Er ófrelsi fíkils helsi annars?

Einn af betri blaðamönnum Morgunblaðsins skensar í blaðinu í morgun sjálfstæðismenn fyrir að samþykkja ályktun um að fólk eldra en 18 ára geti keypt áfengi og það verði til sölu í matvöruverslunum.

Árni Matthíasson segir í pistli sínum:  

Semsé: Það er eitt af stefnumálum Sjálfstæðisflokksins í dag að auka áfengisneyslu, sem rímar vel við stefnumál flokksins fyrir aldarfjórðungi. 

Það er eðli ungmenna að átta sig ekki á hvaða hættur lífið ber með sér. Þau eru upp full með trú á mannsandann, að öll dýrin í skóginum séu vinir innst inni, fólk leiti sjálfkrafa í hið góða og hafni illu og allir séu alltaf færir um að taka þær ákvarðanir sem séu þeim til góðs. Þessi barnslega, en þó í senn fallega, trú á manninn birtist gjarnan í ályktunum ungra hægrimanna og í ályktunum ungra vinstrimanna; helst að skilji á milli að ungir hægrimenn hafa trú á einstaklingnum en ungir vinstrimenn á samfélaginu. 

Ofangreind tillaga ungra sjálfstæðismanna er gott dæmi um grunnhyggnina sem svo oft einkennir ungt hægrisinnað hugsjónafólk og suma langt fram eftir aldri. Málið er nefnilega það að þó það sé heillavænlegast í höfuðdráttum að hver einstaklingur hafi frelsi til að fara svo með sjálfan sig sem honum sýnist, strandar sú frelsishugmynd á fíkninni, því fíkillinn er aldrei frjáls. 

 

Þó vel sé ritað og rökstutt er ég ekki sammála Árna. Hættur lífsins eru margar og sumar vissulega alvarlegar. Ef til vill væri best að halda sig öllum stundum innandyra til að varast ógnirnar. Þannig hagar sér enginn. Við bönnum ekki bíla þó einstaklingar geti með þeim valdið tjóni á sjálfum sér, öðrum eða eignum. Við bönnum ekki beitta hnífa þó þeir geti verið hættulegir. Enn er hægt að kaupa byssur hér á landi þó almenna reglan sé sú að handbyssur eru bannaðar.

Sá sem er orðinn átján ára er treyst fyrir því að velja sér maka, hafa forræði fyrir eigin fé og hvort tveggja er skiptir alla einstaklinga miklu máli. Hvers vegna að undanskilja áfengi? Það hef ég aldrei skilið. Vín getur verið voði. Við Árni erum nógu gamlir til að vita það og eflaust höfum við báðir horft á ýmsa samferðamenn okkar misnota það og klúðra tilveru sinni. Áfengið er þó ekki höfuðvandinn, það er einstaklingurinn að það hóf sem hann temur sér. Sá mælikvarði er misjafn.

Og hvað er það sem kallað er grunnhyggni? Jú, sú einfalda lífsskoðun að einstaklingnum á að treyst fyrir eigin lífið, taka ákvörðun um það sem honum er fyrir bestu. Undantekningar frá þessu og varða fullorðið fólk er afskiptasemi sem á ekki að líðast.

Sá sem ánetjast áfengi á vissulega í miklum vanda. Sama er með þann sem veikist, slasast eða lendir í öðrum hremmingum. Það breytir hins vegar ekki því að aðrir njóta þess sem lífið býður upp á þó svo að samúðin sé til staðar. Ófrelsi fíkilsins á ekki að þurfa að hafa þær afleiðingar að einhver hannar upplifi helsi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband