Hafa þessir fossar breyst eitthvað á 100 árum?

Eitt hundrað ár er hrikalega langur tími enda ná fæstir þeim aldri, fyrr rennur ábyrgðin út, ljósið slokknar og sálin flögrar út í eilífðina. Þó landið okkar teljist frekar ungt og er enn að breytast verðum við lítið vör við breytingarnar, allt gerist svo ósköp hægt og rólega. Værum við hins vegar uppi á árinu 1000, gætum tekið landslagsmyndir, flutt með okkur til nútímans og borið saman við landið okkar eins og það lítur út í dag yrðum við eflaust dálítið hissa á breytingunum. Þetta getum við þó ekki gert, tímaferðir eru ekki mögulegar. Hins vegar getum við farið einn tíunda þessa tíma til baka og skoðað myndir sem teknar voru fyrir eitt hundrað árum. 

Öxararfoss - Version 2Öxarárfoss 800920-8 - Version 2

Ég hef óskaplega gaman af gömlum ljósmyndum, því eldri sem þær eru þeim mun ánægjulegra. Ástæðan er einfaldlega sú að breytingar á landi og landslagi heilla mig mikið.

Á vef Landmæling Íslands eru myndir sem danskir landmælingamenn tóku á fyrsta áratug síðustu aldar. Þarna kannaðist dálítið við landslag og kennileiti. Ég ætla hérna að taka til nokkrar myndir sem eru slíkar að ég á myndir teknar af svipuðum sjónarhornum. Það gæti verið skemmtilegt til samanburðar.

Myndirnar af Öxarárfossi eru teknar af þaðan sem tugþúsundir manna hafa í gegnum árin staðið og myndað. Ég þurfti samt að leita um þrjátíu ár aftur í tímann til að finna samanburðahæfa mynd og tókst það með því að skera hana dálítið til.

Hið fyrsta sem ég tók eftir með samanburðinum er að gróður er talsverður á litmyndinni en hann greinist ekki á þeirri eldri. Að mestu er þetta þó allt með kyrrum kjörum, sáralitlar breytingar hafa orðið nema hvað strýtan efst á gömlu myndinni eru horfinn og grjótið við hylinn og í farveginum hefur hreyfst dálítið til.

DSC_0519 - Version 2Seljalandsfoss 1900 - Version 2

Seljalandsfoss þekkja flestir og hér er aldagömul mynd af honum. Í fljótu bragði sé ég engar breytingar sem máli skipta. Hins vegar sé ég margt á báðum myndum sem hefur haldið sér.

Takið eftir hólnum uppi, vinstra megin við fossinn. Jafnvel hægri hlið hans sem virðist nokkuð skörðótt niðri við ánna er eins. Að óreyndum hefði manni getað dottið í hug að áin myndi ryðja hólnum í burtu, en það gerðist ekki.

Enn kemur miga undan hólnum, vinstra megin við þúfu eða ójöfnum framarlega í honum, vinstra megin.

Hvelfingin bak við fossinn er óbreytt þó ég sé nú ekki viss um að dönsku landmælingamennirnir hafi hugkvæmst að ganga bak við hann.

Tökum líka eftir fossinum sjálfum. Hann er í meginatriðum eins. Á litmyndinni gæti verið minna vatn í honum. Megnbunan kemur eins og alltaf fram hægra megin.

Skoðum síðan þversprungur sem eru víða í hömrunum, til dæmis þá sem er efst uppi hægra megin og finnst líka á litmyndinni. Fyrir neðan hana virðist þó hafa hrunið úr bergveggnum.

Foss Bergárdal 1900 - Version 2Foss Bergárdal - Version 2

Þriðji og síðasti fossinn er sá neðsti í fossaröð sem mér fannst svo ákaflega kunnugleg en kom henni alls ekki fyrir mig. Leitaði og leitaði í myndasafninu mínu, en án árangurs. Svo datt lausnin ofan í kollinn á mér og ég mundi hvar þessi foss er.

Fossinn hafði ég fyrir augunum í nokkur ár er ég bjó á Höfn í Hornafirði. Ekki mundi ég nafnið á honum og þurfti að fletta því upp. Á landkorti segir að hann heiti Bergárfoss. Hann er framan við Bergárdal, einstaklega fallegan dal sem gengur bratt upp norðan við Miðfellstind. Hins vegar er ég enn ekki alveg viss um nafnið en ég fæ áreiðanlega staðfestingu á því áður en langt um líður.

Fremst á gömlu myndinni er kassi sem notaður hefur verið undir farangur og festur á hest.  

Ég fann mynd sem að vísu er tekin aðeins sunnar en sú gamla og sýnir ekki fossana fyrir ofan. Hún dugar engu að síður.

Enn er allt með kyrrum kjörum. Eitt hundrað ár hafa ekki breytt landslaginu að neinu leit, að minnsta kosti ekki án þess að rannsaka myndirnar í þaula. Fossinn er eins, hann fellur enn niður á þrep og flæðir þaðan niður það og síðan um grjótið fyrir neðan og niður á láglendið. Klettarnir fyrir ofan eru eins eftir því sem best verður séð.

Hið eina sem hefur breyst að einhverju ráði er gróðurinn. Mér sýnist að á gömlu myndinni sé mosi fremst á myndinni en á litmyndinni hefur grasið teygt sig út um allt, jafnvel á sylluna bak við fossinn.

Læt þetta nú dug í bili. ég er með nokkrar aðrar myndir sem ég er að vinna í og birti bráðlega. Verð að taka það fram að gömlu myndirnar eru flestar svokallaðar steríómyndir, nokkurs konar þrívíddarmyndir þessa tíma, skoðaðar undir tvískiptu gleri. Ég hef klippt út aðra myndina, lagað hana til, lýst hana upp eða dekkt eftir því sem þörf hefur verið á. Einnig hent út stórum rispum eða blettum svo þá séu skemmtilegri á að sjá. Engu sem máli skiptir hef ég breytt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Frábært,  nokkuð sem ég hef hugsað lengi en ekkert gert með. Þakka þér fyrir S, Sigurðarson.  

Hrólfur Þ Hraundal, 27.1.2013 kl. 21:53

2 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Vel að merkja er Öxarárfoss elsta dæmið um „náttúruspjöll“ Íslendinga. Hann er nefnilega manngerður. Fornmenn veittu Öxará í núverandi farveg til að fá aðgang að rennandi vatni á þingstaðnum.

Vilhjálmur Eyþórsson, 28.1.2013 kl. 00:28

3 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Flottar myndir, fátt sem breytist á 100 árum í dauðu landslagi. En rétt er að benda á, varðandi Öxará, að haftið framan við drekkingarhyl var sprengt niður árið 1930 og áin lækkaði talsvert þar, hvort það hafi haft áhrif á grjótið uppi við fossinn veit ég ekki.

Vilhjálmur bendir á að Öxarárfoss er ekki nema rúmlega 1000 ára gamall - annað landslag á Íslandi af sömu stærðargráðu er trúlega hátt í tífalt eldri, að miklu leyti óbreytt frá lokum isaldar (nema þar sem eldvirkni ræður ríkjum).

En hvort Öxaráin hafi verið færð í núverandi farveg til þess eins að skaffa drykkjarvatn á Alþingi - sú saga er trúlega röng enda ótrúverðug þegar maður hugsar sig nánar um. Vatn er aðgengilegt í miklu magni skammt undan, Flosagjáin t.d. einhver fullkomnasti vatnsbrunnur sem hugsast getur.

Sturlunga segir frá flutningi árinnar og tilkomu nafnsins, en Ketilbjörn landnámsmaður sökkti öxi í ísilagða ánna. Þetta virðist vera nokkurs konar helgiathöfn, vök er gerð og öxinni sökkt í hana. Sumum hefur þótt sennilegt að þarna hafi áin verið helguð sem mörk landnámsins. Tilfærsla árinnar gæti því hafa átt sér pólítískan tilgang, þ.e. að færa þingstaðinn inn í landnám Mosfellinga, hugsanlega í gjörningaveðri því sem virðist hafa orðið á fyrri hluta 11. aldar.

Fornmenn létu sér fátt um finnast að halla réttu máli, frásögn Ara af vali á þingstað er t.d. einstaklega ótrúverðug og hann nefnir ekki flutning árinnar. En Ari var jú líka af Mosfellingaætt.

Brynjólfur Þorvarðsson, 28.1.2013 kl. 07:10

4 Smámynd: Börkur Hrólfsson

Frábært, ég var einmitt að velta þessu fyrir mér, þegar ég sá þessar myndir. Eitt mun ég skoða á eftir, það er hvort bygging brúar yfir Öxará 1907, hafi breytt vatnshæð í drekkingarhyl. Til er mynd frá Íslandsfaranum Howell frá 1900, og ég á margar myndir af drekkingar hyl sjálfur.

Börkur Hrólfsson, 28.1.2013 kl. 09:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband