Þegar fjall hverfur fyrir fullt og allt

DSC00014 - Version 2
Land breytist. Það er líklega óhjákvæmilegt á Íslandi. Verra er þó ef mannfólkið tekur sér það bessaleyfi að breyta landslagi rétt eins og það sé að færa til húsgögn í stofunni heima.
 
En við þurfum að lifa í landinu. Því fylgir stundum mikill kostnaður fyrir náttúru landsins. Um það er ekki deilt heldur hvernig staðið er að hlutunum.
 
Ómar Ragnarsson birti á bloggi sínu fyrir tveimur dögum hvernig Landsvirkjun hefur vegið illa að Víti við Kröflu með því að búa til tíu þúsund fermetra „borholuplan“ þar við hliðina á náttúruundri.
 
Ég hef stundum gagnrýnt harðlega hvernig Orkuveita Reykjavíkur hefur staðið að málum við svokallaða Hellisheiðarvirkjun. Þar hefur fallegt útivistarsvæði gjörsamlega verið eyðilagt.

DSCN1486 - Version 2
Norðan undir Vífilsfelli hefur í rúman áratug ef ekki lengur verið malarnáma, raunar frekar snyrtileg, og eiginlega ósýnileg allri umferð um Suðurlandsveg. Þar var lítið strýtulaga fell sem nú er horfið. Lengi var uppgönguleiðin skammt sunnan við það, lengst til hægri á efstu myndinni.
 
Hér eru þrjár myndir af litla fellinu. Efstu myndina tók ég 17. júní 2006. Malarnámið sést ekki á myndinni en þarna er byrjað að kroppa í landið og stefnan sett á fellið. Í því hefur áreiðanlega verið „gott efni“.
Næstu mynd tók ég tæpu ári síðar, 22. apríl 2007. Þá voru vélarnar farnar að narta í suðurhluta fellsins og greinilegt hvert stefndi.  

IMG_0545 - Version 2
Þriðju síðustu myndina tók ég á sumardaginn fyrsta í ár, 19. apríl. Þar er er ljóst að framkvæmdirnar eru ekki „afturkræfar“ svo gripið sé til vinsælasta frasans í umhverfismálum. Fellið er að mestu leyti farið, landi hefur verið breytt til framtíðar. 
 
Oft eru dýralífsþættir sýndir í sjónvarpi. Þar sjást háhyrningar ráðst á og drepa seli eða mörgæsir, krókódílar éta marga þá sem fara niður að vatninu til að drekka, ljónin sitja fyrir seprahestunum og svona má lengi telja. Sitja vélarnar fyrir fjöllnum?
 
Veru okkar í landinu fylgir kostnaður fyrir náttúru landsins, sagði ég í upphafi. Það er vissulega rétt. Málið snýst hins vegar ekki um það heldur þá einföldu staðreynt að ekki er sama hvernig við göngum um landið, hvernig við meðhöndlum það. Sagan um dauða fellsins fjallar um þann ógnarkraft sem maðurinn býr yfir. Við getum breytt landinu, fjarlægt fjöll, holað þau að innan gert vegi um þau og svo framvegis. Okkur er eiginlega ekkert ómögulegt og þar með er þá talið að við höfum einnig getuna til að gera landið enn betra, endurheimta margvísleg gæði sem tapast hafa vegna verka forfeðra okkar. Við höfum einnig þá glöggu yfirsýn að geta tekið þannig á málum að afkomendur okkar þurfi ekki einu sinni að reyna að bera í bætiflákann fyrir okkur hvað þá að þeir þurfi að laga það sem við höfum skemmt. Væri það nú ekki jákvætt markmið?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Sigurður. Takk fyrir þennan fróðlega pistil með myndum sem sýna staðreyndir.

Kapp er best með forsjá.

Við manneskjurnar þurfum að ábyrgjast gróðabröltið og röskun náttúrunnar. Þeir sem vilja umbreyta viðkvæmu landi í ímyndaðan gróða (skjótfenginn innistæðulausan ofurpeninga-gróða), verða að vera með ábyrðartilfinninguna og forsjálnina í lagi.

Ómar Ragnarsson hefur því miður ekki fengið þá áheyrn sem hann á skilið, miðað við hvað hann hefur oft ábyrga, skynsamlega og rökrétta sýn og þekkingu á því sem hann fjallar um.

Svo koma elítu-valdagosarnir fram í drottningarviðtölum þegar staðreyndirnar og afleiðingarnar koma fram, og segjast "ekkert hafa vitað að svona myndi fara". Þeir vita auðvitað aldrei neitt um hvernig getur farið, sem loka bæði augum og eyrum fyrir viðvörunum frá ábyrgu fólki með raunverulega þekkingu og brjóstvit.

Þeir eru of margir sem selja ábyrgðartilfinningu, sálu sína og sannfæringu til óábyrgra heims-pólitíkusa og valdamanna/kvenna, sem kunna ekkert annað en að skemma og tortíma öllu sem er eðlilegt og heilt, fyrir innistæðulausan gróða fárra manna.

Erfðabreytt ræktun er gott dæmi um óábyrg verk í ósnortinni náttúruauðlind (auðlind sem er ómetanlega mikils virði). Það þarf ekki meir en hressilegan storm á íslenska vísu, til að splundra byrðargeymslum erfðarbreyttra matvæla, með þeim afleiðingum að erfðarbreytt fræ dreifast um ósnortna náttúruna.

Það er ekki nóg að hafa einn dag á ári sem kallast: dagur Móður Jarðar, heldur þurfa allir dagar að vera tileinkaðir henni, með tilheyrandi virðingu í verki, en ekki bara í orði.

Mesta ríkidæmi Íslands er ósnortin og vel með farin náttúran, ásamt mjög miklu magni af hreinu vatni, sem heimsbyggðin veit að er hið raunverulega gull framtíðarinnar á jörðinni. Það þarf að kosta til eðlilegu og öfgalausu eftirliti, og stjórna á ábyrgan öfgalausan hátt nýtingu og yfirferð landsins.

Ætlum við að leyfa það að verðmætustu auðæfunum sé fórnað fyrir falska og verðmætalausa peninga handa útrásar-spilafíklunum?

Væri ekki rétt að skrúfa fyrir vatnsveituna í nokkra daga, til að minna fólk á hvers virði það er að hafa hreint og rennandi kalt vatn í krananum heima hjá sér. Sum börn trúa því í dag að mjólkin verði til í mjólkurfernunum, og sumir fullorðnir trúa því að hreint vatn séu sjálfsögð verðmæti, sem komi beint frá krananum.

Hvers vegna fá erlend glæpafyrirtæki verðmæta hreina vatnið ókeypis til álframleiðslu, og rafmagnið á útsöluverði? Hvers konar rányrkja er þetta eiginlega á verðmætustu auðlind jarðarinnar, sem er hreina vatnið? 

Fólk lærir af reynslu, og þeir sem aldrei fá neina reynslu læra ekki að meta verðmætin sem þeir hafa, þrátt fyrir allar skólabækurnar sem það er látið lesa sig reynslulaust í gegnum.

Ég þakka fyrir það á hverjum morgni að hafa það sem ég hef, og fyrir að búa í herlausu og hreinu landi. Ég vildi að allar þjóðir byggju við sama auðinn og er hér á landi. Ekkert er sjálfsagt í veröldinni.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 24.4.2012 kl. 06:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband