir því engin planta ryðst eins yfir aðrar og gras. — Og vel að merkja mest allt ræktað gras er af erlendum fræjum með grastegundum sem ekki voru hér þegar landnám hófst — jafnvel ekki á 19. öld.

Helgi Jóhann Hauksson, 1.7.2013 kl. 16:00

10 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Sigurður, skyldi lúpínan geta útrýmt kerflinum?

Hvað segja lúpínuvinir um það?

Kolbrún Hilmars, 1.7.2013 kl. 17:40

11 Smámynd: Ágúst H Bjarnason


Ég hef í rúman áratug verið að dunda við að bæta land sem var illa farið af ofbeit og traðki. Ég hef þó ekki þurft að nota lúpínu, heldur hefur friðun, dálítil gróðursetning og smá áburður hér og þar gjörbreytt landinu. Nú er ég jafnvel farinn að finna sjálfsáð birki á stöku stað.

Það er ekki aðeins að landskikinn er víða orðinn fallegri og hlýlegri, heldur hefur fuglalífið aukist verulega öllum til ánægju.

Árlega legg ég leið mína upp á Haukadalsheiði þar sem mikill uppblástur hefur verið. Þar hefur lúpínan gert kraftaverk og víst er að án hennar væri enn gríðarlegt moldryk af heiðinni eins og var fyrir nokkrum áratugum. Þá lagði dökkan rykmökk af henni langt suður í sveitir þegar blés af norðri. Það var hvorki fallegt né þægilegt. 

Þegar ég kom þangað fyrst fyrir rúmri hálfri öld var þar ekkert annað en stórgrýtisurð ásamt stöku rofabörðum sem voru til vitnis um forna frægð. Þessi rofabörð eru víða nokkurra metra há sem sýnir okkur hve mikill jarðvegur hefur fokið af heiðinni.

Nokkrir bloggpistlar, sumt um lúpínuna á Haukadalsheiði.

Aldingarður á hálendinu með hjálp lifandiáburðarverksmiðju...
http://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/entry/1072330/

Lúpínan á Haukadalsheiði - Myndir...
http://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/entry/1074978/

Lúpínufuglar...
http://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/entry/1215735/

Hörfar lúpínan þegar hún hefur unnið sitt verk...?
http://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/entry/1217294/

Lúpínan hefur víða gert kraftaverk, en það er ekki þar með sagt að hún eigi alls staðar við.

Ágúst H Bjarnason, 1.7.2013 kl. 19:29

12 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Lúpínan er mikil galdraplanta og persónulega finnst mér hún falleg og prýði af henni.

Lúpínan hörfar undan kerfli eins og hefur víst sýnt sig í Esjuhlíðum. En varðandi það hversu hratt lúpínan hörfar undan trjágróðri þá hef ég oft heyrt talað um 40 til 60 ár við íslenskar aðstæður.

Annars sýnist mér að það geti gerst mun hraðar. Fyrir c.a. 25 árum vann ég við gatnaframkvæmdir í Grafarholti (Keldnaholti, þ.e. ofan við Keldur og vestan við Suðurlandsveg), þar var á þeim tíma dæmigert holt með stórgrýti og lyngi. Fallegt en gróðurfarslega eins og hálendi í 1000 m hæð. Lúpínan dreifði sér yfir holtið á innan við áratug en fljótlega voru sjálfsáðar víðiplöntur farnar að skjótast upp úr breiðunni. Síðast þegar ég keyrði framhjá að sumarlagi (fyrir um 5 árum) voru vel sýnilegir runnar, allt að mannhæðarháir, búnir að ná rótfestu.

Hlýnun á Íslandi síðustu 2 áratugi hefur stórlega aukið magn sjálfsáð birkis og annarra trjátegunda og aukið vaxtarhraða þeirra verulega. Ég myndi því giska á að hörfunartími lúpínunnar sé núna að nálgast það sem þekkist í Kanada, 20 til 30 ár en ekki 40 til 60 eins og talað hefur verið um hér á Íslandi.

Brynjólfur Þorvarðsson, 2.7.2013 kl. 03:42

13 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Sjálfsáinn trjágróður er einmitt farinn að vera mjög áberandi kringum höfuðborgarsvæðið og ég man að það var farið að tala um vísi að honum kringum Vesturlandsveg þegar ég var á RALA 1986. En þessi nýji trjágróður hefur alls ekk stungið sér meira niður þar sem lúpínan er eða hefur verið. Það er bara svo mikið fræmagn í boði á svæðinu vegna trjágróðurs í þéttbýlisinu að holt og móar vaxa upp. Síðan skiptir auðvitað líka máli að svæðið er friðað fyrir beit og hlýindi hafa ríkt síðustu 10-15 ár.

Emil Hannes Valgeirsson, 2.7.2013 kl. 09:15

14 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir fyrir innlitið, Ágúst. Mæli með því að fólk líti inn á bloggið hjá sér og lesi, sjá athugasemd nr. 11. Hverjar svo sem skoðanir manna eru þá held ég að allir telji þessa pistla fróðlega.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 2.7.2013 kl. 09:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband