Hellisheiðarvirkjun í skýrslunni um OR

IMG_0212 - Version 2

Skýrslan um Orkuveitu Reykjavíkur er saga skelfilegra mistaka, vanþekkingar og óheiðarleika. Í góðri fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag er rakið hvernig arðsemi Hellisheiðarvirkjunarinnar var vægast sagt óljós í upphafi.

Heildarkostnaður við virkjunina er um 73 milljarðar króna en átti að kosta 20 milljarða. Við sem þekktum landið þar sem framkvæmdirnar var lagt undir þekkjum það ekki lengur.

Vanfærður kostnaður, sá sem ekki er hægt að færa til nokkurrar bókar, er sá að Hellisheiði og Hellisskarð hefur verið eyðilög sem og Kolviðarhóll, Hamragil, Sleggjubeinadalur sömu leiðis. Stórlega sér á Skarðsmýrarfjalli, Hellisskarð, einnig svæðinu norðvestan við Kolviðarhól, sunnan Húsmúla og norðan við Gráuhnúka.

DSC_0205

Þarna var reist virkjun sem lítur einna helst út fyrir að vera flugstöð án flugbrauta. Ljótt mannvirki og gjörsamlega án nokkurra tengsla við umhverfi sitt.

Á Kolviðarhóli og nágrenni hefur verið vaðið áfram, lagt í landið með stórvirkum vinnuvélum og því gjörbylt, eyðilagt.

Í upphafi var ekki rætt um umhverfið og sagt si svona: Hér er fallegt land. Nú skulum við byggja jarðvarmavirkjun án þess að eyðileggja landið. Reynum eftir því sem kostur er að fela öll mannvirki, sýnum að umhverfismál eru okkar hjartans mál.

Nei, þess í stað var öllu umbylt og vinnubrögðin öll eru eins og í malarnámu undir Vífilsfelli. Allt er leyfilegt. Aðeins er spursmál hvenær farið verður inn í hinn fagra Innstadal eða litlu dalina vestan undir Hengil.

DSCN0611

Fram kemur í skýrslunni um Orkuveituna að þegar framkvæmdir hófust var ekki búið að fullmóta skipulag á svæðinu. Arðsemismat virkjunarinnar var ekkert, að minnsta kosti hafa höfundar hennar ekki fengið neitt slíkt í hendur.

Alvarlegast er þó að virkjunin var sögð svo mikilvæg að ef hún kæmist ekki í notkun myndi verða heitavatnslaust í Reykjavík. Hvað nefnist það á kjarnyrtri íslensku þegar vísvitandi er farið með rangt mál?

Svo er það allt annað og miklu alvarlegra að vísindamenn eru ekki á einu máli um endingu þess forða sem undir virkjuninni er. Margir hafa rætt um þetta og því er jafnvel haldið fram að Hellisheiðarvirkjun muni verða uppiskroppa með heitt vatn eftir tuttugu ár ...

Það er því ekki furða þótt Orkuveitan hafi verið uppnefnd hryðjuverkasamtök vegna Hellisheiðarvirkjunar og annarra mála.  

Efstu tvær myndirnar voru teknar fyrir ári en sú neðasta fyrir sex árum og hún sýnir landið undir Gráuhnúkum, sunnan suðurlandsvegar. Þar hefur leiðslunum nú verið fjölgað um tvær. Þarna fer fram niðurdæling sem valdið hefur miklum jarðskjálftum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband