Arfakóngurinn í nábýlinu

Ég er enn í miðri kennslustund, og nú þarf ég að hreyfa aðeins við þeim sem farnir eru að dotta. Ég bið hópinn um að finna skemmtilegt orð sem megi nota yfir plástur. Þögn. »Meinloka,« segi ég. Hlátur. En hvað um kirkjugarð? Þögn. »Nábýli,« segi ég. Hlátur. Að lokum: Finnið annað orð yfir garðyrkjumann! Þögn. »Arfakóngur,« segir kennarinn. He, he.

Í Morgunblaðinu er mikið af góðum dálkum sem eru afar fróðlegir. Ég hef minnst á nokkra hér í pistlum mínum. Vil nú vekja athygli á Tungutaki Baldurs Hafstað í dálkinum Málið sem nokkrir góðir íslenskumenn halda út. Ofangreint ritar Baldur í blaðið í dag.

Af hógværð og gamansemi bendir Baldur á hversu mikilvægt er að vanda málfarið svo aðrir misskilji ekki. Hann segir í upphafi:

Ég er áhugamaður um greinarmerki og tel að allir kennarar ættu að fara yfir reglur um þau með nemendum. Það er t.d. sjálfsagt að afmarka ávarp með kommu: »Heill og sæll, Guðmundur minn, og gleðilegt sumar.«

Lítum á eftirfarandi málsgrein: Umsjónarmaðurinn sagði skólastjórinn er asni. Án greinarmerkja leynast hér tvær andstæðar merkingar:

»Umsjónarmaðurinn,« sagði skólastjórinn, »er asni.«

Og:

Umsjónarmaðurinn sagði: »Skólastjórinn er asni.« 

Þetta hljóta allir að átta sig á.

En svo heldur Baldur áfram og skemmtir lesandanum: 

Enn er eitthvað eftir af kennslustundinni. Hvernig væri að nota tímann til að sýna fram á að setningafræði sé skemmtileg? Kennarinn: »Ég hitti Jóhannes í Bónus.« Þögn. »Í Bónus hitti ég Jóhannes.« Þögn. »Semsagt: Ég get tekið forsetningarliðinn 'í Bónus' og fært hann til innan setningarinnar ef þessi Jóhannes er ekki hinn eini og sanni Jóhannes í Bónus. Með öðrum orðum: 'Í Bónus' er í seinna tilvikinu alveg sjálfstæður setningarliður. Þessi Jóhannes var bara staddur í Bónus þegar ég hitti hann (hann hefur aldrei komið nálægt verslunarrekstri). Í fyrra tilvikinu er 'í Bónus' aftur á móti óaðskiljanlegur hluti Jóhannesar. Ég hitti semsagt sjálfan Jóhannes í Bónus - inni á öræfum!

Ég læri yfirleitt eitthvað af því að lesa svona skemmtilega og fræðandi pistla. Ástæða er til að þakka Morgunblaðinu fyrir að bjóða upp á fræðslu og Baldri og kollegum hans fyrir fræðsluna.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband